27.02.1986
Sameinað þing: 53. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2825 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

Kjarasamningar

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég lít svo á að þeir samningar, sem aðilar vinnumarkaðarins hafa gert sín á milli, marki að mörgu leyti þáttaskil og þær ráðstafanir, sem ákveðið hefur verið að gera af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að greiða fyrir þeim samningum, séu á sama hátt allmikil nýlunda í samningagerð og samskiptum ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins. Við erum m.ö.o. að troða nýjar slóðir og við hljótum að vænta þess að þessi tilraun, sem ég vil kalla svo, muni leiða til góðs. Ég lít svo á að þetta sé tilraun til eins konar þjóðarsáttar um það að ná niður verðbólgu og styrkja kaupmátt með sameiginlegum aðgerðum aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins. Það hefur legið fyrir lengi, og allt frá því að þessi ríkisstj. tók við völdum, að hún vildi standa á þennan veg að gerð kjarasamninga í þessu skyni.

Við höfum allt of oft, Íslendingar, þurft að þola það og um allt of langan tíma að aðilar vinnumarkaðarins sætu út í bæ og gerðu kjarasamninga sem kollvörpuðu verðbólgumarkmiðum hverrar ríkisstjórnarinnar á fætur annarri, gengju í berhögg við efnahagsmarkmið ríkisstjórna og vilja Alþingis að þessu leyti. Árum saman hafa aðilar vinnumarkaðarins þannig setið út í bæ og gert kjarasamninga gegn stefnu ríkisstjórna. Nú hefur það hins vegar gerst að þeir hafa setið á rökstólum á grundvelli tilboðs sem ríkisstj. gerði, síðast með yfirlýsingu frá 11. febrúar, í þeim tilgangi að ná kjarasamningi á þennan veg og ég fagna því að sú niðurstaða skuli fengin sem hér hefur orðið.

Því ber ekki að leyna að þessir samningar og þær ráðstafanir, sem ákveðið hefur verið að gera í framhaldi af þeim, ganga nokkuð lengra en ríkisstj. hafði ætlað í upphafi með yfirlýsingu sinni frá 11. febrúar s.l. Eigi að síður tel ég að hér hafi náðst mjög mikilsverður árangur og það sé bæði rétt og skylt að ganga til þeirra aðgerða sem hér hefur náðst samkomulag um. Auðvitað höfum við ekki leyst öll okkar efnahagslegu vandamál með þessum hætti þó að á þennan veg stefni að lægri verðbólgu en áður og traustari kaupmætti en ella hefði verið unnt að ná. Við stöndum enn frammi fyrir verulegum erlendum skuldum og viðskiptahalla og þurfum að færa nokkrar fórnir í ríkisfjármálum til þess að ná þessu markmiði. Við verðum m.ö.o. að reka ríkissjóð á þessu ári með halla til þess að þetta markmið náist. Ég met það hins vegar á þann veg að hér séum við að ná í heild svo mikilsverðum efnahagslegum markmiðum í þágu launþeganna í landinu og atvinnulífsins að það sé réttlætanlegt að taka á sig nokkra áhættu í ríkisfjármálum til þess að þessi árangur geti orðið að veruleika.

Fyrir utan þær ráðstafanir, sem áður höfðu verið boðaðar af hálfu ríkisstj. um lækkun tekjuskatts og tilmæli til sveitarfélaga um lækkun útsvars í takt við lækkandi verðbólgu og lækkun á verðskrám opinberra fyrirtækja, hefur verið ákveðið að grípa til ráðstafana sem samtals kosta ríkissjóð um 1250 millj. kr. Hér er um að ræða að fella niður verðjöfnunargjald af raforku og launaskatt í fiskiðnaði og iðnaði, en samtals munu þessar aðgerðir kosta um 640 millj. kr. Svo er um að ræða aðgerðir til að lækka tolla á ýmsum hátollavörum sem vega þungt í neyslu almennings, en þessar ráðstafanir kosta um 590 millj. kr. Og þar að auki er gert ráð fyrir því að verja 220 millj. kr. til þess að færa niður verðlag á landbúnaðarafurðum.

