26.02.1986
Neðri deild: 52. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2780 í B-deild Alþingistíðinda. (2385)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég tel að það hafi verið mikið gæfuleysi hjá Alþingi Íslendinga að vera ekki búið að taka fyrir og afgreiða nýja stjórnarskrá fyrir þetta land. Hún hlýtur að vera sú grunngerð að ákvarðanatöku, sem við erum hér m.a. að fjalla um, hvernig eigi að standa að því að auka sjálfsákvörðunarrétt íbúanna til ákvarðanatöku um sínar heimabyggðir.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að án þess að skipta landinu upp í fylki sé vonlaust að færa það vald frá ríkisvaldinu út á land sem þarf að flytja. Lítil sveitarfélög geta aldrei tekið við það stórum verkefnum sem eðlilegt væri að stjórnað væri af byggðunum sjálfum. Nú er það svo að ákvörðun um slíka skiptingu verður ekki tekin í einhverjum skjótheitum í almennum lögum og breytt á næsta ári með almennum lögum. Hér hljótum við að vera komin að slíkri grunngerð að ákvarðanatakan þarf að vera varanleg ákvörðun, mótandi ákvörðun um uppbyggingu þjóðfélagsins sem heildar. Ég er sannfærður um að þeim mun meir sem menn hugleiða þessa hluti, þeim mun ljósara er þeim að við sköpum aldrei jafnræði í þjónustu ef við annars vegar ætlum 400 manna byggðarlagi að sjá um þjónustuna og hins vegar byggðarlagi með upp undir 90 000 íbúa. Hér er strax sá styrkleikamunur sem gerir það að verkum að allt jafnræði verður vonlaust.

Ég hygg að þetta hafi raunverulega verið niðurstaða félmn. Hún gerir sér grein fyrir því að það er ekki raunhæft að ætla að fara að skipta landinu upp eins og upprunalegu tillögurnar gerðu ráð fyrir. Ég horfi t.d. á brtt. frá Hjörleifi Guttormssyni þar sem hann leggur til að Norðurlandi verði skipt í tvennt. Og enn spyr ég:

Hvaða rök mæla með því að við brjótum Norðurland í tvennt7 Eru það landfræðileg rök, háir fjallgarðar sem skilja að þannig að vonlaust sé að komast þar um með eðlilegum hætti? Eru það stórfljót sem brjótast þar í gegn? Hvað er það sem veldur því að menn leggja til að Norðurlandi verði skipt í tvennt? Ef þessi rök ættu að koma má þá ekki spyrja: Hvers vegna á Austurland að vera ein heild? Eru samgöngurnar þar í svo miklu betra lagi? Er búið að koma á tengslum milli Vopnafjarðar og Héraðs eða frá Héraði að Hornafirði þannig að það sé sjálfgefið að Austurland skuli ein heild? Ég styð það að Austurland verði ein heild, en ég bið menn að vera ekki svo bundna að þeir hugleiði ekki hvað þeir eru að ákveða ef þeir leggja til að Norðurland verði brotið í tvennt.

Ef við stöndum að því að skipta landinu niður í fylki mun hvert einasta fylki berjast fyrir því að sambærileg þjónusta sé rekin innan þess fylkis og er rekin í fylkinu við hliðina. Ef við tökum ákvörðun um að Norðurland skuli vera tvö fylki erum við að taka ákvörðun um að það skuli komið upp háskóla á Sauðárkróki. Þá erum við að taka ákvörðun um að það skuli reist álíka öflugt sjúkrahús í Norðurlandi vestra og er í Norðurlandi eystra. Hvers vegna eigum við að vinna að því á Alþingi Íslendinga að sundra Norðlendingum? Hvers vegna? Ég sé engin rök sem mæla með slíkum vinnubrögðum.

Ég tel að fjórðungaskipunin forna eigi að vera grunnurinn þegar þessi ákvörðun er tekin. Sú fjórðungaskipun er í vitund hvers einasta manns sem eitthvað hefur kynnt sér sögu landsins og þó að ungir menn sem lært hafi lögfræði eigi erfitt með að skilja (Gripið fram í: Hverjir eru það?) að það hugtak sé til að vera Norðlendingur, að vera Austfirðingur eða Sunnlendingur. . . (HG: Hvar voru skilin á fjórðungunum?) (FrS: Úr hvaða goðorði er þm.?) Það er ánægjulegt ef svo mikið fjör færist í leikinn að það er sótt bæði frá hægri og vinstri samtímis þannig að ekki má koma við svörum með eðlilegum hætti.

