26.02.1986
Efri deild: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2772 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

288. mál, kostnaðarhlutur útgerðar

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um sérstakan kostnaðarhlut útgerðar. Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla mjög mikið um mál þetta því að það er hv. þdm. kunnugt frá fyrri tíð. Hafa verið gerðar á lögum þessum nokkrar breytingar af og til þannig að það hefur komið til umfjöllunar á Alþingi árlega síðan lög þessi voru sett á sínum tíma með brbl. vorið 1983.

Frv. þetta gerir ráð fyrir því að auka þann hluta kostnaðarhlutar útgerðar, sem til skipta kemur, um 2,5%. Ákvörðun þessi er tekin fyrst og fremst í ljósi þess að afkoma útgerðar hefur farið batnandi, olíuverð hefur lækkað og afli aukist nokkuð. Um þetta mál var fullt samkomulag við fiskverðsákvörðun sem tekin var 13. febr. 1986. Forsenda þeirrar fiskverðsákvörðunar af hálfu sjómanna og útgerðarmanna var sú að þessi breyting væri gerð.

Með frv. þessu fylgja frétt frá Verðlagsráði sjávarútvegsins um þá ákvörðun, rekstraráætlanir botnfiskveiða og -vinnslu miðað við fiskverðsákvörðun í febr. 1986, áætlað rekstraryfirlit frystingar og söltunar við fiskverðsákvörðun í febr. og bréf til Aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins um lægri bætur vegna útflutnings á svokölluðum gámafiski.

Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að frv. þessu verði vísað til 2. umræðu og hv. sjútvn. og mun frekari upplýsingum að sjálfsögðu verða komið á framfæri við nefndina eftir því sem hún óskar eftir.