27.02.1986
Sameinað þing: 53. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2833 í B-deild Alþingistíðinda. (2405)

Kjarasamningar

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Já, þessir samningar - Garðastrætissamningarnir munu þeir trúlega verða nefndir eða eitthvað því um líkt þegar menn fara að skrifa mannkynssöguna. Þessir undarlegu samningar þar sem einn af aðalsamningamönnunum gat þess svona rétt í framhjáhlaupi við undirskrift samninganna að auðvitað væru þeir reyndar ekki búnir að ræða þetta í ríkisstjórninni og maður dró andann léttara að hann mundi þó enn þá eftir henni.

Ég býst við að það veður sem hefur skapast í kringum þessa samninga haldi eitthvað áfram því að tilfellið er að fólk vill yfirleitt trúa því að þeir aðilar sem segjast vera að gera eitthvað fyrir það séu raunverulega að gera eitthvað fyrir það. Við þurfum ekkert að hvarfla neitt langt aftur í tímann til þess að muna það t.d. hvað stjórn Gunnars heitins Thoroddsens var vinsæl í skoðanakönnunum þrátt fyrir öll þau axarsköft sem hún framdi. En þegar víman rennur nú af mönnum býst ég við að menn fari smátt og smátt að átta sig á því að hér hafa menn gert samninga, því miður, nánast um ekki neitt.

Hér hefur orðið á undanförnum árum 25-30% kjaraskerðing. Nú er búið að semja um það að stöðva þessa skerðingu og í raun og veru ekkert annað. Verkalýðsforystan, sem hingað til hefur þó varist því, er í raun og veru búin að samþykkja kaupmáttarskerðingarstefnu þessarar ríkisstjórnar og launþegarnir, þeir launþegar sem hafa ekki getað lifað af launum sínum hingað til, geta það ekkert frekar núna. Þeir sem hafa orðið að vinna tvöfaldan vinnudag verða að halda því áfram. Kaupmáttartrygging með 1% krónutöluaukningu á mánuði, það sem eftir er þessa árs u.þ.b., er í raun ekkert annað en kaupmáttarfrysting og bætir ekkert hag þeirra sem eru með laun undir 35 000 kr. 100-350 kr. á mánuði til viðbótar við þessi laun gera ekki mikið í launaumslaginu. Þá er ég reyndar að gleyma þessum stórkostlegu jólagjöfum sem þetta fólk með lágu launin, eins og kallað er, fær í apríl og í júní, sem eru fyrir þá sem lægstir eru, í allt einar rausnarlegar 6000 kr.

Kaupmáttarfrysting, sem þetta er, 1% á mánuði, breytir engu fyrir þá launþega sem eru með laun á bilinu 35 004-70 000 kr. Ég sagði áðan: Þau gera nákvæmlega ekki neitt fyrir fólk sem er með laun undir þessu og minna en ekki neitt og breytir engu fyrir þá sem eru með laun á bilinu 35 000-70 000 kr. Fyrir þá sem eru með laun á bilinu 70 000-150 000 kr. eru þetta þó rúmlega 700-1500 kr. á mánuði út árið, þá munar kannske smávegis um það. Rétt eina ferðina hefur láglaunafólkið verið haft af fífli, bæði af forystu verkalýðsins og atvinnurekendum, að ég tali nú ekki um ríkisstj., en það tekur því varla að minnast á hana í þessu tilviki.

Þessi stjórn, sem nú stjórnar, hefur stýrt láglaunastefnu í þágu atvinnufyrirtækjanna, ekki bara árið 1983 heldur allan stjórnartímann. Þessir samningar eru trygging fyrir fyrirtækin að laun skuli ekki hækka á þessu ári því að þessi litla krónutöluaukning sem hér er verið að tala um kemur ekki til með að hækka útgjöld atvinnufyrirtækjanna í hlutfalli við verðlag. Hér skal m.ö.o. ríkja láglaunastefna áfram og undir þetta er verkalýðsforystan núna líka búin að skrifa.

