27.02.1986
Neðri deild: 53. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2806 í B-deild Alþingistíðinda. (2397)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Frv. til sveitarstjórnarlaga var lagt fram á haustþingi. Það hefur undanfarna mánuði verið til meðferðar í félmn. Nú hefur hv. nefnd skilað áliti, þríklofin, að einum nm. fjarstöddum og lagt fram nokkuð marga tugi af brtt. Það er því ekki úr vegi að líta á frv. þetta í þeirri mynd sem það kemur nú fram á sjónarsviðið og fara um það nokkrum orðum.

Hér er svo sannarlega um mikilvæg og margþætt málefni að ræða sem snerta hvern einasta þegn þjóðfélagsins á einn eða annan veg. Ekkert er því eðlilegra en að skoðanir manna séu skiptar og sitt sýnist hverjum um ýmsa þætti málsins.

Það er alkunna að skv. 76. gr. stjórnarskrárinnar skal ríkisstjórnin hafa umsjón með stjórnsýslu sveitarfélaga eða, eins og greinin segir efnislega, rétti sveitarfélaganna til að ráða sjálf málefnum sínum með umsjón stjórnarinnar skal skipað með lögum.

Gildandi sveitarstjórnarlög eru aldarfjórðungsgömul, nr. 58/1961. Sum ákvæði þeirra eru eldri að stofni til eins og gerist og gengur og nokkur þeirra má jafnvel rekja til tilskipunar um sveitarstjórn á Íslandi frá 4. maí 1872. Segja má því að full þörf sé á að endurskoða ýmis ákvæði þeirra, eins og margir sveitarstjórnarmenn hafa bent á og haldið fram og mikið rætt um. Ekki af því að gömul lagaákvæði séu verri en ný. Þvert á móti má telja að gömul ákvæði, sem staðist hafa tímans tönn, séu búin að sanna gildi sitt. Á hinn bóginn verður að sjálfsögðu að breyta lögum með breyttum tímum, sérstaklega á byltinga- og breytingaskeiðum í lífi þjóðanna því að rétturinn ber eins og annað „keim og eim síns aldarfars“, eins og komist hefur verið að orði og nú er nýr aldarháttur sleginn á ýmsum sviðum.

Í nál. frá meiri hl. félmn. á þskj. 525 segir m.a. að meiri hluti nefndarinnar leggi til að gerð verði sú meginbreyting að IX. kafli frv., um lögbundið samstarf sveitarfélaga, verði felldur niður. Það er hverju orði sannara hjá meiri hl. félmn. Hér er um meginbreytingu að ræða sem gengur út á það að afnema með einu pennastriki eða svo allt lögbundið samstarf sveitarfélaga á sýslu- eða héraðagrundvelli sem hefur gilt um aldir á Íslandi og gefist, það fullyrði ég, mjög vel á margan hátt.

Til þess að glöggva sig lítið eitt á þessum málum er nauðsynlegt að horfa um öxl og athuga nokkuð hvað sagan segir okkur um þessi efni. Frá fornu fari hefur löndum og ríkjum verið skipt niður í héraðsstjórnarumdæmi. Menn, sem búa í sömu sveit eða héraði, eiga alla jafna margvíslegra sameiginlegra hagsmuna að gæta. Alkunna er að hreppaskiptingin hér á landi er mjög forn. Hún hefur verið við lýði allt frá landnámsöld, lítt breytt fram á þennan dag, þó að menn séu ekki alveg á eitt sáttir um uppruna hennar af því að greinilegar heimildir skortir. En það er talið að elsta varðveitta eða skráða heimildin um þessi efni, sem mjög varðar héraðaskipan og héraðsstjórnarmálefni, sé tíundarlögin sem sett voru á Alþingi árið 1096. Af setningu þeirra og þeim umræðum, sem þá fóru fram, sést að þá þegar hefur hreppaskiptingin verið komin á á Íslandi og sennilega þegar á landnámsöld.

Á síðari árum hafa margir haft áhyggjur af því hvað hrepparnir eru orðnir fámennir margir hverjir. Talið hefur verið mjög æskilegt að sameina fámenna hreppa. Sáralítið hefur miðað í þá átt þó að í gildi séu góð lög um þetta efni, nr. 70/1970. En þar segir efnislega í 1. gr. að félmrn. skuli í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga stuðla að eflingu sveitarfélaganna með því að koma á sameiningu tveggja eða fleiri sveitarfélaga í eitt sveitarfélag samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, stendur þar.

Ekki hafa menn hingað til treyst sér til þess að lögbjóða sameiningu sveitarfélaga þó að víða væri æskilegt að af henni gæti orðið - með frjálsu samkomulagi viðkomandi aðila.

Sýslurnar eiga á sama hátt og hrepparnir mjög fornar rætur í íslensku þjóðlífi. Þær má rekja til skiptingar landsins í vorþingsumdæmi. T.d. kemur nafnið Þórsnesþing sem heiti á ákveðnu umdæmi fyrst fyrir í lögbókinni Járnsíðu frá 1271. Það var þá talið ná yfir landsvæðið allt frá Hítará vestur í Gilsfjarðarbotn, en þetta umdæmi skiptist síðar í fleiri sýslur.

