26.02.1986
Neðri deild: 52. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2778 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að beina örfáum spurningum til hv. formanns félmn. Nd. og frsm. meiri hl. ef hann væri hér í húsinu, en mun engu að síður hefja mál mitt því ég kem seinna að þessum spurningum ef það væri hægt að kanna hvort hann vildi vera viðstaddur umræðuna. - Hann er viðstaddur. Ég þakka fyrir.

Herra forseti. Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að sitja í svonefndri byggðanefnd þingflokkanna sem er skipuð fulltrúum allra þingflokka og var sett á laggirnar vorið 1984. Formennsku gegnir Lárus Jónsson, fyrrverandi þm. Sjálfstfl., núv. bankastjóri Útvegsbankans. Eins og viðstaddir vafalaust vita og muna var þessi nefnd þáttur í samkomulagi formanna stjórnarflokkanna eða formanna allra fjögurra gömlu flokkanna, ég man reyndar ekki hvort heldur var. Þessi nefnd átti vafalaust að friða þá sem voru ósáttir við breytingar á kosningalögunum sem gerðar voru það vor, en þær breytingar töldu margir þm. landsbyggðinni í óhag. Þessi nefnd hefur haldið allnokkra fundi. Þeir hafa að vísu legið niðri í meira en hálft ár þangað til í gær, en starfsmenn nefndarinnar hafa ekki setið auðum höndum og eru í miðjum klíðum að semja skýrslu sem okkur nefndarmönnum gafst raunar kostur á að kynnast lítillega á fundi í gær. Skýrslan verður væntanlega kynnt öðrum þm. síðar og mun stefnt að því að reyna að ná samkomulagi um hana fyrir lok þessa þings.

Því er ekki að neita að stundum hefur hvarflað að manni að þessi ágæta nefnd væri óþörf því reyndin er sú að flest það sem hún hefur verið að fjalla um og velta vöngum yfir hefur einmitt verið til umfjöllunar annars staðar í kerfinu. Svo er einmitt um það mál sem hér er til umræðu, þ.e. stjórnkerfi sveitarfélaganna, en það hefur verið til umræðu meira og minna á öllum fundum byggðanefndarinnar ef ég man rétt. Til okkar hafa komið ýmsir gestir, m.a. fulltrúar landshlutasamtaka, og upp hafa hlaðist gögn og skjöl. Engin endanleg niðurstaða er fengin af þessu starfi enn, ekki í tillöguformi eða neinu í þá veru, og fæst kannske ekki. Ég þori varla að vera svo bjartsýn. En eitt þykist ég þó mega fullyrða sem niðurstöðu af starfi og umfjöllun hv. byggðanefndar og viðræðum við fjölda aðila: Menn vilja breyta stjórnkerfi sveitarfélaganna og telja það raunar brýna nauðsyn og það virðist vera víðtækur vilji fyrir því að taka upp þriðja stjórnsýslustigið, þ.e. millistig á milli sveitarfélaga og ríkisvalds. Sé þetta rangt hjá mér kann ég ekki að túlka mál manna né öll þau bréf og skjöl og greinar í blöðum og tímaritum og aðra þá umfjöllun sem um þessi mál hefur verið. Þess vegna varð ég ekki lítið undrandi þegar ég sá niðurstöðurnar af starfi hv. félmn. þar sem um virðist vera að ræða algera uppgjöf gagnvart þessu atriði.

Þegar þetta frv. var lagt fram á síðasta þingi varð fljótlega ljóst að mikil og víðtæk óánægja var með IX. kafla frv. Þess vegna undrar mig út af fyrir sig ekki að honum skuli hafa verið hafnað. En það er sannarlega undrunarefni að sjá þar ekkert í staðinn. Sú niðurstaða hlýtur að valda mörgum miklum vonbrigðum eins og þegar hefur komið í ljós.

Það er mitt mat að það sé góður grundvöllur fyrir því að ná samkomulagi um að treysta lagalega stöðu landshlutasamtakanna og gera þeim fært að gegna þessu hlutverki sem þriðja stjórnsýslustiginu er ætlað.

Ég hef hins vegar ekki getað heyrt á máli þeirra, sem hafa í þessari umræðu skýrt störf félmn. Nd., að alvarleg tilraun hafi verið gerð til þess og það er miður að mínum dómi. Kvennalistinn er þeirrar skoðunar að stjórnsýslustigin þurfi að vera þrjú. Sérstaklega með tilliti til þess hve illa hefur gengið að fá sveitarfélögin til að sameinast og auka bolmagn til framkvæmda með því móti. Ég held að það sé þrautreynt. Við viljum hins vegar ekki kippa fótunum undan minnstu einingunum og erum eindregið andvígar því að valdbjóða breytingar á hreppamörkum sem eru ákaflega viðkvæm.

