27.02.1986
Sameinað þing: 53. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2816 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

Kjarasamningar

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Síðla dags í gær krotuðu örþreyttir samningamenn upphafsstafi sína undir merka kjarasamninga og skuldbundu sig þar með til þess að vinna þeim brautargengi gagnvart sínum umbjóðendum með einu skilyrði. Þetta skilyrði var að hæstv. ríkisstj. tæki upp fyrir sitt leyti stefnu í efnahagsmálum sem gæti samrýmst vonum bjartsýnustu manna um umtalsverða hjöðnun verðbólgu.

Þegar þessi tíðindi spurðust fór ég þess á leit að mega krefja hæstv. ríkisstj., hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh., sagna hér á hinu háa Alþingi. Svörin sem ég fékk voru þau að það væri eðlileg ósk. Þegar þeir hefðu svarað erindum aðila vinnumarkaðarins væri eðlilegt að þetta mál yrði lagt fyrir Alþingi, Alþingi upplýst um málið. Mér þykir því miður ef það er rétt, sem ég hef fregnað, að hæstv. ríkisstj. hafi efnt til blaðamannafundar til að upplýsa fyrst fjórða valdið, fjölmiðla, um þetta í stað þess að gera grein fyrir málinu hér á Alþingi og efna kannske síðan, að lokinni skýrslu ráðherra, til blaðamannafundar eftir á sem hefðu að mínu mati verið eðlilegri vinnubrögð. Það er orðinn hlutur og þýðir ekki um að fást ef þessar upplýsingar eru réttar.

Herra forseti. Það eru mikil tíðindi í okkar þjóðfélagi þegar skrifað er undir kjarasamninga, að vísu með þessum fyrirvara, og báðir aðilar, atvinnurekendur og fulltrúar launþega, lýsa því yfir að þeir geri sér vonir um að sá árangur náist í kjölfar kjarasamninga að verðbólga geti farið lækkandi úr 35-40% niður í 8%, að kaupmáttur launa geti hugsanlega farið vaxandi þegar líður á samningstímann og að kaupmáttur þeirra sem ekki hafa notið launaskriðs á undanförnu hremmingartímabili kunni að hækka meira en annarra og þessi árangur náist án verkfalla. Þetta er umtalsverður árangur.

En eins og ég segi: Skilyrðið var aðeins eitt og það er að hæstv. ríkisstj. fyrir sitt leyti fallist á að breyta þeirri stefnu sem ríkjandi hefur verið í efnahagsmálum, fjármálum, lánsfjármálum, peningamálum, þannig að það samræmist þessu átaki gegn verðbólgu.

Ég vil fyrir mitt leyti nota þetta tækifæri þegar í stað til að lýsa því yfir fyrir hönd okkar jafnaðarmanna að við viljum fyrir okkar leyti allt til vinna að sá árangur sem að er stefnt með þessum samningum náist í reynd. Við velkjumst ekki í vafa um að yfirgnæfandi meiri hluti þessarar þjóðar er sömu skoðunar. Það er kominn tími til að reyna að ná árangri og við eigum að reyna að ná samstöðu um að honum verði náð. Ég tel að hér með hafi aðilar vinnumarkaðarins sameinast um að bjóða upp á eins konar lífskjarasáttmála, útfærslu á launastefnu sem samræmdum þætti efnahagspólitíkur, en fyrir slíkum lífskjarasáttmála höfum við jafnaðarmenn barist lengi.

Við viljum m.ö.o. líka lýsa því yfir að við viljum allt til vinna hér á Alþingi og annars staðar til þess að tryggt verði að við forsendur þessa lífskjarasáttmála, ef af verður, verði staðið. Við gerum okkur grein fyrir því að kveikjan að þessum umskiptum er auðvitað utanaðkomandi áhrif sem ekki hafa verið á valdi ríkisstj., skyndileg og mikil lækkun olíuverðs sem eftir á að skila sér til okkar, hækkun fiskverðs og jafnvel vonir um lækkun vaxta á alþjóðlegum mörkuðum. Spurningin er: Getum við gert okkur vonir um að ná í reynd þeim árangri sem að er stefnt með þessum kjarasamningi, að ná verðbólgunni umtalsvert niður, að ná fyrstu áföngum í auknum kaupmætti með von um að það jafnvægisástand sem af hlytist eftir á gæti leitt til raunverulegra umskipta í kaupmáttaraukningu þegar fram í sækir?