Orðið „sýslumaður“ kom hingað með Jónsbók árið 1281. Samkvæmt ákvæðum þeirrar lögbókar er landinu deilt í sýslur, að vísu í þágu umboðsstjórnar eða framkvæmdavalds. Ekki var haggað við hreppaskipuninni með þeirri lögbók, en með tilskipuninni frá 1872 voru sýslur gerðar að héraðsstjórnarumdæmum og ákveðið að sýslunefnd færi með héraðsstjórn í sýslu.

Gildandi ákvæði um sýslufélög eru nú í IV. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 58 frá 1961, 92.-109. gr. Sýslufélögin eru hin einu lögbundnu samtök sveitarfélaga í landinu.

Í 92. gr. sveitarstjórnarlaga er fjallað um hlutverk sýslufélaga í tíu stafliðum og það er ekki neitt lítið sem þeim er ætlað að fást við. Má minnast á það örfáum orðum. Það segir þar m.a. að hlutverk sýslufélaga sé að annast:

a. eftirlit með öllum fjárreiðum allra hreppa innan sýslufélagsins, endurskoðun og úrskurðun ársreikninga þeirra svo og allra fyrirtækja sem rekin eru á vegum hreppanna,

b. umsjón með því að hreppsnefndirnar starfi yfirleitt í sveitarstjórnarmálum skv. gildandi lögum og reglugerðum,

c. setningu reglugerða um notkun afrétta, fjallskil, fjárheimtur og smalanir heimalanda á haustum til fjallskila og á vorum til rúnings, svo og að prenta eigi sjaldnar en tíunda hvert ár skrár yfir fjármörk og einnig hestamörk þar sem þess þykir þörf,

d. umsjón og stjórn vegamála skv. vegalögum...,

e. afskipti af forðagæslu ... eftirlit skv. lögum um hundahald og varnir gegn sullaveiki ... og úrskurðun og greiðslu reikninga skv. lögum nr. 52 frá 1957, um eyðingu refa og minka,

f. setningu byggingarsamþykkta fyrir sýsluna...,

g. álitsgerðir um mál er varða einstaka hreppa eða sýsluna, enda skal engu slíku máli til lykta ráðið fyrr en álitsgerðar sýslunefndar hefur verið leitað,

h. tilnefningu þriggja hreppstjóraefna þegar skipa skal hreppstjóra. Eru þeir tilnefndir sem flest atkvæði fá, enda sé hlutfallskosning heimil. Sýslumaður skipar síðan einn hinna tilnefndu manna sem hreppstjóra.“

Þá er í umsjá sýslunefndar stjórn allra sveitarstjórnarmála er varða sýsluna í heild svo og tillögur um hvað eina sem verða má sýslunni til gagns eða til að afstýra bjargarskorti eða hallæri. Og loks önnur þau störf er lög og reglugerðir mæla fyrir um.

Þetta ákvæði, sem segir að sýslunefnd skuli annast stjórn allra sveitarstjórnarmála er varða sýsluna í heild svo og tillögur um hvað eina sem verða má sýslunni til gagns, sýnir hvað hlutverk sýslunefnda er víðtækt.

Á fskj. sem prentað hefur verið með nál. um frv. til sveitarstjórnarlaga eru talin upp lagaákvæði um sýslunefndir. Þessa skýrslu samdi Steingrímur Gautur Kristjánsson og er ekki efi á því að hún er vandlega unnin. En ef menn renna augum yfir þessi ákvæði sjá þeir náttúrlega fljótlega í hendi sér að það tekur sinn tíma að afnema orðin „sýslunefnd“ eða „sýslufélag“ úr lagasafninu, Stjórnartíðindum og öðrum heimildum þar sem þetta orð ber á góma. Ég vil segja að menn geri ekki annað á meðan. Það eitt út af fyrir sig hlýtur að taka nokkuð mörg ár.

Auk þess er ákvæði í lögum um að sýslumenn séu oddvitar sýslunefnda, en þeir hafa að sjálfsögðu. fjölmörg önnur störf með höndum.

Síðast liðinn aldarfjórðungur hefur verið tími mikilla breytinga hér á landi. Byggðaröskun hefur orðið mikil og búseta landsmanna með öðrum hætti en áður var. Sveitarfélögin eru mjög misstór. Annars vegar fámennir hreppar, en hins vegar allfjölmenn kauptún. Annars vegar dreifbýli landsins, hins vegar hið mikla þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu. Þetta allt veldur auknum vanda þegar leitað er að einföldu og skilvirku kerfi sem er aðgengilegt og hentugt fyrir allan almenning og atvinnulífið í landinu.

