27.02.1986
Sameinað þing: 53. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2821 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

Kjarasamningar

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Fyrst vil ég aðeins koma að þeirri gagnrýni sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda á að blaðamannafundur var haldinn í Stjórnarráðinu kl. hálffimm. Við fjmrh. afhentum aðilum vinnumarkaðarins, þ.e. Alþýðusambandi Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambandi Íslands, svar við málaleitan þeirra á fundi kl. 15. Mér var ljóst að svar þetta var opinbert orðið og eðlilegast að afhenda það fréttamönnum. Um það verður hins vegar ekki fjallað í fjölmiðlum fyrr en að loknum þessum fundi.

Ég vil rekja í fáum orðum aðdraganda að því sem nú hefur gerst:

Ríkisstj. hefur hvað eftir annað á ferli sínum lagt áherslu á að hún væri reiðubúin til samstarfs við aðila vinnumarkaðarins með aðgerðum sem gætu stuðlað að skynsamlegum kjarasamningum sem yrðu til þess að verðbólga hjaðnaði og það helst ört. Þetta var boðið í febrúar 1984 og því var þá tekið. Þá lagði ríkisstj. töluvert fjármagn í launa- og kjarahækkun til einstæðra foreldra. Þeir kjarasamningar, hygg ég að menn geti verið sammála um, voru skynsamlegir. Það var einnig boðið upp á mikla skattalækkun haustið 1984. Því var ekki tekið. Ég held að menn geti einnig verið sammála um að sú kollsteypa sem varð eftir þá kjarasamninga var ekki til góðs fyrir íslenskt efnahagslíf.

Þetta hef ég og aðrir ráðherrar síðan endurtekið á síðustu haustmánuðum og lagt áherslu á að ríkisstj. væri reiðubúin til slíks samstarfs. Þegar kom fram vilji til þess að af slíku samstarfi gæti orðið. M.a. gengu fulltrúar Alþýðusambands Íslands á minn fund nokkru fyrir áramótin og hófu þar umræður um þau atriði sem Alþýðusambandið lagði áherslu á. Ég vakti síðan athygli á því, m.a. í umræðum á hinu háa Alþingi 28. jan. s.l., að orðið hefði mikil breyting í viðskiptakjörum okkar Íslendinga sem ætti að geta stuðlað að langtum heilbrigðari samningum en menn höfðu áður gert sér vonir um sem bæði yrðu til þess að lækka mætti verðbólgu verulega en um leið styrkja kaupmáttinn. Þessu var þá strax vel tekið. Aðilar vinnumarkaðarins höfðu samband við ríkisstj. sem leiddi til þess að þeim var skrifað bréf 11. febr. s.l. og lofað þar ákveðinni niðurfærslu á verðlagi ef stuðla mætti að skynsamlegum samningum.

Ljóst varð eftir að það bréf fór að aðilar vinnumarkaðarins töldu ákaflega erfitt að bæta kaupmáttinn að nokkru ráði án þess að til frekari aðgerða kæmi og var þá þegar athugað einnig vandlega á vegum ríkisstj. hvað mætti gera, og af samningsaðilum sjálfum. Það er einmitt vegna þeirrar ítarlegu athugunar, sem fór fram á vegum ríkisstj., að ríkisstj. gat svarað þeirri málaleitun, sem kom formlega í gærkvöldi kl. hálfátta með svo litlum fyrirvara, þótt um mjög víðtæk mál væri að ræða.

Ég hygg að á þeim skamma tíma sem er til umráða skýri ég þetta mál best með því að lesa svar ríkisstj. sem afhent var kl. 15 og geri það, með leyfi forseta. Þetta er svar frá forsrh. til Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna:

,Ríkisstj. hefur kynnt sér kjarasamning milli aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands, Vinnumálasambands samvinnufélaganna Meistarasambands byggingamanna og Reykjavíkurborgar, dags. 26. febr. 1986. Þá hefur ríkisstj. fengið í hendur bréf samningsaðila og yfirlýsingu þeirra um lífeyrismál og húsnæðismál, dags. sama dag.