Já. Okkar svar er þetta. Þetta er hægt. Hvað er það sem fyrst og fremst gæti spillt þessum árangri? Það er að mínu mati kannske þrennt:

Það fyrsta er hallarekstur ríkissjóðs. Það er stórkostleg hætta á því að innbyggður hallarekstur ríkissjóðs, sem alþm. er kunnugt um að er mikill eftir afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga fyrir jól, geti magnað verðbólguna upp á ný og sett stjórn peningamála úr skorðum.

Í annan stað: Ef vaxandi hallarekstri vegna þeirra útgjalda sem ríkissjóður verður nú að taka á sig verður mætt með lántökum en ekki að hluta til a.m.k. með lækkun ríkisútgjalda verður það líka til þess að magna upp verðbólgu og setja peningamálastjórn úr skorðum.

Og í þriðja lagi er nokkur hætta á því að fastgengið gangi of langt að sjávarútveginum og landsbyggðinni og leiði hugsanlega til hættu á vaxandi viðskiptahalla, sér í lagi ef ekki tekst að tryggja aukinn sparnað í framhaldi af auknum kaupmætti sem vonandi leiðir í kjölfar samninganna. Þetta er kannske það fyrst og fremst sem gæti leitt til þess að árangurinn næðist ekki sem að er stefnt.

Það er alveg ljóst af þjóðfélagsumræðunni, öllum helstu hagfræðingum okkar ber saman um það, að undirrót verðbólguþenslunnar nú er hallarekstur í ríkisrekstrinum fyrst og fremst, bæði á s.l. ári og svo sá sem innbyggður er í fjárlögum og lánsfjárlögum þessa árs og stóraukin skuldasöfnun og innstreymi erlends lánsfjármagns sem af því hefur hlotist. Það liggur t.d. fyrir að það má gera ráð fyrir 2 milljarða nettóaukningu erlendra lána á þessu ári skv. lánsfjárlögum í framkvæmd. Þetta er undirrót verðbólgunnar og þessu þarf að breyta. Þetta er það sem aðilar vinnumarkaðarins eiga kröfu núna á hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokka, núverandi þingmeirihluta að taka til endurskoðunar.

Ég ætlast ekki til þess, herra forseti, að hér fari fram efnisleg umræða um smáatriði þessara samninga. Mér nægir að vekja athygli á því hvað það er sem aðilar vinnumarkaðarins eru að segja. Þeir eru að segja: Við getum náð þessum árangri fyrir okkar leyti að því er kjarasamningana varðar ef ríkisstj. fyrir sitt leyti kemur til móts við þá um þennan lífskjarasáttmála og breytir þeirri stefnu í ríkisfjármálum og lánsfjárpólitík sem ákveðin var af stjórnarmeirihlutanum núna fyrir jól. Þetta kostar það að stokka upp fjárlög og lánsfjárlög.

Það skiptir m.ö.o. sköpum um árangurinn hvernig hæstv. ríkisstj. hyggst mæta lækkun tekna eða aukningu útgjalda sem af þessum kjarasamningum hljótast. Ég vil vekja athygli á því að þetta eru ekki bara mínar skoðanir sem stjórnarandstæðings. Þetta kemur mjög rækilega fram í áliti og erindum samningsaðila sem þeir hafa beint til hæstv. ríkisstj. Þar segir á einum stað, með leyfi forseta:

„Miklu skiptir að þessi kostnaður, sem af þessu hlýst, valdi ekki halla á ríkissjóði og hann verði fjármagnaður með innlendu fé, að ekki verði leitað erlendrar lántöku. Að öðrum kosti væri hætta á aukinni þenslu sem gæti sett verðlagsmarkmið kjarasamninganna úr skorðum“, m.ö.o. valdið enn nýjum vonbrigðum og vonleysi þannig að þetta yrði til einskis.

Ég segi: Ég ætla ekki að telja upp öll þau mýmörgu atriði sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sett fram í sínum tillögum. Þau ræðum við nánar þegar kemur að efnisumræðu í deild sem mér skilst jafnvel að geti orðið í kvöld. Ég vek athygli á þessum fyrirvara aðila vinnumarkaðarins um árangurinn og nefni aðeins nokkur atriði.

Í fyrsta lagi verður að leggja megináherslu á það afdráttarlausa skilyrði að það takist að koma í veg fyrir hækkun búvöruverðs núna 1. mars og að búvöruverði verði haldið innan þeirra marka sem launaþróunin setur. Það er algert lykilatriði og það þurfa að fást skýrar og skilmerkilegar upplýsingar, betri en fengist hafa hingað til, um það með hvaða hætti ríkisstj. ætlar að ná því markmiði. Það getur hún ekki sparað með skattlagningu og niðurgreiðslu.

