27.02.1986
Sameinað þing: 53. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2832 í B-deild Alþingistíðinda. (2404)

Kjarasamningar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða hér um einstök atriði þess kjarasáttmála sem ríkisstjórn Íslands hefur gengið að fyrir sitt leyti. Til þess mun gefast tækifæri í hv. Ed. í kvöld og í nótt þegar frv., sem væntanlega verður efnislega samhljóða þeim hluta þessa sáttmála sem að ríkinu snýr, verður tekið til umræðu.

Það sem ég tel ástæðu til að vekja athygli manna á, við þessa dálítið undarlega tímasettu utandagskrárumræðu, er hlutverk hæstv. ríkisstj. í þeim stórtæku efnahagsaðgerðum sem standa fyrir dyrum og hvað það segir okkur um íslenskt stjórnarfar.

Ég held að það sé alveg ljóst að Íslendingar búa nú við einhverja þá duglausustu ríkisstj. sem hér hefur lengi setið. Þessi ríkisstj. hefur verið að bauka við það undanfarna mánuði að setja fjárlög fyrir íslenska ríkið, ákveða hvernig menn og fyrirtæki skuli skattlögð, hvernig eiga skuli við húsnæðisvandaskrímslið mikla og hvernig vöxtum skuli vera háttað í landinu svo eitthvað sé nefnt. Við Austurvöll situr svo Alþingi Íslendinga og fer samviskusamlega yfir þessar tillögur og lagafrumvörp ríkisstj., ræðir þau, reynir að sjá betri leiðir o.s.frv., í stuttu máli, gegnir því starfi sem því er ætlað í lýðræðisríki. En hvað gerist svo? Einn sólbjartan dag er hendinni veifað og verk ríkisstj. og Alþingis hrynja eins og spilaborgir. Aðilar vinnumarkaðarins uppi í Garðastræti eru búnir að ákveða að hlutirnir eigi að vera á annan veg. Þá segir ríkisstj. Íslands einfaldlega: Já, já. Við skulum bara breyta því sem við vorum að gera og hafa þetta eins og þið viljið.

Hvers lags ríkisstj. er þetta og hvers konar framkoma við Alþingi er þetta? Hvað á það að þýða að vera að leggja frumvörp fyrir Alþingi, láta ræða þau þar og gera að lögum og fáum vikum síðar eru þau tekin til baka og varla stendur eftir steinn yfir steini í nýsettum lögum. Nú kann að vera, og ég er alls ekki frá því, að ýmislegt fari betur og sé skynsamlegra í þeim tillögum sem eru búnar til uppi í Garðastræti en þeim sem verða til í Stjórnarráði Íslands þessa dagana. Ljóst er að Garðastrætistillögurnar stefna beint að því höfuðmarkmiði núv. ríkisstj. að ná verðbólgunni niður í afar lága tölu. Og þá spyrja menn sig: Ef þessar nýju tillögur eru svona skynsamlegar, að mati ríkisstj., hvers vegna var hún ekki fyrir löngu búin að koma með þær sjálf? Hvers vegna lagði ríkisstj. þá ekki þann efnahagslega grunn sem þessir samningar byggja á ef hún telur þennan grunn svona skynsamlegan? Hvers vegna bíður hún eftir tillögum aðila vinnumarkaðarins í því efni?

Dáðleysi og dugleysi held ég að hljóti að vera eina svarið við þessum spurningum og þetta dugleysi er ekkert grín. Það vekur upp spurningar um hver fer t.d. raunverulega með stjórn efnahagsmála hér á landi. Það fara að verða áhöld um það að það sé ríkisstjórn Íslands, eins og vera ber, ekki ef hún gerir ekki annað en að taka við tillögum um aðgerðir í efnahagsmálum frá félögunum í Garðastrætinu. Og hvað þýða frjálsir kjarasamningar við þessar aðstæður? Hlutverk ríkisstjórna er að leggja þann efnahagslega grunn sem aðilar vinnumarkaðarins gera síðan sína samninga á, án afskipta stjórnvalda. Nú er það komið í hring. Aðilar vinnumarkaðarins leggja efnahagsgrunninn og samningarnir eru háðir samþykki ríkisstj. Og hvað á Alþingi að gera við þessar aðstæður? Við þessir þjóðkjörnu fulltrúar? Lögin sem við setjum um ráðstöfun almannafjár eru lítils nýt, umfjöllun okkar um þau aukaatriði.

Nýverið sendu fulltrúar stjórnarflokkanna í allshn. Sþ. ásamt fulltrúa Alþfl. í nefndinni meira að segja frá sér nál. þar sem fram kemur sú skoðun að ekki sé á færi Alþingis að hafa skoðun á því hvort heimilisstörf skuli metin til starfsreynslu hjá ríkisstarfsmönnum eins og við Kvennalistakonur höfum gert tillögu um. Þetta er kjarasamningaatriði, segja þessir fulltrúar fólksins. Alþingi getur ekki haft neina skoðun á þessu. Á hverju getur Alþingi þá haft skoðun? Mér er spurn. E.t.v. er það orðið óæskilegt að Alþingi hafi skoðun á einföldum réttlætismálum. Hins vegar er fullljóst hvað Alþingi fær að gera næsta sólarhringinn. Það fær það hlutverk að stimpla tillögurnar úr Garðastrætinu og við erum beðin um að flýta okkur að því, eins og við getum, því ef þær verða ekki að lögum von bráðar verður þjóðfélagið strand. Þannig er nú komið þingræðinu í landinu, undirstöðu þess stjórnarfars sem við búum við og má það vera okkur öllum umhugsunarefni.

Herra forseti. Þetta er í raun sá lærdómur, sem draga má um íslenskt stjórnarfar af hlutverki núv. ríkisstj. í þeim efnahagsaðgerðum sem nú hefur orðið samkomulag um. Efnislega umræðu um þetta samkomulag mun ég geyma mér til kvölds þegar það verður tekið fyrir sem stjfrv. í hv. Ed.