25.02.1986
Sameinað þing: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2762 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

276. mál, nýting lánsfjár úr Iðnlánasjóði

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans, en ég er ekkí ánægð með þau.

Það er alveg ljóst að stjórn Iðnlánasjóðs virðist ekki hafa hugmynd um að hve miklu leyti þeir peningar, sem lánaðir hafa verið úr sjóðnum til uppbyggingar iðnaðar, eru nýttir til þess.

Það er auðvitað sjálfgefið að sé notkun á því húsnæði, sem byggt hefur verið með lánum Iðnlánasjóðs, breytt og t.d. farið að reka verslun í því húsnæði, þá verða þau lán að greiðast til baka. Það eru afgerandi ákvæði í lögum um Iðnlánasjóð til hvers fé sjóðsins á að fara, enda er það iðnaðurinn í landinu sjálfur sem greiðir kostnaðinn.

Ég sé heldur ekki hvaða þýðingu það hefur að sé iðnaðarhúsnæði selt til annarra nota að þá sé - ef ég skildi ráðherra rétt - lánið flutt á aðra eign. Ég skildi ekki hvort það er önnur eign kaupandans eða eign þar sem einhver iðnaður fer fram. Ég átta mig ekki á hverju það í raun og veru breytir. En það er þó gleðilegt að eftirlit hefur verið aukið og mér sýnist ekki veita af því. Því það segir okkur auðvitað ekki neitt um nýtingu þessa fjár hve miklar útistandandi skuldir eru úr Iðnlánasjóði ef við vitum ekkert hvernig það nýtist.

Ég er t.d. nokkuð viss um að stórhýsi Þýsk-íslenska verslunarfélagsins var byggt að verulegu leyti fyrir fé úr Iðnlánasjóði. Ég get ekki séð að þar fari nein iðnaðarstarfsemi fram. Þannig held ég að mætti lengi telja. Þetta er auðvitað ekki að fara að lögum, nema síður sé, og ég skora á hæstv. iðnrh. að reyna að bæta úr þessu og tryggja það að lögin um Iðnlánasjóð sem hv. alþm. settu hér í góðri trú séu notuð til þess sem hið háa Alþingi ættaði.