Samningsaðilar gera í bréfi sínu ráð fyrir að ríkisstj. beiti sér fyrir öllum þeim aðgerðum á sviði efnahagsmála sem lýst var í orðsendingu til þeirra, dags. 11. febr. 1986. Auk þess fara þeir fram á viðbótaraðgerðir sem ætlað er til að draga enn frekar úr verðhækkunum á næstunni, bæta kjör launafólks og starfsskilyrði atvinnuveganna. Samningsaðilar lýsa því jafnframt yfir að þeir muni beita sér fyrir því að lífeyrissjóðir kaupi skuldabréf af opinberum aðilum fyrir 925 millj. kr. hærri fjárhæð á árinu 1986 en lánsfjáráætlun gerir ráð fyrir. Af þessu fé renni 300 millj. kr. til þess að auka lán til þeirra húsbyggjenda, sem leita þurfa til ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar árið 1986, til viðbótar þeim 200 millj. kr. sem áður var ákveðið að verja í þessu skyni.

Þótt ljóst sé að kjarasamningurinn og tillögur samningsaðila um aðgerðir af opinberri hálfu feli í sér meiri hækkun launa og fjárútláta fyrir ríkissjóð en ríkisstj. hefði talið æskilegt er hún engu að síður reiðubúin til að standa við yfirlýsingar sínar frá 11. febr. s.l. og gera frekari ráðstafanir til þess að greiða fyrir kjarasamningum. Er þá jafnframt við það miðað að önnur heildarsamtök launafólks geri áþekka launasamninga.

Ríkisstj. leggur þó á það áherslu að launasamningarnir og viðmiðanir þeirra eru að sjálfsögðu gerðir á ábyrgð samningsaðila sjálfra.

Ljóst virðist að þessir samningar og það sem þeim fylgir muni valda því að útgjöld þjóðarinnar í heild færi nokkuð fram úr því sem ríkisstj. hefur stefnt að til þessa og halli myndast á ríkisbúskapnum, en með tilliti til þess hversu mikilvægt það er að nú náist ótvíræður og verulegur árangur í viðureigninni við verðbólguna er ríkisstj. reiðubúin að taka nokkra áhættu í þessu máli. Þessi afstaða er á því byggð að ekki verði verulegar breytingar til hins verra á viðskiptakjörum eða öðrum ytri aðstæðum þjóðarbúsins.

Ríkisstj. mun því fylgja þeirri stefnu í fjármálum og peningamálum sem lýst var í orðsendingu hennar frá 11. febr. s.l. Gengi krónunnar verður haldið sem stöðugustu og vextir af óverðtryggðum lánum lækkaðir um rúmlega þriðjung þegar í kjölfar kjarasamninganna, t.d. á almennum skuldabréfum úr 32% í 20%. Vextir munu síðan fara lækkandi á næstu mánuðum með hliðsjón af verðlagsþróun.

Varðandi þær viðbótaraðgerðir sem samningsaðilar fara fram á í bréfi sínu 26. febr. tekur ríkisstj. fram að hún er reiðubúin til þess að beita sér fyrir ráðstöfunum á grundvelli tillagna samningsaðila sem að mati þeirra kosta ríkissjóð 1250 millj. kr. á árinu 1986. Ríkisstj. hefur ákveðið að 640 millj. kr. renni til að fella niður verðjöfnunargjald af raforku og launaskatt í fiskiðnaði og iðnaði, en 590 millj. kr. til að lækka tolla á ýmsum hátollavörum sem vega þungt í neyslu almennings.

Ríkisstj. mun að auki leggja fram 220 millj. kr. til að lækka verð á búvörum og beita öðrum ráðstöfunum til þess að tryggja að búvöruverð hafi ekki áhrif til hækkunar á vísitölu framfærslukostnaðar í marsbyrjun og hækki ekki umfram umsamda hækkun launa síðar á árinu. Samtals er hér um að ræða tekjutap og útgjaldaauka fyrir ríkissjóð sem gæti numið allt að 1450 millj. kr. til viðbótar við þær ráðstafanir sem lýst var í orðsendingu ríkisstj. til samningsaðila 11. febr. s.l.