Hv. málshefjandi í þessum umræðum hélt því fram að skilyrði fyrir því, að þeir samningar sem náðst hafa og kynntir hafa verið, sé það að ríkisstjórnin breyti stefnu sinni. Þetta er býsna furðuleg yfirlýsing í ljósi þess að nú loks hafa tekist heildarkjarasamningar í landinu á grundvelli þeirra hugmynda sem ríkisstj. hefur fyrir löngu lagt fram og lagt áherslu á að ættu að liggja til grundvallar kjarasamningum. Í febrúar 1984 voru gerðir kjarasamningar með þessum hætti, til skamms tíma að vísu. Fyrir haustsamningana 1984 lá fyrir mjög ákveðið tilboð af hálfu ríkisstj. um samningsgrundvöll með mjög svipuðum hætti og hér hefur verið gert nú. Þá náðist ekki samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins um að fara þessa leið, því miður, og það kostaði verulega verðbólguöldu í kjölfarið og þýddi að um skeið urðu menn að fresta áformum um að styrkja kaupmátt launafólks í landinu. Nú hefur náðst samstaða á þessum grundvelli.

Þegar mælt var fyrir fjárlögum þessa árs fyrr á þessu þingi var því lýst yfir að ríkisstj. væri reiðubúin til viðræðna á þennan veg. Það var endurtekið, eins og fram hefur komið í máli hæstv. forsrh., í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins fyrir áramót og enn á ný með yfirlýsingum nú í byrjun þessa árs. Ég lít svo á að báðir aðilar, samningsaðilar á vinnumarkaðinum hafi lagt sig mjög fram um það að ná skynsamlegri niðurstöðu og þeir eiga miklar þakkir skildar fyrir það að treysta sér til þess að takast á við þetta mikla verkefni, því það er einfaldari lausn að ganga til kjarasamninga á þann veg að verðbólgan jafni mismun milli tekna og gjalda í þjóðfélaginu. En hér hafa menn freistað þess að takast á við þessi verkefni og leysa á þennan veg. Auðvitað sköpuðu breyttar efnahagsaðstæður í byrjun þessa árs betri skilyrði en ráð var fyrir gert þegar þjóðhagsáætlun var gefin út í lok síðasta árs. Viðskiptakjarabati hafði þar verulega mikið að segja.

Hv. 5. þm. Reykv., sem hóf þessa umræðu, gat þess að ýmislegt gæti orðið til þess að spilla árangri af þessari samningsgerð og tók þar fyrst og fremst til hugsanlegan hallarekstur ríkissjóðs og lántökur. Það sem skiptir máli í þessu sambandi er það hvar lán eru tekin. Ef lánin eru tekin erlendis til þess að mæta þessum aðgerðum þá hefur það verðbólguáhrif hér innanlands og er til þess fallið að grafa undan grundvelli þessara samninga. Á það get ég fallist. Enn fremur ef við reyndum að mæta þessu með seðlaprentun í gegnum Seðlabankann eins og stundum hefur verið gert þá mundi það hafa svipaðar afleiðingar í för með sér. Það er fullkomin samstaða á milli ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins um að standa ekki að fjáröflun með þessum hætti. Fjármagns til þessara aðgerða verður aflað innanlands. Það verður ekki gert með því að leggja á nýja skatta. En það verður gert með lántöku, fyrst og fremst hjá lífeyrissjóðum og í bankakerfinu.

Ég tel ekki rétt við þessar aðstæður þegar verið er að gera kjarasamninga sem eiga að styrkja kaupmátt og gera sérstakar ráðstafanir til þess að draga úr verðlagsáhrifum að kalla það til baka með nýrri skattheimtu á almenning. Það væri óskynsamlegt við þessar aðstæður. En hitt er nauðsynlegt að fjármunanna sé aflað með lántökum innanlands þannig að það auki ekki líkur á þenslu. Auðvitað kemur það einhvers staðar niður. Hjá því verður ekki komist. Það fjármagn sem ríkissjóður tekur að láni hjá lífeyrissjóðunum verður ekki notað til annarra hluta. Og það mun skerða ráðstöfunarfé bankanna að ríkissjóður verður að taka þar umtalsverðar upphæðir að láni. Þetta verður einhvers staðar að koma niður en ég tel skynsamlegra að gera það með þessum hætti en að leggja á nýja skatta.

Þess vegna er ekki gert ráð fyrir því að leggja á eignarskatt, eins og hv. málshefjandi spurðist fyrir um, og ég væri líka ósammála því að leggja á sérstakan launaskatt í tilteknum atvinnugreinum. Það hafa heyrst hugmyndir um að hækka launaskatt í bönkum og hjá ýmsum þjónustuaðilum um 3,5%. Ég lít svo á að ef það yrði gert væri ríkisstj. beinlínis að stuðla að því að launþegar hjá þessum aðilum fengju ekki sömu kjarabætur og aðrir launamenn í landinu. Og fyrir þá sök ekki síst teldi ég rangt að standa að slíkri skattheimtu við þessar aðstæður.