Sú nefnd sem vann að endurskoðun laganna hefur unnið mikið starf, eða þær nefndir því að ég held að þær séu fleiri en ein. En sú nefnd sem síðast vann að endurskoðun laganna hefur unnið ágætt starf að vissu leyti. Hún kveðst m.a. hafa haft það að leiðarljósi í fyrsta lagi að sjálfsstjórn sveitarfélaga beri að auka, í öðru lagi að réttarstaða allra sveitarfélaga verði sem líkust, í þriðja lagi að stuðla beri að vald- og verkefnadreifingu. Allt eru þetta góð og gild og lofsverð áform. En auk þess hafði sú nefnd að markmiði að leggja niður sýslufélög og sýslunefndir. Kemur það m.a. glöggt fram í athugasemdum við lagafrv. þar sem fjallað er um IX. kafla, en þar segir m.a. efst á bls. 42, með leyfi forseta:

„Af þessum ástæðum er lagt til að sýslufélögin, sem nú hafa þjónað um 100 ára skeið, verði lögð niður með öllu þar sem þau hafa ekki á síðari árum verið sá samnefnari og framkvæmdaaðili sem sveitarfélögunum var nauðsynlegur.“

Það má vel vera að sýslunefndir séu misjafnlega starfsamar og sýslumenn misjafnlega áhugasamir um héraðsmál, en ég held þó að a.m.k. þær sýslunefndir sem ég þekki nokkuð til hafi stuðlað að eflingu sveitarfélaganna hver á sínu svæði og reynt að stuðla á allan veg að þeirra framgangi, hvergi brugðið fæti fyrir þau sveitarfélög þar sem fólkinu fjölgaði, þar sem þorp mynduðust, heldur reynt á allan máta að styðja þau og efla í framfarasókn þeirra. Þetta fullyrði ég. En endurskoðunarnefndin gerði þá tillögu að héraðsnefndir kæmu í stað sýslunefnda og viðurkenndi þar með að eðlilegt mætti telja að nágrannasveitarfélög hefðu einhvern vettvang til að ræðast við og starfa saman í heimahéraði.

Þessi IX. kafli frv., um lögbundið samstarf sveitarfélaga, er að vísu meingallaður. En þó er sú hugsun rétt að mínum dómi, sem að baki honum býr, að æskilegt og nánast óhjákvæmilegt sé að sveitarfélög haldi uppi ákveðnu samstarfi heima fyrir þó að þau séu misstór og sum jafnvel búin að fá kaupstaðarréttindi. Slík héraðskennd manna er víða ákaflega rík á Íslandi. Héraðsbúar eru vanir að vinna saman og breyta ekki um hug né hjartalag þó að byggð þeirra breytist úr hreppi í kaupstað. Þeir vilja halda áfram að starfa saman að héraðsmálum og hafa til þess einhvern vettvang.

Ólafsvíkurkaupstaður er yngsti kaupstaður landsins. Ólafsvík hlaut kaupstaðarréttindi vorið 1983 og naut til þess fulls stuðnings af minni hendi og margra annarra hv. alþm. Þáv. sýslunefndarmaður Ólafsvíkur, Ólafur Kristjánsson, kjörinn árið 1982, var boðinn velkominn á næsta aðalfund sýslunefndar Snæfellinga einum rómi eftir að Ólafsvík fékk kaupstaðarréttindi. Hann hefur sótt alla sýslufundi, bæði auka- og aðalfundi, sem haldnir hafa verið á Snæfellsnesi frá 1983 og til þessa dags. Hann var boðinn velkominn í sýslunefndina með sérstakri samþykkt sem sýslunefndin gerði um að hann hefði þar fullt málfrelsi og tillögurétt og hann hefur tekið virkan þátt í störfum sýslunefndarinnar þessi ár hvað sem síðar verður.

Þetta er gott dæmi um að héraðskenndin býr áfram í brjósti manna þó að skipan mála þróist á misjafnan veg í sveitarfélögum innan sama sýslufélags í sama héraði. En nú hefur meiri hl. hv. félmn. skorið upp herör og ákveðið að lögbundið samstarf sveitarfélaga skuli niður falla, eins og ég áðan sagði. Að vísu geta sveitarfélögin unnið saman ef þau endilega vilja það í svonefndum byggðasamlögum sem frv. gerir nokkra grein fyrir.

Fyrir nokkrum árum var mikið reynt til þess að löggilda hin svonefndu landshlutasamtök hér á hv. Alþingi eins og margir muna. Urðu um þetta langar og strangar umræður. Ekki náðu lagafrv. um þau efni fram að ganga. Það fór ekki milli mála að ætlunin var að láta landshlutasamtökin leysa sýslufélögin af hólmi.

Nú er ekki nema allt gott um þessi samtök að segja. Þar er um að ræða samstarf sveitarfélaga innan sama kjördæmis. Þau hafa stuðlað að aukinni kynningu sveitarstjórnarmanna. Þar hafa verið rædd og reifuð ýmis harla mikilvæg mál og mörgu góðu komið til leiðar. En þar er um að ræða frjálst og ólögbundið samstarf sveitarfélaganna sem vel hefur gefist en hefur ekki náð fótfestu í löggjöf landsins né hlotið náð fyrir augum hv. alþm.