Öðru máli gegnir með þjónustusvæði sem ekki þarf að taka mið af öðru en landfræðilegri hagkvæmni, svo og þeim fjölda sem þarf til að bera þjónustuna uppí. Þriðja stigið eða öllu heldur miðstigið er því nauðsynlegt til að taka við verkefnum frá ríki og sveitarfélögum, fyrst og fremst ríkinu. Það virðist eiga að vera hlutverk byggðasamlagana, en ég óttast að ákvæðin um þau eins og þau er skýrð í brtt. meiri hluta nefndarinnar muni ekki reynast nægilega hvetjandi þó ekkert skuli fullyrt um það að óreyndu.

Það er auðvitað ekki hægt að líta alveg fram hjá þeirri staðreynd að með tilkomu millistigs og flutningi verkefna heim í héruðin kann ákvarðanataka að reynast flóknari og erfiðari og rifrildið að færast heim í héruðin í stað þess að nú geta menn látið sér nægja að skamma þingmenn kjördæmisins fyrir að taka einn skóla fram yfir annan og þessa sveit fram yfir hina eins og stundum vill verða. En það verður víst ekki á allt kosið og aðrir kostir vega hér, að mínum dómi, tvímælalaust upp á móti.

Hér er rétt að komi fram að Kvennalistinn er eindregið fylgjandi beinni lýðræðislegri kosningu til þriðja stjórnsýslustigsins, þegar það kemur sem hlýtur að verða, án allrar takmörkunar á kjörgengi. Þ.e. að þetta sé ekki bundið við sveitarstjórnarmenn.

Þetta vil ég láta koma fram þó tæpast sé tilefni til mikillar umfjöllunar um þetta atriði né neinna stóryrða þar eð á þessu er engan veginn tekið í þessu frv., þ.e. eftir umfjöllun nefndarinnar.

Þær till. sem gerðar eru til breytingar á frv. eru þó allnokkrar og að mínum dómi þyrftu þær miklu meiri og almennari umfjöllun en boðið er upp á með þeim vinnubrögðum sem viðhafa á við afgreiðslu málsins. Ég hef ekki nú við þessa umræðu heyrt þau rök fyrir þessari afgreiðslu sem sannfæra mig um að hún sé nauðsynleg. Mér hefði þótt eðlilegast að taka út úr þau atriði sem þarf að afgreiða vegna sveitarstjórnarkosninganna í vor og geyma umfjöllun um aðrar greinar frv. svo unnt væri að kynna þessar tillögur miklu víðar og fjalla rækilega um þær. Í framhaldi af þessu vil ég spyrja hv. formann félmn. og frsm. meiri hl., Friðrik Sophusson, að því hvaða nauðsyn beri til að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem hér er lagt til. Kom ekki til álita að afgreiða sérstaklega þau atriði sem beinlínis snerta væntanlegar kosningar í vor? Og í framhaldi af því: Hvernig metur hv. 2. þm. Reykv. möguleika á því að ná fram frekari breytingum á stjórnsýslu sveitarfélaganna? Versna ekki möguleikarnir á því með því að afgreiða þetta á þennan hátt? Er ekki málið raunverulega lagt í margra ára salt með þessu? Ég óska eindregið eftir því að heyra álit hv. þm. á þessum atriðum og beini því enn fremur til hæstv. félmrh. hvort hann sé sáttur við þessa meðferð mála og hvernig hann metur stöðuna, möguleikana á áframhaldandi umfjöllun og möguleika á þeim breytingum sem að mínum dómi er víðtækur vilji fyrir og ég trúi ekki öðru en næðist samkomulag um. Þá er ég vitanlega fyrst og fremst að tala um þriðja stjórnstigið, millistig sveitarfélaga og ríkisvalds.

Kvennalistinn á ekki aðild að félmn. Nd. Vafalaust hefðum við fengið áheyrnaraðild ef eftir hefði verið leitað, en það gerðum við reyndar ekki. Það þarf oft að velja og hafna og setja í forgangsröð. En þess vegna höfum við aðeins haft örskamman tíma til að skoða nál. og brtt. og því miður höfum við af ýmsum ástæðum ekki haft tök á að fjalla um brtt. í þingflokknum, hvað þá heldur á breiðari grundvelli. En þótt hart sé eftir rekið gefst vonandi einhver tími til að skoða málið í félmn. Ed. þar sem Kvennalistinn á aðild.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til frekari ræðuhalda á þessu stigi né til að lýsa afstöðu til einstakra brtt. af þessum ástæðum sem ég nefndi áðan. Í þessu frv. og till. nefndarinnar og annarra þm. eru ýmsar breytingar til bóta á núgildandi lögum og það er ekki ætlan mín á þessari stundu að Kvennalistinn muni standa gegn afgreiðslu frv., en skelfing er nú rýr eftirtekjan. Og ég vil ítreka spurningar mínar til hv. 2. þm. Reykv. og til hæstv. félmrh.: Eru þeir virkilega sáttir við þessa niðurstöðu? Ætla þeir að beita sér fyrir því að áfram verði unnið að breytingum á stjórnkerfi sveitarfélaganna með valddreifingu og virkara lýðræði að markmiði?