Ríkisstjórnin mun leggja fram á Alþingi frv. til laga til staðfestingar þessum ákvörðunum.

Gert er ráð fyrir að þeim halla sem myndast af þessum sökum verði mætt með áðurnefndri lántöku hjá lífeyrissjóðum, annarri lántöku hjá innlendum lánastofnunum, lækkun útgjalda og nokkurri hækkun tekna ríkissjóðs. Ekki kemur til álita að afla fjár til þessara aðgerða með erlendum lántökum.

Í yfirlýsingu samningsaðila um lífeyrismál felst stuðningur við meginmarkmið og meginefni tillagna átta manna lífeyrisnefndar ASÍ, FFSÍ, VSÍ og VMS um löggjöf um starfsemi lífeyrissjóða sem m.a. felur í sér að komið verði á heildstæðu lífeyriskerfi þar sem lífeyrisiðgjöld og skuldbindingar standist á. Ríkisstjórnin mun að höfðu samráði við fulltrúa þeirra aðila, sem hagsmuna eiga að gæta í þessu efni, undirbúa löggjöf sem byggir á framangreindum meginatriðum og stefnir að því að lagafrv. verði lagt fram á þessu ári.

Ríkisstjórnin er reiðubúin til að eiga viðræður við aðila vinnumarkaðarins um vanda þeirra einstaklinga sem eiga aðild að lífeyrissjóðum sem standa fjárhagslega höllum fæti. Þá tekur ríkisstj. undir það sjónarmið að nauðsynlegt sé að fjalla um tengsl lífeyrisgreiðslna lífeyrissjóða og lífeyris frá almannatryggingum.

Ríkisstjórnin fellst á grundvallaratriði þeirra hugmynda sem fram koma í yfirlýsingu samningsaðila um húsnæðismál og er tilbúin til þess að athuga þær vandlega í samráði við aðila vinnumarkaðarins, sérstaklega útgjöld ríkisins í þessu sambandi. Ríkisstjórnin er reiðubúin til að beita sér fyrir breytingum á lögum og reglum um húsnæðismál í samræmi við niðurstöður þeirrar athugunar.

Í samræmi við samkomulag samningsaðila mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að til viðbótar við áður ákveðnar 200 millj. kr. verði 300 millj. kr. varið á þessu ári til að aðstoða þá sem eiga í greiðsluerfiðleikum vegna húsbygginga.

Ríkisstjórnin mun beina því til banka og sparisjóða að þeir lengi lánstíma lána til húsbyggjenda í samræmi við samkomulagið.

Í bréfi samningsaðila til ríkisstjórnarinnar, dags. 31. janúar 1986, segir meðal annars að það sé ein helsta forsenda stöðugleika í efnahagsmálum að ýtrasta aðhalds sé gætt á sviði peningamála og opinberra fjármála. Undir þetta vill ríkisstjórnin fyrir sitt leyti taka og mun hafa að leiðarljósi við framkvæmd þeirra aðgerða til viðnáms gegn verðbólgu sem aðilar vinnumarkaðarins hafa óskað eftir.

Ríkisstjórnin telur að með þeim kjarasamningum sem nú er verið að gera og aðgerðum sem hún hyggst beita sér fyrir hafi náðst mikilsverð samstaða um átak til að snúa þróun verðlagsmála til betri vegar. Þeim efnahagsbata sem bætt ytri skilyrði gera nú kleift að ná er með þessum ákvörðunum fyrst og fremst varið til að bæta og tryggja lífskjörin í landinu og gera alvarlega tilraun til að koma verðbólgunni niður á það stig sem algengast hefur verið í viðskipta- og samkeppnislöndum Íslendinga.