Um skiptingu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga, tekjuskiptingu og umdæmaskiptingu landsins, hefur mikið verið rætt og ritað á undanförnum árum. Mörgum finnst að allt of hægt hafi miðað í þeim málum. Eigi að síður hefur þróun byggða víða verið ör og tekið stakkaskiptum til hins betra. Annars staðar hefur minna áunnist. En ég fæ ekki séð að sýslunefndir verði sóttar til saka í þeim efnum. Þvert á móti hafa þær margt stórvel gert ef saga þeirra væri athuguð til þessa dags. Að vísu eru þær, eins og ég sagði áðan, áreiðanlega misjafnlega starfsamar og oddvitar, sýslumenn, misjafnlega áhugasamir um félagsmál. En ég hygg að þær hafi hvergi lagt stein í götu eðlilegrar framþróunar nema síður sé. Þar verður að finna einhvern annan sökudólg. Og allra síst tel ég að þær verðskuldi að vera kvaddar af löggjafanum sem gjaldþrotamenn eða nátttröll, sbr. það sem segir í áliti margnefnds meiri hl., að kosið skuli einu sinni enn til sýslunefndar að vísu og hafa skuli þær umboð þar til sveitarfélög eða byggðasamlög geti tekið við verkefnum þeirra, þó ekki lengur en til ársloka 1987. „Má því segja að sýslunefndir séu í reynd einungis kjörnar til þess að vera skilanefndir“, stendur þar.

Já, miklir menn erum við, Hrólfur minn. Öllu skal þó skilað í hendur „réttra“ aðila.

Af þessu, sem nú hefur verið sagt, má ljóst vera að ég tek ekki þátt í þeirri aðför sem hér er gerð að sýslufélögum og sýslunefndum og hefur verið margreynd á undanförnum árum en borið harla lítinn árangur hvað sem nú verður.

En þá má spyrja: Er þessi ræðumaður, sem nú talar, algert nátttröll sjálfur? Vill hann ekki neinu breyta í þessum efnum? Er hann algerlega gróinn í gamla farinu, e.t.v. sem gamall sýslumaður sem engu vill breyta en starir aðeins á þau ákvæði sem gilt hafa hingað til? Nei, það er nú eitthvað annað. Ég er fús til að ræða margar breytingar á þessu sviði. Ég get vel fallist á að sýslunefndir beri allt að því að leggja niður í núverandi mynd, þ.e. sem yfirstofnanir hreppsnefnda, en ég tel að það sé jafnfráleitt að leggja sýslunefndir niður sem sveitarstjórnarumdæmi. Þvert á móti eigi að efla þær og breyta þeim á nútímavísu.

En ef samþykkt verður, og sú stefna virðist ríkjandi í frv. og hjá nefnd, að sveitarfélögin snúi sér beint til félmrn. með sín vandamál og verkefni, þá má spyrja: Er það valddreifing eða miðstýring? Það skal enginn geta á mig borið að ég taki undir þessar sífelldu árásir á ríkið og ríkisvaldið. Þegar menn taka svo til orða að ríkissjóður eigi engan að er nokkuð til í því. Ég vil að við höfum nokkuð sterkt og traust ríkisvald. Til þess að um sjálfstætt þjóðríki sé að ræða þarf land, fólk og lögbundið skipulag. Það sem við erum að bjástra við á löggjafarsamkomunni er að dytta að þessu lögbundna skipulagi, reyna að sjá svo til að ríki okkar geti borið það nafn meðal annarra þjóðríkja í veröldinni og staðið á sínu.

En ég bið menn, sem hafa valddreifinguna mikið á tungu og tala sýknt og heilagt um að valdinu eigi að dreifa út um gjörvallar byggðir landsins, að velta því fyrir sér hvort í þessu tiltekna atriði, sem ég nú nefndi, felst valddreifing eða miðstýring. Ég tel að sýslunefndir eigi að vera samstarfsvettvangur allra sveitarfélaga innan sinna vébanda, bæði hreppa og kaupstaða, innan landfræðilegra marka sýslufélagsins, enda skuli réttarstaða allra sveitarfélaga vera hin sama.

Auðvitað má fara mörgum orðum um það að víða í sýslum hafa sameiginleg stærri verkefni á héraðsvísu verið leyst með samstarfi hreppa innan sýslufélagsins. Það má líka nefna mörg dæmi um að sýslufélögin hafa tekið sig saman og hrundið stórverkefnum í framkvæmd.

En þá kemur að því að ég tel jafnframt að breyta mætti til um tekjustofna sýslufélaga. Slíkt umdæmi sem ég nú ræði um ætti að hafa ákveðna tekjustofna, annaðhvort hluta söluskatts gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga eða aðra markaða tekjustofna, til að annast rekstur sinna mála.