Ríkisstj. neitar enn eina ferðina að gera kröfur til fyrirtækjanna - það sama á líka við um verkalýðsforystuna - í stað þess að gera kröfur til launþeganna. Áfram skulu launþegar þessa árs og framtíðarinnar borga þessa súpu. Ríkisstj. ætlar áfram að halda úti niðurgreiddum atvinnurekstri á Íslandi í stað þess að gera þá einföldu kröfu að atvinnurekstur á að borga sig og vera þess megnugur að greiða laun. Atvinnurekandi, sem ekki hefur dugnað til þess að greiða fólki 35 000 kr. á mánuði og ekki siðgæðistilfinningu til að gera það, á ekki að vera að standa í atvinnurekstri og það á að vera stefna ríkisstj. Láglaunastefna ríkisstj. er dekur við lélega atvinnurekendur.

Fjmrh. segir: Árum saman hafa aðilar vinnumarkaðarins eyðilagt efnahagsstefnu ríkisstj., ekki bara sinnar ríkisstj. heldur allra annarra líka. Hvers vegna? Auðvitað vegna þess að ríkisstjórnir, þessi og aðrar, hafa aldrei staðið á stefnu sinni, heldur rekist fyrir vindi í hlýðni sinni við aðila vinnumarkaðarins. Hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. tala um það að hér séu farnar nýjar leiðir. Það er alls ekki rétt. Hér hefur verið samið um kaupmáttarfrystingu, eins og ég sagði áðan, og ef launamaður vill njóta þessarar kaupmáttarfrystingar verður hann að hafa greitt tekjuskatt, hann verður að kaupa sér videó, hann verður að kaupa sér sjónvarp, hann verður að kaupa sér eldavél og hann verður að drekka mikið af mjólk og hann verður að kaupa sér bíl og hann verður að borða súpukjöt og hann verður að nota alveg ægilega mikið af rafmagni til að sjóða þetta súpukjöt til þess að njóta þessarar kaupmáttartryggingar.

Ef þú vilt ekki nota þessa neysluskömmtun - því þetta er náttúrlega ekkert annað en skömmtun, á svipaðan hátt eins og skömmtunarseðlarnir voru eftir stríðið - og vilt ekki falla inn í þetta neyslumunstur nýtur þú engrar kaupmáttartryggingar.

Svo er það spurningin um samningana og stjórnkerfið. Ef þetta eru góðir samningar, sem gerðir hafa verið - og það eru sumir sem enn þá reyna að halda því fram - er stjórnkerfi okkar ónýtt því að hér hefur eingöngu verið samið um aðgerðir stjórnvalda. Það hefur ekki verið samið um launahækkanir. Menn skyldu byrja strax að reyna að leggja það á minnið. Og þessi ríkisstjórn, sem í raun og veru er ekkert aumari en aðrar ríkisstjórnir, gat ekki í þrjú ár skapað grundvöll fyrir kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins sem stæðust, en nú hafa aðilar vinnumarkaðarins sagt ríkisstjórninni fyrir verkum um það hvað ríkisstjórnin á að gera til að stöðva kaupmáttareyðileggingu. Þessi fyrirskipun er ekki ýkja merkileg. Hún er einfaldlega þessi: Takið 1800 millj. kr. lán og greiðið niður verðbólguna. Punktur. Ef einhverjir þingmenn hefðu flutt hér þáltill., svona fyrir viku síðan eða svo, um það að ríkisstj. tæki 1800 millj. kr. lán til að greiða niður verðbólguna hefði ekki bara verið hlegið. Það hefði örugglega verið hnussað fjandi mikið hér í þingsölum.

Ef þetta eru vondir samningar er stjórnkerfið vont líka því það tekur ábyrgð á þeim og Alþingið, jú, veslings Alþingi fær að afgreiða þessa samninga með enn einum lagabandorminum í runu á rúmlega einum sólarhring. Þessir samningar, Garðastrætissamningarnir, þessi niðurlæging ríkisstj. og Alþingis, þessi niðurlæging stjórnkerfisins, eru sönnun þess að stjórnkerfi okkar er ónýtt, ónýtt vegna þess að það svarar ekki vilja fólks og þjóðar nema með leyfi og fyrirskipunum hagsmunaafla í þjóðfélaginu.