26.02.1986
Neðri deild: 52. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2776 í B-deild Alþingistíðinda. (2382)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Guðmundur Einarsson (frh.):

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni um þetta mál síðast að í það vantaði það eina sem skipti verulegu máli, þ.e. kaflann um sjálfsstjórn, kaflann um heimastjórn og það hvernig Alþingi svarar þeim sívaxandi kröfum fólks um allt land að fá að ráða meiru um eigin hagi. Ég lýsti því líka að það væri augsýnilegt að það ætti ekkert að ræða þetta mál í sambandi við frv., þ.e. heimastjórnarmálið, enda er það mjög í takt við það sem er að gerast þessa dagana að Alþingi komi sér hjá því að ræða eitthvað sem skiptir máli. Það er kannske vísast að senda þetta frv. upp í Garðastræti og fá þá yfirráðherrana Ásmund Stefánsson og Magnús Gunnarsson til að fjalla um þetta og gefa síðan ríkisstj., hvar sem hún er, álit á því hvort þeir telji að fylkisstjórnir, ömt eða einhvers konar heimastjórn sé það sem koma skal. Þetta verður kannske tekið fyrir í næstu samningum. Ég vil gera það að tillögu minni til ríkisstj., ef hún ekki treystir sér til að taka á þessu fylkjamáli sjálf, að hún fari þess þá á leit við aðila vinnumarkaðarins að þeir fjalli um þetta gaumgæfilega í næstu launasamningum vegna þess að í Garðastrætinu virðist vera orðið aðsetur landsstjórnarinnar. Menn geta síðan velt því fyrir sér hvort hugmyndir BJ um að það þurfi eitthvað að taka á stjórnkerfinu í þessu landi eigi ekki svolítið meira erindi en ýmsir hafa viljað vera láta. Mér sýnist að það sem er að gerast þessa dagana sé einhver stórkostlegasta vantraustsyfirlýsing á öllu stjórnkerfinu og öllu því lýðræðislega uppbyggða kerfi sem menn hafa sett upp hér síðan í lok stríðsins. Ég held að menn ættu að kíkja á hvort ekki sé komin ástæða til að ræða það á Alþingi hvort eitthvað þurfi á að taka.

Í þetta frv. til sveitarstjórnarlaga vantar sem sagt það eina sem skiptir verulegu máli, kaflann um hvernig hér yrði breytt til þess vegar að fólk fengi einhverju að ráða um eigin hagi. Það sem eftir stendur í þessu frv. er röð að tæknilegum „selvfölgelighedum“ sem engu máli skipta fyrir fólkið í landinu. Eina ástæðan fyrir því að það er verið að þræla þessu í gegn núna er að m.a. er hér kveðið á um kosningadag og þess vegna finnur ríkisstj. hjá sér vissa hvöt til að reka á eftir því og taka burt eina bitann sem einhverju máli skipti.

Ég veit ekki hvort þingið mun svara þeim sívaxandi kröfum sem eru allt í kringum okkur í samfélaginu um að taka á þessum heimastjórnarmálum. Hér var eitt tækifærið til þess, þ.e. í sambandi við frv. til sveitarstjórnarlaga, og það tækifæri hefur ekki verið notað. Það er annað tækifæri til þess, þar sem er till. til þál. um gerð frv. til stjórnskipunarlaga um fylkisstjórnir sem BJ flutti í haust. Þar er lagður fram rammi um þetta mál. Ég veit ekki hvort það verður fyrirskipun ríkisstj. til formanns hv. nefndar í Sþ., sem hefur með þetta mál að gera, að þetta mál verði ekki látið koma til umræðu heldur verði haldið uppi þeim sið að ræða hér alls ekki það sem einhverju máli skiptir. En það er mitt mat og okkar Bandalagsmanna að heimastjórnarmálið sé í raun og veru eitthvað það brýnasta sem menn geta fjallað um þessa dagana í sambandi við sveitarstjórnarmál. Tæknilegar lagfæringar á ákvæðum um endurskoðun og þess háttar eru auðvitað góðra gjalda verðar og slík endurskoðun á auðvitað sífellt að vera í gangi. Menn geta bisað við að breyta þessu og bæta þetta í smáatriðum eins lengi og þeir vilja, en þeir geta ekki komið sér hjá því endalaust að taka á stærsta þætti sveitarstjórnarmálanna sem er samband fólks í heimahögum og ríkisvaldsins og hvort ekki sé óumflýjanlegt að koma þarna upp nýju valdstigi, amti eða fylki, til að taka við verkefnum og völdum frá þeim valdstigum sem nú eru fyrir hendi.

Ég tel að fyrst ekki er ákveðið að taka þetta fyrir í frv. til sveitarstjórnarlaganna eins og það liggur fyrir hérna sé í raun og veru ekkert um það frekar að segja. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni síðast að það væri grundvallaratriði. Ég rakti dæmi um að miðstýring og sóun sem henni fylgir af ýmsu tagi er ein aðalskýringin á því hvers vegna hér á landi eru einhverjar hæstu þjóðartekjur í heimi, en einhver lélegasti kaupmáttur á Vesturlöndum. Menn verða að spyrja hvað gerist frá því að þjóðarkakan er bökuð og þangað til að sneiðunum er skilað til fólksins í landinu. Hér er bökuð einhver stærsta þjóðarkaka á Vesturlöndum, en sneiðarnar sem fólkið fær eru einhverjar þær minnstu. Það er skylda okkar að svara því af hverju þetta mylst niður á gólfið. Svarið felst m.a. í óhóflegri miðstýringu og óhóflegu valdaráni stofnana í Reykjavík sem hafa tekið til sín völd og forsjá frá fólkinu sjálfu og neita að skila því, neita því svo staðfastlega að þegar tækifærin koma upp í hendurnar, eins og þetta frv. hér, er kaflanum um það staðfastlega sleppt, en sjálfsagðir hlutir, eins og tæknilegar lagfæringar á ýmsum lagagreinum, látnir ganga fyrir og menn láta eins og hér sé verið að fjalla um stórmál. Þetta er smámál.