Ljóst er að með þessum aðgerðum tekur ríkissjóður nokkra áhættu og axlar fjárhagsbyrðar sem ekki er til lengdar unnt að bera nema dregið verði úr útgjöldum eða tekjur auknar. Þess er vænst að aðrir aðilar í þjóðfélaginu leggi einnig sitt at mörkum og fyrirtæki reyni markvisst að halda aftur af hækkun verðs á framleiðslu- og söluvörum sínum innanlands og endurskoði til lækkunar verðákvarðanir sem byggst hafa á áætlunum um meiri verðbólgu en nú eru horfur á að verði á næstu mánuðum.“

Undir þetta bréf rita ég.

Ég skal ekki lengja þetta mjög en vil þó fara með nokkrar skýringar á því sem fram kemur í bréfinu. Ég vil fyrst geta þess að þegar er í undirbúningi í viðkomandi ráðuneytum að þær lækkanir verði nú um mánaðamótin á töxtum opinberra stofnana sem lofað er. Og ég leyfi mér að fullyrða að það mun takast. Einnig er þeim tilmælum beint til þessara ráðuneyta að kannaðar verði lækkanir á gjöldum annarra opinberra stofnana en taldar voru upp í bréfi ríkisstj. frá 11. febrúar.

Sérstaklega var spurt um vextina og ég gat þess hér sem dæmi að skuldabréfavextir lækka úr 32 í 20%. Gert er ráð fyrir því að vextir af hlaupareikningslánum lækki úr 31,5 í 19,5% og af afurðalánum úr 28,5 í 19,25%. Sérstaklega var spurt um þá fyrirætlun Seðlabankans að hækka raunvexti af verðtryggðum lánum úr 5 í 6%. Ríkisstj. samþykkti í morgun að úr því yrði ekki. Það tilkynnti ég Seðlabankanum í morgun og sú hækkun mun ekki verða.

Það er rétt, sem hér hefur verið rakið, að um verulegt tekjutap eða útgjaldaauka fyrir ríkissjóð er að ræða og er vissulega ástæða til að hafa áhyggjur af því.

Ég hygg að flestir hér þekki þær hugmyndir sem liggja til grundvallar, og framkvæmdar verða, um tollalækkanir á ýmsum hátollavörum. Á grænmeti verður tollalækkun nokkuð víðtækari en um var rætt af aðilum vinnumarkaðarins. Jafnframt verða tollar lækkaðir af fólksbifreiðum, hjólbörðum og heimilistækjum. Þá er felldur niður launaskattur eins og ég las. Með þessu móti er að sjálfsögðu bæði verið að draga mjög úr hækkun vísitölu - samtals eru verðlagsáhrifin talin vera 4,35 stig - en einnig er verið að bæta fyrir þá atvinnuvegi sem eiga erfiðast með að mæta þeirri launahækkun sem um er samið. Með lækkun á launaskatti og lækkun á raforku, þ.e. með því að greiða jöfnunargjald af raforku úr ríkissjóði, batnar t.d. staða fiskvinnslunnar eða frystingarinnar um 90 milljónir kr. eða þar um bil.

Ég vil einnig vekja athygli á því að í tengslum við það sem nú hefur verið að gerast hefur ríkisstjórnin þegar heitið fiskvinnslunni umtalsverðri aðstoð, m.a. endurgreiðslu á 75 millj. kr. af gengismun sem orðið hefur á síðustu mánuðum vegna þess mismunar sem orðið hefur á SDR og dollara, og fleira sem áður hefur verið rakið sem ríkisstjórnin gerir til þess að styrkja þann atvinnuveg sem stendur hvað erfiðast. Þessi aðstoð mun einnig ná til atvinnugreina eins og ullariðnaðarins. Niðurfelling af launaskatti og lækkun á raforkuverði kemur að sjálfsögðu einnig þeim iðnaði mjög til góða. Ullariðnaðurinn mun einnig fá endurgreiddan í sama hlutfalli mismun á gengi eins og fiskvinnslan hefur nú fengið.

Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að það er vitanlega nauðsynlegt, sérstaklega þegar til lengri tíma er litið, að mæta þessu tekjutapi ríkissjóðs með endurskoðun á tekjum ríkissjóðs. Á því er ekki nokkur vafi. Og ljóst er að þetta mun gera fjárlagagerð erfiðari á haustmánuðum.

Ég get tekið undir hugmyndir þær ýmsar sem hv. fyrirspyrjandi nefndi um hækkun á ákveðnum sköttum, þó ég fari ekki ítarlegar út í það hér, en það er ekki gert ráð fyrir því að slíkar skattahækkanir verði á þessari stundu.

Ég vil geta þess, af því að hv. fyrirspyrjandi kom sérstaklega inn á húsnæðismálin, að ég er honum sammála að þar er um mjög athyglisverðar hugmyndir að ræða. Hins vegar, eins og ég las, telur ríkisstjórnin óhjákvæmilegt að athuga þau mál nánar. Ýmsum spurningum er ósvarað. Ekki er t.d. lagt til hver skattaafsláttur á að vera. Slíkt getur vitanlega varðað ríkissjóð mjög miklu. Það eru slíkir þættir sem þarf að athuga, m.ö.o. áhrif þess kerfis á ríkissjóð.

Ég vil svo, herra forseti, lýsa ánægju minni með að þetta skynsamlegir samningar virðist vera að takast. Ég held ég megi fullyrða að aðilar vinnumarkaðarins fóru af fundi ríkisstjórnarinnar ánægðir með það svar sem þeir höfðu fengið og með þær viðbótarskýringar sem þeim voru gefnar. Ég tel rétt að geta þess hér að þar var sérstaklega rætt um það hvernig eytt yrði áhrifum búvöru. Eins og þegar hefur reyndar verið lögð áhersla á, bæði við fulltrúa bænda og aðra aðila sem nálægt þessum málum koma, mun það verða gert með því að þær aðgerðir sem hér er gripið til verði reiknaðar inn í þá hækkun sem verður á búvöru nú og þá að sjálfsögðu til lækkunar bæði á grundvöllinn og sömuleiðis gagnvart vinnslustöðvum. Að öðru leyti verður ekki hjá því komist að auka nokkuð niðurgreiðslur. Gert er ráð fyrir því að engin hækkun verði á mjólk og kjöti nú 1. mars og að öðru leyti verði áhrifunum eytt sem á vísitöluna annars yrðu.

Þarna er vitanlega um gífurlega mikið fjárhagsmál fyrir ríkissjóð að ræða og það mun verða athugað mjög vandlega á næstu vikum hvernig því verður í framtíðinni mætt. Um þetta varð full samstaða og ég geri mér fastlega vonir um að á þessari stundu sé verið að ganga frá kjarasamningi. Ég lýsi jafnframt þeirri von minni að þetta verði til þess að snúa mjög við þeirri verðbólguþróun sem hér hefur verið og til stórkostlegs bata í okkar efnahagsmálum.

Ég get þó ekki annað en vakið athygli á því að í raun og veru er allur sá bati, sem orðið hefur í viðskiptakjörum, notaður til þess að styrkja kaupmáttinn, bæta lífskjörin, en ekki til þess t.d. að draga úr erlendum skuldum. Mjög er líklegt að viðskiptahalli verði svipaður og hann var á síðasta ári. Það er því verkefni sem sannarlega bíður okkar á næstu árum. Talið er að þessi viðskiptakjarabati leiði til þess að þjóðartekjur aukist um u.þ.b. 4 af hundraði á þessu ári en þjóðarútgjöld munu að öllum líkindum aukast um 2-3 af hundraði í stað 1 af hundraði sem gert var ráð fyrir í áætlun ríkisstjórnarinnar. Mikilvægt er að þessir hlutir haldist í hendur. Þá held ég að takast muni eins og að er stefnt.