27.02.1986
Sameinað þing: 53. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2816 í B-deild Alþingistíðinda. (2398)

Kjarasamningar

Forseti (Helgi Seljan):

Hv. 5. þm. Reykv. hefur kvatt sér hljóðs utan dagskrár um kjarasamninga og aðild ríkisstj. að þeim. Sú umræða fer fram skv. 2. mgr. 32. gr. þingskapa, en ég vona að fullt samkomulag sé um að menn stilli máli sínu svo í hóf hvað varðar tímalengd sem frekast er kostur.

Forseti vildi gjarnan sjá þessari umræðu lokið fyrir kl. hálfsjö. Fundur er boðaður í Ed. kl. níu í kvöld og sannast sagna mun það um það sama mál og hér er hreyft utan dagskrár og reyndar, hefði það legið fyrir í morgun að svo mundi verða, hefði forseti ekki treyst sér til að leyfa þessa umræðu nú. En í ljósi þessa ættu menn líka að geta lokið þessari umræðu skjótt nú þegar ítarleg umfjöllun sama máls mun fara fram í báðum þingdeildum næstu daga. Ég bið menn því vinsamlegast að vera stuttorða og gagnorða.