Það er rétt að byrja á að geta þess varðandi skilin á fjórðungunum að sé miðað við Vesturland eða Vestfirðingafjórðung hinn forna var miðað við Botnsá að Hrútafjarðará. Eldri skil miðuðu við Hvítá, en þegar menn fóru að komast yfir Hvítá með eðlilegum hætti lögðu þeir til að miðað yrði við Botnsá í Hvalfirði. Frá Hrútafjarðará var haldið austur að kjördæmamörkum Norðurlands eystra og Austfjarða. Frá Austfjörðum voru svo skiptin eins og þau eru nú nokkurn veginn á milli Suðurlands og Austurlands. (HG: Nokkurn veginn?) Já. (HG: Hvernig þá?) Ég hygg að hv. 5. þm. Austurl. þurfi ekki að gera það að miklu dellumáli í þessum efnum. Ég hygg að honum sé ljóst að hér er hann að deila um keisarans skegg. Og ég mælist til þess að menn komist út úr skóglendinu og villist ekki í runnunum, reyni að komast upp á einhvern fjallatoppinn til að horfa yfir og halda eðlilega áttum. Hvers vegna eigum við að horfa á það sem gefna staðreynd að við brjótum Suðurland í sundur? Hvers vegna getum við ekki haft eitt Stór-Reykjavíkurfylki og leyft Sunnlendingafjórðungi að halda að öðru leyti sínu landsvæði?

Ég hygg að þetta mál, sem hér er verið að takast á um og ræða, sé á margan hátt eitt grundvallaratriðið í öllum átökum innan stórra ríkja. Við þurfum ekki annað en líta á Evrópu og skiptinguna. Við þurfum ekki annað en líta á Bandaríkin og hvernig þau byggðu upp elsta lýðveldið. Auðvitað er þetta alltaf spurningin um hvaða aðstöðu miðstjórnarvaldið á að hafa til að deila og drottna í smæstu málum í héruðunum. Mig undrar ef sú hugsun er raunverulega til staðar hjá Alþingi Íslendinga að það sé meiri ástæða til að sópa saman litlum sveitarfélögum í stærri sveitarfélög án þess að hugleiða um landfræðilegar forsendur en að segja t.d. við Stór-Reykjavíkursvæðið: Herrar mínir. Það gengur ekki lengur að Reykjavíkurborg skipuleggi sitt gatnakerfi og Kópavogur skipuleggi sitt gatnakerfi og svo passi göturnar ekki saman. - Ég sé að þm. Reykvíkinga er þegar farinn að hugleiða stöðuna.

Það er búið að vera aðhlátursefni landsbyggðarinnar hvernig hægt er að deila um það ár og síð hvorum megin við einn læk hafi átt að leggja braut niður Fossvogsdalinn. Þeir hafa ruglast á því hverjir áttu landið þannig að Reykvíkingar skipulögðu land sem Kópavogur átti og létu byggja á því. Auðvitað þarf að taka á slíkum málum með sameiginlegri yfirstjórn. Auðvitað yrði hér litið svo á að Reykjavíkurborg næði ekki bara yfir það svæði sem Reykjavíkurborg nær yfir í dag. Það yrði litið svo á að Stór-Reykjavíkurfylkið, sem ég kalla svo, tæki til sín þá byggðakjarna sem eru ekkert annað en úthverfi Reykjavíkurborgar.

Ég ætla ekki að eyða löngu máli í þessa umræðu. Ég er sannfærður um að þegar menn skoða þessi mál í ljósi sögunnar mun margur spyrja: Hvað dvaldi þessa þjóð í því að setja sér nýja stjórnarskrá? Og hver verða svörin? Hlægilegt sundurlyndi þegnanna og þingmanna, að ég ekki tali um það að stundum heyrðist það jafnvel að við mundum upphefja einhvern ákveðinn einstakling allt of mikið í Íslandssögunni ef undir hans forsæti færi stjórnarskrá í gegnum sali þingsins. Svo mögnuð hefur þessi deila verið. Og hún er okkur til skammar. Ég tel að það fari ekki milli mála að menn vilja vel með þeim tillögum sem þeir leggja fram í sveitarstjórnarmálum. Ég tel að það fari ekkert milli mála: En ég er jafnviss um hitt að ástæðan fyrir því að hugmyndirnar um millistigið hrynja eins og spilaborg hér í þingsölum er sú að þessum málum á að skipa í upphafi með stjórnarskrá.

Auðvitað verða menn jafnframt að gera sér grein fyrir því að til þessa millistigs verður að kjósa beint af hinum almenna kjósanda. Það gengur ekki að þetta millistig verði kosið af sveitarstjórnum. Það væri ekki lýðræðisleg framkvæmd ef við veldum þann kost. Ég er líka sannfærður um að það væri jafnrangt ef við tækjum ákvörðun um að millistigið fengi á einu bretti öll þau verkefni sem æskilegt væri að það fengi þegar horft væri til lengri tíma. Það væru mistök. Við eigum að byrja á því að koma því á í gegnum stjórnarskrána. Því næst á löggjafinn að fela því verkefni jafnt og þétt og láta umsvif þess vaxa í samræmi við þau markmið að eðlilegt sé að hvert hérað stjórni sem mest sínum málefnum. Það er ekki spurningin um að Norðurland ætli að fara að drottna yfir Stór-Reykjavikursvæðinu ellegar að Vestfirðingafjórðungur ætli að fara að drottna yfir Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það er spurningin um hvort Sunnlendingar fái að ráða sínum málum sjálfir í öllum aðalatriðum, Austfirðingar fái að ráða sínum málum sjálfir, Norðlendingar fái að ráða sínum málum sjálfir og Vestfirðingar eða Vestlendingar, hvort sem yrði ofan á með nafngiftina, fái að ráða sínum málum sjálfir.