Gert er ráð fyrir því að samhliða þeim ráðstöfunum, sem gerðar verða í tengslum við þessa kjarasamninga, megi lækka erlendar lántökur um rúmlega 800 millj. kr. frá því sem lánsfjárlög gerðu ráð fyrir. Fyrir þessu verður gerð frekari grein þegar mælt verður fyrir frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og til breytinga á lánsfjárlögum, væntanlega á fundi hér á hinu háa Alþingi í kvöld.

Það skiptir miklu máli, eins og hv. málshefjandi benti á, að sparnaður haldi áfram að aukast. Það er rétt, sem hér hefur komið fram og hæstv. forsrh. hefur bent á, að sá ávinningur sem við höfum notið vegna batnandi viðskiptakjara fer til þess að styrkja kaupmátt, honum er ekki varið til þess að greiða niður erlend lán og til þess að draga verulega úr viðskiptahalla. Því skiptir miklu máli að við stöndum á þann veg að öllum ráðstöfunum að sparnaður haldi áfram að aukast í þjóðfélaginu þannig að ekki leiði til aukinnar þenslu. Ég tek fyllilega undir það með hv. þm. og treysti því einnig að hann sé þá reiðubúinn að standa að efnahagslegum ráðstöfunum og ákvörðunum sem stuðli að því að auka sparnað.

Hv. 5. þm. Reykv. minntist á það enn einu sinni að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með afgreiðslu fjárlaga á Alþingi og þær breytingar sem gerðar voru á fjárlagafrv. í meðferð þess hér á Alþingi í kjölfar fundar Sjálfstæðismanna í Stykkishólmi. Þessar breytingar fólu nú í sér niðurskurð á opinberum umsvifum um 1200 millj. kr. Það er afar athyglisvert að hann skuli upplýsa það í hverri þingræðu sem hann heldur að af þessum sökum hafi hann orðið fyrir miklum vonbrigðum með afgreiðslu fjárlaganna hér á hinu háa Alþingi. Það olli honum vonbrigðum að það tókst að draga úr ríkisumsvifum um 1200 millj. kr. og að við meðferð frv. og lánsfjárlaga hér á Alþingi tókst að lækka erlendar lántökur um 800 millj. kr. frá því sem ráðgert var. Mér finnst vera ástæða til þess að krefja hv. þm. um skýringar á því hvers vegna þessar ráðstafanir hafa valdið honum sérstökum vonbrigðum.

Ég furða mig á því að hv. þm. skuli vera að rifja hér upp tillögur Alþfl. við afgreiðslu fjárlaga um sparnað í ríkisrekstri. Mér finnst að ýmsir Alþýðuflokksmenn, þeir eru kannske ekki mjög margir, Alþýðuflokksmenn í heild, en ýmsir þeirra hafa nú held ég fremur skammast sín fyrir þessar tillögur en hitt. Ef ég man rétt þá byggðust þessar tillögur á niðurskurði. Ég minnist þess að það átti að lækka ríkisútgjöld með því að ákveða í fjárlögum: Kennaraháskóli Íslands, liðurinn fellur niður; Búnaðarfélag Íslands, liðurinn fellur niður; Fiskifélag Íslands, liðurinn fellur niður. Þetta voru hinar miklu tillögur sem Alþfl. flutti og er að berja sér á brjóst að hafi átt að leysa ríkisfjármálavandann. Ég skil mætavel þá Alþýðuflokksmenn sem skammast sín frekar fyrir þessar tillögur en að hreykja sér af þeim.

Það er ekki tilefni hér til þess að fara út í almennar stjórnmálaumræður af þessu tagi en ég taldi rétt að þetta kæmi fram af því tilefni sem hv. málshefjandi gaf hér í upphafi máls síns.

Aðalatriðið er það að hér er að fást mjög mikilvæg niðurstaða í erfiðu úrlausnarmáli sem er gerð kjarasamninga ákvörðun um tekjuskiptinu og þátttaka stjórnvalda til þess að leysa þau mál. Ég ítreka að við erum að feta hér inn á nýjar brautir, gera tilraunir til þess að leysa þessi mál með öðrum hætti en áður. Og ég er sannfærður um að þær vonir, sem við þetta samkomulag eru bundnar, eiga eftir að rætast. Við megum þó ekki gleyma því að það er ekki allur vandi leystur og mörg verkefni sem þarf að vinna og margur vandi í efnahags- og atvinnumálum sem enn þarf að glíma við. Aðalatriðið er þó hitt að menn hafa freistað þess að ganga til verks til þess að leysa þetta verkefni með það í huga og með þeim ásetningi og með þeim árangri að ég tel að við getum búið við lægra verðbólgustig og styrkari kaupmátt en ella hefði orðið.