25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2761 í B-deild Alþingistíðinda. (2361)

276. mál, nýting lánsfjár úr Iðnlánasjóði

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda þá beinir hún til mín þremur fsp, á þskj. 511:

1. Hversu mikið af húsnæði, sem byggt hefur verið fyrir lán úr Iðnlánasjóði, hefur verið tekið til annarra nota en iðnaðarstarfsemi?

2. Hvernig er eftirliti með nýtingu lánsfjárins háttað?

3. Hve mikið af lánsfénu hefur verið endurkrafið vegna rangrar nýtingar?

Ráðuneytið hefur leitað til Iðnlánasjóðs til upplýsingaöflunar og svar Iðnlánasjóðs er svohljóðandi - en svörin eru ekki nauðsynlega í sömu röð og spurningarnar:

Um síðustu áramót voru útistandandi hjá Iðnlánasjóði um 1720 byggingarlán sem voru frá því að vera nokkrir tugir þúsunda að eftirstöðvum í allt að um 15 millj. kr. Alls eru útistandandi byggingarlán hjá sjóðnum 31. des. 1985 um 1,4 milljarðar kr. Ljóst er að með slíkum fjölda lána dreift um allt land er erfitt og kostnaðarsamt að koma á nákvæmu eftirliti.

Með stóraukinni eftirspurn til sjóðsins á s.l. tveimur árum, m.a. til bygginga og kaupa á iðnaðarhúsnæði, hefur þörfin fyrir eftirlit með nýtingu iðnaðarhúsnæðis sífellt farið vaxandi. Var starfslið sjóðsins á síðasta ári aukið, m.a. til þess að annast eftirlit með fyrirtækjum sem hafa fengið lán hjá sjóðnum. Samþykktir sjóðsstjórnar á byggingarlánum eru byggðar á þar til gerðum umsóknum þar sem gerð er grein fyrir þörf fyrir húsnæði ásamt nýtingu þess. Auk þess eru meiri háttar fjárfestingar skoðaðar og metnar sérstaklega. Stjórn sjóðsins tekur mið af þessum atriðum við ákvörðun um lánafyrirgreiðslu. Hámarkslán í hverju tilfelli er um 45-50% af fjárfestingarkostnaði og oft talsvert lægra hlutfall ef nýting húsnæðisins er ekki eingöngu til iðnaðarreksturs. Við eigendaskipti á iðnaðarhúsnæði þar sem gert er ráð fyrir yfirtöku kaupanda á áhvílandi iðnlánasjóðsláni ber samkvæmt ákvæðum skuldabréfa sjóðsins að leita eftir samþykki framkvæmdastjórnar sjóðsins. Meiri hluti iðnaðarhúsnæðis eru sérbyggð hús sem henta helst undir iðnrekstur. Þegar um er að ræða kaupanda sem rekur iðnaðarstarfsemi er yfirtaka lána undantekningarlaust heimiluð. Ef kaupandinn er ekki starfandi í iðnaði er seljanda gert að flytja lánið á aðra eign, ef það á við, eða greiða lánið upp að öðrum kosti.

Í örfáum tilfellum hefur það verið mat stjórnar sjóðsins að hagsmunum hans eða viðkomandi iðnfyrirtækis hafi verið betur borgið með því að heimila aðila sem ekki stundar hefðbundinn iðnað yfirtöku á iðnlánasjóðsláni. Ekki liggur fyrir hvað þannig útlán gætu verið stór í fjárhæðum en fullyrða má að það er ekki yfir 1-2% heildarútlána sjóðsins til byggingarfjárfestinga.