Ég veit að það eru margir sem vilja fiska á gruggugu í þessum efnum. Þeir vilja að nafninu til setja fram hugmyndir um að það eigi að setja eitthvert millistig á. En þeim er engin alvara með að þetta kerfi verði tekið upp með skipulegum hætti. Það blasir við, og það sér hver einasti maður sem skoðar það stjórnkerfi sem við búum við í dag, að Stór-Reykjavíkursvæðið mun eitt ráða öllu í þessu landi. Og spurningin er: Er trúlegt að það sé skynsamlegt að ganga þannig frá málum? Ég segi nei.

Ég vil að gætt sé jafnræðis milli þegnanna og mér finnst að það sé gætt jafnræðis milli þegnanna ef Norðlendingar ráða sinni „Miklubraut“ í gegnum Norðurland og ef Reykvíkingar ráða sinni Miklubraut í gegnum þetta svæði. En ég sé ekki annað en það muni leiða til mjög óæskilegrar þróunar á samskiptum milli hinna ýmsu svæða landsins ef aðstaðan er orðin slík að einn aðilinn hefur þar hreinan meiri hluta. Það væri fróðlegt að spyrja hv. 2. þm. Reykv. þeirrar beinu spurningar hvort hann mundi vilja leggja hlutafé í fyrirtæki sem Samband ísl. samvinnufélaga ætti 60% í. Ég sem Vestfirðingur tel að ekki sé rökrétt að taka þátt í því stjórnkerfi sem býður upp á að einn aðilinn ráði þar 60%. Ég fæ ekki séð hvernig það stjórnkerfi getur þróast á jákvæðan hátt. Þess vegna hlýtur millistigið að vera sú jákvæða niðurstaða sem sameinar Íslendinga í því að allir þegnar þessa lands geti haft jafnan rétt. Auðvitað eiga allir þegnar landsins t.d. að hafa jafnari rétt í ákvörðun um utanríkismál þessarar þjóðar, svo að ég taki dæmi. (FrS: En jafnan kosningarrétt?) Jafnan kosningarrétt, segir hv. 2. þm. Reykv., þ.e. að einn hópurinn á að ráða 60% hlutanum og hinir 40 að vera með upp á punt. Ég held að skilningurinn á því hvort menn eigi að fá að ráða sínum landsvæðum eða ekki sé skilningurinn á því hvort menn vilja vinna að sáttum í þessu landi eða ekki.

Ég hef horft á þá tilhneigingu ríkisvaldsins að á sama tíma og menn tala um að það eigi að dreifa valdinu siglum við stöðugt inn í meiri og meiri miðstýringu. Við viljum ráða því hvenær karlarnir í Grímsey fara á sjó. Við viljum ráða því hvar þeir fá að byggja sín skip. Við viljum, að því er sýnist og séð verður, ráða nánast í smáatriðum hvernig menn hafa möguleika til athafnasemi í landinu. Það er athyglisvert að einkaframtakið virðist ekki hika við að taka undir harðsvíruðustu miðstýringartillögur. Hugsjónin er sett til hliðar, ofan í poka. Það er horft á það hverjir fá að stjórna þá stundina.

Ég hef að sumu leyti nokkuð gaman af því hvað þessi þverbrestir geta komið skoplega út. Kannske er eitt besta dæmið að hv. 2. þm. Reykv. hefur verið hvað grimmastur talsmaður þess að fulltrúar atvinnuveganna eigi að semja og ríkisstj. og Alþingi ekki að koma þar nálægt. Við sitjum hér og vitum að það er óvíst hvort í annan tíma hafa stærri ákvarðanir verið teknar utan þingsins en teknar hafa verið að undanförnu.

Ég hef ekki hugsað mér að bera fram brtt. við þetta frv. eða þær brtt. sem hér eru lagðar fram. Mér hefur virst að það væri skynsamlegast, miðað við mínar skoðanir, að velja þann kostinn að sitja hjá, einfaldlega vegna þess að ég tel að án þess að breyta stjórnarskránni sé vonlaust að koma þessum málum í þann farveg sem ég teldi það nálægt þeim skoðunum sem ég hef að hægt sé að bera ábyrgð á framkvæmdinni.