27.02.1986
Sameinað þing: 53. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2797 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

278. mál, endurskoðun á lögum um smitsjúkdóma

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þetta mál er eins og stundum er um tillögur að góðum málum að þar koma sem þingskjöl áskoranir um að unnið sé að málum sem þegar hefur verið tekin ákvörðun um að gera og það fyrir þó nokkru. Ég vil upplýsa að svo er um þetta mál. Í desembermánuði var tekin ákvörðun um að endurskoða sóttvarnalöggjöfina í heild sinni. Ég hygg að ég hafi minnst á það lauslega við hv. þm. En þar inni í eru allir smitsjúkdómarnir.

Sóttvarnalöggjöfin er á margan veg orðin afar úrelt. Þar er um að ræða m.a. sjúkdóma sem varla eru til. Hitt er annað mál að þetta er flókin löggjöf. Hún fjallar um flókin réttindaatriði manna og hún fjallar um heimildir yfirvalda til að skerða þann rétt sem er undir venjulegum kringumstæðum eðlilegur og sjálfsagður og afar vandmeðfarinn. Þess vegna legg ég mikið upp úr því að hafa með í starfi að endurskoðuninni menn sem hafa mikla reynslu af sjálfri framkvæmdinni. Þá á ég við hina lögfræðilegu hlið þessa máls sem er óneitanlega mjög flókin. Ég tel að það sé ekkert vit að kasta á neinn veg höndum til slíkrar löggjafar. Ég hef litið svo á að þetta verk tæki allmikinn tíma. Til að við horfumst í augu við staðreyndir tel ég afar hæpið að það náist að hafa slíkt frv. í góðu lagi fyrir upphaf næsta þings. Það verður vitanlega unnið að því og verkinu hraðað eftir því sem föng eru á, en í vinnunni að svona máli þurfa að liggja fyrir mjög glögg gögn á ýmsum sviðum og frá ýmsum aðilum, bæði hér og erlendis, og ég tel að með þeim hætti þurfum við að vinna að þessari löggjöf sem er í mörgum greinum orðin mjög gömul en er nauðsynlegt að færa til nútímahorfs og hafa hana þannig að hún sé framkvæmanleg.

Þetta vildi ég upplýsa til ábendingar fyrir þá nefnd sem málið fær til umfjöllunar, en ég er að því leyti til sammála flm. að það er nauðsynlegt að gera þetta, enda hef' ég fyrir allmörgum vikum tekið ákvörðun um að það verði gert og rætt við nokkra aðila sem að þessu munu standa. En þannig stendur á að þeir aðilar sem ég hafði ætlað að fela þetta verkefni eru ekki tiltækir fyrr en í vor og ég taldi skynsamlegt að doka við eftir því.