26.02.1986
Efri deild: 51. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2772 í B-deild Alþingistíðinda. (2376)

288. mál, kostnaðarhlutur útgerðar

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni, eins og hæstv. ráðherra sagði, gamall kunningi sem hefur verið hér árlega á borðum þm. Þó er rétt að fagna því sérstaklega að það er þó þróun til annarrar áttar sem kemur fram í þessu frv., þ.e. að nú er farið að minnka kostnaðarhlut útgerðar og auka hlut sjómanna. Ég tel að það sé ekki verið að leggja þetta fyrir þing til annars en að samþykkja það. Um annað er ekki að ræða. Það er búið að ganga frá því á milli útvegsmanna og fiskvinnslunnar að þannig skuli gengið frá fiskverði sem hér er tíundað.

Við höfum fengið fréttir í dag um að verið sé að ganga frá samningum sem fela í sér, eftir því sem manni virðist, að vissir hlutir þurfi að koma hér inn á hv. Alþingi til staðfestingar, þ.e. þeir þættir sem ríkisstj. tekur til ábyrgðar. Það má segja sem svo að þetta sé kannske fyrsta frv. sem miðast við það að ríkisstj. tryggi að þessir samningar geti átt sér stað. Ég held að fiskverðssamþykktin hafi átt sér stað með þá hugmynd fyrir stafni að verðbólgan yrði fest einhvers staðar í eins stafs tölu, 9% eða kannske 7%, og að samningar milli sjómanna og útvegsmanna hafi byggst að miklu leyti á því.

Maður hefur heyrt það undanfarandi að fiskvinnslan í landinu sé ekki sérstaklega vel á sig komin. Þær fréttir bárust út í gær að fulltrúar fiskvinnslunnar mundu ætla að ganga á fund ríkisstj. - og þá sjálfsagt sjútvrh. fyrst og fremst - til að ræða við hana um stöðu fiskvinnslu ef ákveðið yrði að gengi yrði fest til nokkuð langs tíma. Ég held að það væri ástæða til að heyra það frá hæstv. sjútvrh. hver niðurstaða hafi orðið af þeim fundi, hver afstaða sjútvrn. og fiskvinnslunnar sé til þessa máls og hvernig áætlað er að staða fiskvinnslunnar verði á næstu mánuðum miðað við að gengið verði bundið. Ég tel að þetta mál og það frv., sem hér liggur fyrir, séu svo samtengd að eðlilegt sé að við fáum aðeins að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig staða mála sé í þessu nú þegar manni virðist sem verið sé að ganga frá því að gengið verði fest í ákveðinn tíma og að undirskrifa launasamning í landinu kannske út frá þeirri aðalforsendu þó að það hafi komið fram endurtekið frá fiskvinnslunni að mjög erfitt sé fyrir fiskvinnsluna að búa við það að gengið verði bundið til ákveðins tíma.