Nú er það svo í gildandi löggjöf að sýslunefndir verða að taka allt fé heima fyrir til sinna þarfa. Þær sækja ekki fé til framkvæmda í ríkissjóð. Um það segir í 101. gr. sveitarstjórnarlaga svo, með leyfi forseta:

„Sýslunefnd skal á aðalfundi semja áætlun um tekjur og gjöld sýslusjóðs fyrir yfirstandandi ár. Því sem á vantar að tekjur sýslusjóðs hrökkvi fyrir útgjöldum hans skal jafnað niður á hreppana, að þriðjungi eftir samanlögðu skattmati fasteigna, að þriðjungi eftir íbúatölu og að þriðjungi eftir samanlagðri fjárhæð skuldlausrar eignar og nettótekna skv. gjaldskrá, allt í hverjum hreppi fyrir sig. Gjald það er þannig kemur í hlut hvers hrepps að greiða skal greitt sýslumanni úr sveitarsjóði á næsta manntalsþingi.“

Á þessu sjáið þið, ef þið hlustið á þessa grein eða þekkið hana, að segja má að sýslunefnd hafi þarna ótakmarkaða heimild til að leggja gjöld á héraðsbúa. En ég fullyrði að þessu valdi hefur verið beitt af mikilli hófsemi af hálfu sýslunefnda á undanförnum árum, ekki síst vegna þess að þær skilja gerst að það er ekki hægt að leggja ótakmarkaðar byrðar á héraðsbúa í sköttum, hvorki til sýslufélagsins né annarra aðila. Þó er það svo að sérstaklega hin stærri sveitarfélög hafa fundið allnokkuð fyrir að greiða þessa fjárhæð til sýslufélagsins og áreiðanlega hefur þetta verið undirrót þess meðal margra annarra atriða að hin stærri sveitarfélög innan sýslumarka hafa óskað eftir kaupstaðarréttindum. Það er bæði þetta, sýslusjóðsgjaldið og einnig sýsluvegasjóðsgjaldið, sem óneitanlega hefur verið töluverður baggi á hreppsfélögunum, sérstaklega nokkuð þungur á fjölmennum sveitarfélögum þar sem tekjur hafa verið nokkuð miklar og eignir. Þess vegna tel ég að þetta sé eitt af þeim ákvæðum sem rétt sé að hyggja að breytingum á.

Með þessum atriðum, sem ég nú hef nefnt, mætti auka sjálfsstjórn sveitarfélaganna, stuðla að raunhæfri dreifingu valds og verkefna í þjóðfélaginu gagnstætt þeirri miðstýringu út frá ráðuneytum og stofnunum í höfuðborginni sem nú er og hefur lengi verið með alkunnum afleiðingum fyrir þróun hinnar dreifðu byggðar í landinu.

Ég minntist á það hér áðan að IX. kafli þessa frv., um lögbundið samstarf sveitarfélaga, fjallaði um hinar svonefndu héraðsnefndir. Það hefur nú komið fram að það líst mörgum heldur illa á þann kafla, þykir hann nokkuð fljótvirknislega saminn. En þegar hann er lesinn yfir í hraðlestri verður ekki komið auga á það, a.m.k. við fyrsta yfirlestur, hvað vakað hefur fyrir höfundum frv. að þurfa þarna endilega að breyta orðinu „sýslunefnd“ í „héraðsnefnd“. Það er nánast ekkert annað en fyrirhöfnin ein því að umdæmi í stjórnarfarslegu tilliti heitir sýsla og hefur svo heitið um aldaraðir hér á landi og æðsta stjórn þess sýslunefnd, og það er alveg óháð því hvort viðkomandi sýslumaður situr þar í forsæti eða ekki. Ein af þeim breytingum sem ég vildi mjög gjarnan taka til athugunar er hvort sýslumenn ættu endilega að vera oddvitar sýslunefnda. Það má breyta því ákvæði fyrir mér og það er mjög til athugunar ef það skyldi eitthvað hjálpa til að leysa málin.

Svo vil ég líka benda á að þar sem segir að héraðsnefnd eigi að taka við eignum og skuldum sýslufélaga við gildistöku laganna nema sveitarfélög, sem aðild áttu að sýslufélagi, óski að yfirtaka þær, hefur þetta dæmi alls ekki verið hugsað til enda. Sýslufélög eru lögaðilar með réttindi og skyldur. Mörg sýslufélög eiga stóreignir, ýmist ein sér eða með öðrum, og auk þess margar sameiginlegar menningarstofnanir sem taka til alls héraðsins. Ef ætlunin er að leggja þessar stofnanir niður verða að fara fram formleg slit, uppgjör eigna og skulda, mat á eignum og ráðstöfunum, allt eftir ákveðnum lagafyrirmælum. Og menn gera ekki annað á meðan.

En svo að ég víki aftur að sýslunefndunum leyfi ég mér að ítreka að ég legg til að sýslufélögin starfi áfram sem sameiginlegur aðili um þau héraðsmál er eigi verða á viðunandi hátt falin öðrum. Þannig fari sýslufélögin með þau málefni sem nú eru ýmist leyst á þeirra vegum með samstarfi hreppa innan sýslufélagsins eða af ríkisvaldinu en öll varða íbúa héraðsins. En þar sem svo stendur á að tvö sýslufélög eru innan sama lögsagnarumdæmis finnst mér að það ætti að sameina þau í eitt þannig að ávallt fari saman landfræðileg mörk lögsagnarumdæmis og sýslufélags. Sama gildir um ýmsar opinberar stofnanir og embætti sem í framtíðinni gætu miðast við lögsagnarumdæmi og sýslunefnd hefur með að gera. Mér finnst t.d. rétt, ef heimamenn ná um það samkomulagi, að sameina Mýra- og Borgarfjarðarsýslu í eitt sýslufélag, Austur- og Vestur-Barðastrandarsýslu í eitt sýslufélag og Vestur- og Austur-Húnavatnssýslu svo að dæmi séu nefnd.