Ég fyrir mitt leyti lýsi því yfir að þær niðurstöður sem fengist hafa hér að því er varðar húsnæðismálin sæta tíðindum. Þær eru mjög í anda þess sem við höfum flutt hér um tillögur á undanförnum árum. Þær staðfesta að það þarf aukið fjármagn til húsnæðismálanna og reyndar, ef við ætlum að fara þá leið sem hér er boðuð, að taka á ríkissjóð verulega niðurgreiðslu á vaxtamun, staðfestir það líka þegar á þessu ári og reyndar á næstu árum að það felur í sér verulega aukna fjármögnun af skatttekjum sem ekki hefur verið reiknað með í þessum kostnaðarauka.

Þá er alveg sérstök ástæða til að leggja áherslu á og spyrjast fyrir um fyrirætlanir að því er varðar vaxtalækkanir. Ríkisstj. hefur að því er mér skilst heitið því að nú þegar, nú um mánaðamótin verði fylgt eftir þessu samkomulagi með lækkun nafnvaxta. Þess vegna vil ég að gefnu tilefni spyrja sérstaklega: Hver er hlutur ríkisstj. að því er varðar blaðafregnir um ákvörðun Seðlabankans um vaxtahækkun á verðtryggðum lánum til langs tíma sem valdið hafa að undanförnu húsbyggjendum og öðrum lántakendum verulegum áhyggjum? Fréttin er á þá leið að fyrir dyrum standi þrátt fyrir allt 1% hækkun, úr 5 í 6%, á verðtryggðum lánum til langs tíma, yfir tvö og hálft ár. Ég spyr sérstaklega og vænti svars í þessum umræðum: Má treysta því að frá þessu verði fallið? Er þetta með raun réttri ákvörðun sem Seðlabankinn hefur tekið eða mega menn yfirleitt treysta því að frá þessu ákvörðunum, ef þær hafa verið teknar, verði fallið þannig að menn megi trúa að þarna verði fylgt eftir þessu samkomulagi með lækkun nafnvaxta líka og ekki hvað síst á lengri lánum verðtryggðum?

Herra forseti. Það er óþarfi að fara mörgum orðum um það sem gerðist í ríkisfjármálum á s.l. hausti. Annar stjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., hélt sérstakan fund í Stykkishólmi, sem frægur var, og gerði þar hinar merkustu ályktanir um nauðsyn þess að stokka upp ríkisfjármálin, fylgdi því eftir með skiptum á fjmrh., fól formanni sínum umsjá ríkisfjármálanna. En því miður. Þær vonir sem með þessu voru vaktar upp rættust ekki. Með því á ég við að við fjárlagaafgreiðsluna var fallið frá samþykkt Alþingis um lækkun tekjuskatts, það var fallið frá boðuðum áformum um einföldun og lækkun vörugjalds, það var efnt til framkvæmda og fjárútláta sem ekki var aflað tekna til, ríkissjóður var afgreiddur með rekstrarhalla og lánsfjárlög gerðu ráð fyrir nettóaukningu erlendra lána. Allt er þetta sprengirými verðbólgunnar. Núna er raunverulega verið að fara fram á að þær ákvarðanir sem þarna voru teknar á þessum tíma verði rift. Það skiptir sköpum um hvort við getum vænst þess að árangur náist að nú mæti menn þessu frumkvæði aðila vinnumarkaðarins með því að stokka upp í ríkisfjármálunum. Þar á ég m.a. við að útgjaldaaukanum verði mætt m.a. með aukinni tekjuöflun af hálfu þeirra forréttindahópa sem sloppið hafa frá því að bera sinn eðlilega réttmæta hlut í skattheimtunni annars vegar og svo hins vegar með því að lækka ríkisútgjöld, en þetta verði ekki eingöngu fjármagnað með lántökum. Ég tek nefnilega undir fyrirvara og áhyggjur samningsaðila um að ef þannig verður að farið er fullkomin hætta á því að árangurinn náist ekki.

Herra forseti. Ég skal reyna að fara að ljúka máli mínu. Ég vil aðeins rifja það upp að við afgreiðslu fjárlaga og lánsfjárlaga nú fyrir jól fluttum við Alþýðuflokksmenn hér allt í allt eitthvað um 100 tillögur, milli 70 og 80 tillögur að því er varðar breytingar á fjárlögum og einnig tillögur að því er varðar breytingar á lánsfjárlögum. Þær voru í örstuttu máli á þá leið að gera allt í senn: afla ríkissjóði meiri tekna, sérstaklega með því að draga úr skattundandrætti að því er varðar söluskatt og með því að efna til nýrrar skattheimtu sem var stighækkandi stóreignaskattur á skattsvikinn verðbólgugróða, en um leið að jafna skattbyrðina með því að lækka skattbyrði alls þorra almennings, þar á meðal með lækkun tekjuskattbyrði og breytingum á gjaldtöku ríkisins að því er varðar tolla og vörugjöld. Þessu fylgdum við jafnframt eftir með allítarlegum tillögum um lækkun ríkisútgjalda, fækkun ríkisstofnana o.fl. Það aukna svigrúm sem fékkst innan þessa nýja fjárlagaramma vildum við nota til að auka fjárveitingar til húsnæðismála, tryggingamála og tekjujöfnunar. Það fer ekkert milli mála að þær tillögur sem nú hefur verið beint til hæstv. ríkisstj. af aðilum vinnumarkaðarins eru í sama anda. Þær eru ekki að öllu leyti eins, en þær eru að því er kjarna málsins varðar mjög keimlíkar að því er lausnir varðar.

Um leið og ég segi fyrir hönd okkar jafnaðarmanna: Við lýsum yfir stuðningi, eindregnum og afdráttarlausum stuðningi, við það að þessi tilraun verði gerð, að ná þessum lífskjarasáttmála milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda, þá viljum við leggja á það megináherslu að það skiptir sköpum að hæstv. ríkisstj. komi til móts við stjórnarandstöðuna t.d. með því að taka tillit til þessara tillagna. Ég t.d. óska eftir því að heyra afstöðu hæstv. ráðherra. Eru þeir reiðubúnir til þess nú að verða við ábendingum og taka undir tillögur um eignarskattsauka? Eru menn tilbúnir að stíga skref í þá átt að lækka tekjuskattinn? Eru menn tilbúnir að stíga ákveðin skref í þá átt að auka skattlagningu, t.d. launaskattsauka, á hagnað banka í ljósi t.d. nýjustu upplýsinga um gífurlegan hagnað bankakerfinu? Ég nefni t.d. bara áætlunartölur um hagnað Landsbankans á s.l. ári, 600 millj. brúttó sem verður ekki minna en 250 millj. nettó, og tölur af svipuðum toga af öðrum ríkisbönkum. Þetta skiptir máli til að auka traust á þessar aðgerðir með því að ríkisstj. gangi fram fyrir skjöldu um leið og sýni að hún er reiðubúin að taka undir gagnrýni, sem hún hefur setið undir með réttu, og reiðubúin að jafna skattbyrðina og láta forréttindahópa, sem sloppið hafa heldur billega, bera sinn hlut af byrðunum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég lýk máli mínu með því að segja: Við skorum á ríkisstj. að taka upp með einum eða öðrum hætti tillögur sem stefna að því öllu saman: að tryggja lækkun skattbyrði almennings, að tryggja breytingar á tekjuöflun ríkissjóðs og jafnari skattbyrði, að tryggja að ekki komi til aukning erlendra lána, og reyndar þarf að fylgja þessu eftir með minnkun erlendra lána, og loks að grípa til aðgerða sem fela í sér lækkun ríkisútgjalda.

Mér finnst, herra forseti, að þau tíðindi sem nú hafa orðið séu þess eðlis að það megi undir engum kringumstæðum gerast að þær vonir, sem nú hafa verið vaktar um að það takist með sameiginlegu átaki að ná verulegum árangri í að renna stoðum undir heilbrigt efnahagslíf, jafnvægi í efnahagslífinu sem tryggi hvort tveggja, traustar undirstöður atvinnuvega og vonir um bætt lífskjör, raunverulega aukinn kaupmátt, verði sér til skammar vegna mistaka sem kunni að eiga sér stað í hagstjórn af hálfu ríkisstj.

Þess vegna lýk ég máli mínu með því að segja: Við lýsum yfir afdráttarlausum stuðningi við að þetta samkomulag geti tekist um leið og við hvetjum ríkisstj. eindregið til þess að taka fyrir sitt leyti tillit til tillagna, sem hér liggja fyrir og ég hef bent á, sem miða að því að jafna greiðslubyrðina og tryggja að nú verði ekki aftur þau mistök að það verði eingöngu hinum efnaminnstu í þjóðfélaginu ætlað að færa fórnirnar og skila árangrinum.