Það standa margir í þeirri meiningu að Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla séu tvö sýslufélög. Heitið gæti bent til þess. En þá sem það halda ætla ég að upplýsa um að hún er eitt sýslufélag og hefur svo verið að mig minnir frá árinu 1871.

Þá gæti ég út af fyrir sig vel fallist á að kjör til sýslunefnda í núverandi mynd breyttist. Ég mundi að vísu sjá eftir því kjöri því að það er held ég það lýðræðislegasta kjör sem ég þekki nú á dögum. Þar kjósa hreppsbúar einn mann úr sínum hópi til að taka sæti í sýslunefnd. Ég hef oft fylgst með slíkum kosningum og ég hef haft mikla ánægju af því hvað slíkar kosningar hafa oft gengið þvert á stjórnmálaskoðanir íbúa hreppsins og gæti ég nefnt mörg dæmi um það. Það virðist benda til þess að hreppsbúar hafi þrátt fyrir allt eitthvert vit á því að velja góðan og skynsaman mann í sýslunefnd og treysta honum til að fara þar með sín málefni jafnvel áratugum saman án þess svo mikið sem að spyrja hvar hann sé í flokki.

En ég veit að á seinni tíma hafa menn ýtt undir það að gera þessar kosningar pólitískar, stilla upp listum og annað slíkt. Ég mæli ekki með því, a.m.k. ekki í fámennum sveitarfélögum. Og sannleikurinn er nú sá af langri reynslu minni af störfum í sýslunefnd að þar ber pólitík sárasjaldan á góma. Það er rétt í einstaka tilvikum. Miklu fremur sameinast þessir menn, sem til þess eru kjörnir frá sveitarfélögunum, í einingu andans og bandi friðarins í því að vinna vel að héraðsmálum sínum.

Ég get m.a.s. fallist á það út af fyrir sig að sýslunefndin væri saman sett af öllum oddvitum sveitarfélaganna. Þá væri hún þó komin nálægt hreppsfélögunum, skilst mér, og gæti fylgst með því sem þar gerðist. Ég gæti vel hugsað mér að sýslunefndin væri samansett af oddvitum sveitarfélaganna innan sýslufélagsins.

Um þetta má náttúrlega fjöldamargt segja og vonandi tekst þessi breyting, sem hér er fyrirhuguð, vel þegar hún kemst í kring að lokum.

Það hefur stundum verið fundið sýslunefndunum til foráttu, þegar kosið er til þeirra á þann veg sem nú er, að þar sitji eintómir gamlir menn. Sennilega mundi einhver lýsa þeim svo að þeir væru hálfmeðvitundarlausir. En þessu leyfi ég mér að mótmæla harðlega og benda á að oft er það gott sem gamlir kveða. Og margir hafa á háum aldri byrjað að skipta sér af stjórnmálum og vegur þeirra orðið mikill. Hvað var Adenauer gamall þegar hann varð kanslari Vestur-Þýskalands? Eitt veit ég, ég man ekki hvað hann var gamall, en hann var a.m.k. fyrir löngu kominn langt yfir öll aldurshámörk embættismanna og stóð sig þó mjög vel eftir atvikum.

Ég get vel fallist á að breyta mörgu sem sýslunefndir varðar, bæði um kjör og annað, sérstaklega og ekki síst því að sýslumenn hætti að vera sjálfkjörnir oddvitar sýslufélaganna. Þó er að því vikið hér í frv. að rétt sé að fela þeim framkvæmdastjórn á vissum sviðum. Eitthvað liggur þar á bak við. Er þeim kannske betur eða eins vel treystandi og öðrum til þess að fara með það vald? Hvað sem um það má segja getur farið vel á því vegna þess að sýsluskrifstofurnar eru, hvað sem hver segir, á vissan hátt miðstöðvar í hverju héraði með fjölbreytileg verkefni og þjónustu fyrir íbúana og það er yfirleitt ódýr og góður valkostur.

Að því er snertir það atriði að hreppsbúar og kjörnar hreppsnefndir geti ekki fylgst með störfum sýslunefnda, þá segir í 108. gr. sveitarstjórnarlaganna að strax að afloknum aðalfundi sýslunefndar skuli fundargerð ásamt ársreikningum sýslusjóðs, sýsluvegasjóðs og annarra sjóða í umsjón sýslunnar gefin út á prenti eða í fjölritum sem síðar skuli send oddvitum hreppanna, svo fljótt sem kostur er á, í hæfilega mörgum eintökum fyrir íbúa hreppanna. Einnig ber að senda sýslufundargerðina til félmrn. Ef þessum ákvæðum er framfylgt, sem ég hygg að sé gert víðast hvar, þá á ekki að vera ofraun fyrir nokkurn mann að fylgjast með því sem fram fer á sýslufundum. Þvert á móti geta þeir fylgst mjög vel með því sem þar gerist og látið sér það að kenningu verða.

Hér fóru fram í gær allfróðlegar og skemmtilegar umræður um þetta mál. Ég get ekki stillt mig um að víkja örlítið að máli þeirra ræðumanna sem ég hlustaði á. Hv. 5. þm. Vestf. flutti snjalla ræðu að vanda og kom víða við. M.a. ræddi hann um forn fjórðungaskipti. (Gripið fram í: Og goðorðin.) Já, hann vék jafnvel aftur til goðorðanna og komst svo skemmtilega að orði á einum stað m.a. - því að maðurinn er málsnjall þegar hann var að ræða um hvenær breytingin hefði orðið á fjórðungaskiptunum: „Þó að menn komist nú yfir Hvítá með eðlilegum hætti," sagði hann. Ég er ekki svo fróður að vita hvenær menn komust fyrst yfir Hvítá í Borgarfirði með eðlilegum hætti en kannske veit hv. 5. þm. Vestf., sem nú gengur í salinn með bros á vör, um það.

Ég var að segja að hv. 5. þm. Vestf. hefði flutt snjalla ræðu að vanda og það meina ég því að maðurinn fer vel með íslenskt mál. En undir lok rismikillar ræðu fannst mér hann þó draga nokkuð í land og minna svolítið á lítinn smaladreng þegar hann var að tala um að sitja hjá við lokaafgreiðslu þessa máls sem var svo stórt í hans augum. Þá flutti hv. 1. þm. Norðurl. v. einnig snjalla ræðu.

Ég ætla aðeins að víkja að einu atriði í máli hans af því að það er óvenjulegt hér í þingsölum. Hann vék þar að málfarinu á frv., ræddi um málfar og nýyrði og hnaut m. a. um orðið „byggðasamlag“ og fór um það nokkrum fögrum orðum. Það er rétt, hér er margs að gæta og ég álít að við nútímamenn séum eftirbátar forfeðra okkar að langfeðgatali hvað nafngiftir varðar og málsnilld í mörgum greinum.

Nú veit ég að þessi hv. þm. ekur oft Norðurárdalinn til Holtavörðuheiðar í átt til síns heima og kjördæmis. Ef við nú af handahófi nemum staðar þar sem vegur liggur til vinstri, Vestfjarðavegurinn beygir vestur yfir Bröttubrekku og nemum staðar á þeim krossgötum, þá eru þar þrjú býli í nánd. Það er Dalsmynni, bær í mynni Bjarnardals - þið takið eftir hvernig nafnið er valið. Lítt ofar í landinu er Klettstía á grænum bala umgirt klettastöllum, inn milli klettanna, ekki er það nafn illa valið. Fyrir handan ána eru Skarðshamrar, býli undir löngu hamrabelti, en fyrir ofan túnið er skarð í hamrana. Í öllum þessum tilvikum held ég að sá, sem nafn gaf þessum býlum, hafi hitt naglann á höfuðið.

En hér tala menn um „byggðasamlag“. Maður hefur heyrt talað um smjörsamlag og mjólkursamlag og það á ágætlega við á sínum stöðum og svo auðvitað sjúkrasamlag. En ég álít að um þetta orð megi eitt og annað segja og það væri ekki úr vegi að menn fengju sér - án þess að ég sé að drótta nokkru að nokkrum manni - Íslenska samheitaorðabók, sem er nýkomin út og ég held að þyki góð bók, og litu í hana.

Þá er það hv. 5. þm. Austurl. Hann benti réttilega á - og þar er ég honum sammála - að það eru fyrst og fremst ákvæði um kosningar og slíkir þættir sem reka á eftir þessu máli, kjördagar og annað slíkt. Einnig finnst mér gallað að hafa tvo kjördaga, þó ekki sé langt á milli. Það er tvímælalaust gallað form sem getur haft áhrif til hins verra.

En það fór ekki milli mála að ýmsir - kannske hv. alþm. og ýmsir aðrir-höfðu komið þeirri flugu í munn hv. 5. þm. Austurl. að sýslunefndir skuli aflagðar. (HG: Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar.) Það getur vel verið að þetta sé þá bara heimatilbúin skoðun. En hvað um það. Hann hélt þeirri skoðun fram, en vék um leið að byggðamálunum. Og það er ekki úr vegi að minnast á byggðamálin í sambandi við þetta stórmál. Ég er honum alveg sammála um það.

Hv. 5. þm. Austurl. spurðist fyrir um byggðanefnd þingsins sem ekki hefur verið kvödd saman í langan tíma, enda sést það á fsp. sem lögð var fram hér í dag frá hv. 3. þm. Vestf. þar sem spurst er fyrir um byggðanefndina. Það var einu sinni auglýst eftir þm. Reykvíkinga, minnir mig, en nú er auglýst eftir byggðanefnd þingflokkanna, hvar hún haldi sig, hvað hún sé að gera, hver árangur sé orðinn af störfum hennar. Ég get ekki svarað því.

En um brtt. hv. 5. þm. Austurl. á þskj. 545 er það að segja að sjálfsagt liggur þar skýr og góð hugsun að baki, en í stórum dráttum sýnist mér hún ekki vera annað en tillagan gamla um að löggilda landshlutasamtökin. Hún er a.m.k. mjög keimlík henni. Við vitum hvernig fór fyrir þeim till. sem bornar voru fram hvað eftir annað fyrir nokkrum árum. Hvort þessi till. nýtur meira fylgis eða álits í þingsölum skal ég ósagt látið.

Ég vék að því hér áðan í máli mínu að mörgum þætti hægt ganga í þessum efnum, væru orðnir óþolinmóðir. Við þurfum ekki að kippa okkur upp við það, alþm., að mörg endurskoðun laga tekur langan tíma. Þegar ég kom fyrst inn á þing fyrir þrjátíu árum var eitt af aðalmálunum að endurskoða stjórnarskrána, það var árið 1956. Þá átti að drífa sig í það að endurskoða stjórnarskrána. Þá voru nefndir sendar til annarra landa, til Sviss og fleiri landa, til að kynna sér stjórnskipan og út um allan heim. Síðan hafa starfað ég veit ekki hvað margar stjórnarskrárnefndir, sumar skilað áliti, aðrar ekki.

Síðasta stjórnarskrárnefndin er þeirra frægust og hún var búin að leggja óhemju vinnu í það verk að endurskoða stjórnarskrána. - Þó að við teljum stjórnarskrá okkar vera frá 1944 er hún í raun og veru að stofni til frá 1874, og náttúrlega mun eldri að sumu leyti, þegar þáverandi Íslandskóngur kom með „frelsisskrá í föðurhendi“, eins og eitt þjóðskáld okkar kvað um á þeirri tíð. - Þarna átti sem sagt að vinda bráðan bug að því að endurskoða stjórnarskrána. Íslendingar urðu að fá nýja stjórnarskrá. En þegar þessu verki var loksins svo langt komið að það átti að fara að ræða það í þingsölum þótti allmörgum hv. alþm. nóg komið. Stjórnarskránni lá ekkert á gegnum sali Alþingis. Á þetta atriði minntist hv. 5. þm. Vestf. í gær, að mig minnir, og fer ég ekki fleiri orðum um það.

Ég leyfi mér að halda því fram að stjórnarskráin sé að meginstofni til frá 1874 og þó eldri í raun og veru, eins og hv. 2. þm. Reykv. skaut hér fram. Tilskipunin um héraðsstjórnarmálefni, sem við erum nú að ræða, er næstum jafngömul - það munar ekki nema tveim árum - hún er frá 4. maí 1872. Skyldi vera meiri ástæða til að flýta þessu máli en sjálfri stjórnarskránni? Það kann að vera. En það má vel, hvað aldur snertir, nefna þessi tvö tilvik í sömu andrá.

Þá get ég ekki stillt mig um að nefna það að á undanförnum árum hefur nefnd eftir nefnd starfað að því að athuga verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, tekjuskiptingu, umdæmaskiptingu. Ég var einu sinni í einni slíkri nefnd, ég held á árunum 1976-1977, og þar hafa margir ágætir menn lagt hönd að verki.

Einu sinni man ég eftir því - þessi saga var mér sögð - að það var búið að vera mikið þjark um þessi málefni uppi í stjórnarráði og sýndist sitt hverjum. Þó var sú nefnd, sem þá starfaði, búin að semja töluvert langa álitsgerð. En ekki náðist samkomulag. Þá stóð einn af virðulegustu og bestu embættismönnum landsins á þeirri tíð upp úr sæti sínu og sagði: Ef ekki getur á þessu stigi orðið neitt samkomulag um þessi mál þá nenni ég ekki að vera að þessu lengur. Og hann gekk að ruslakörfu, sem var í horninu á skrifstofunni í ráðuneytinu, og reif álitið niður blað fyrir blað. Það sögðu þeir sem á horfðu að þetta hefði verið áhrifarík sjón.

Eigi að síður hélt málið áfram og það heldur vissulega áfram enn í dag. En að öllu þessu athuguðu tel ég að betra sé að flýta sér hægt í þessum efnum. Ég álít og ég sé að þrátt fyrir langan tíma er margt hrátt í þessu frv. Ég tel að það þurfi, um stundarsakir, að stinga því inn í ofninn aftur og baka það betur. Þeir sem að því hafa unnið þurfa ekkert frekar að skammast sín fyrir það þó að á þessum málum verði nokkur töf en þeir sem árum saman unnu að því að breyta stjórnarskránni og fleiri málefnum í þágu lands og þjóðar. Við verðum að muna að í þessu efni ætlum við ekki að tjalda til einnar nætur. Við ætlum að nota þetta tækifæri til að efla áhrifavald byggðanna, auka vald héraðanna, treysta samstöðu héraðsbúa og reyna að byggja og móta fyrir framtíðina og heill íslenskra byggða.

Umr. frestað.