27.02.1986
Efri deild: 52. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2844 í B-deild Alþingistíðinda. (2413)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, verðlagsog lánsfjármálum 1986. Þetta frv. er flutt í tengslum við kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins og þær ráðstafanir sem ríkisstj. hefur gefið þeim fyrirheit um til þess að treysta undirstöðu þeirra samninga.

Með yfirlýsingu ríkisstj. frá 11. febr. var aðilum vinnumarkaðarins gerð grein fyrir því að ríkisstj. væri tilbúin að beita sér fyrir sérstökum ráðstöfunum af sinni hálfu til þess að gera mætti kjarasamninga á þann veg að verðbólga yrði innan við 9% á þessu ári í trausti þess að viðskiptakjör yrðu óbreytt og ytri aðstæður þjóðarbúskaparins breyttust ekki til hins verra frá því sem nú er.

Ríkisstj. lýsti því yfir að hún væri tilbúin til þess að halda meðalgengi krónunnar sem stöðugustu og fylgja eftir ýtrasta aðhaldi í fjármálum, peningamálum og erlendum lántökum. Jafnframt var frá því greint að ríkisstj. hefði rætt við forsvarsmenn opinberra fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga um lækkun á gjaldskrám þeirra til samræmis við breyttar horfur í verðlagsmálum. Þar kom fram að ríkisstj. var tilbúin að beita sér fyrir lækkun á heildsöluverði Landsvirkjunar til almenningsveitna um 10% og á töxtum Rafmagnsveitna ríkisins um 10% jafnframt því sem Rafmagnsveita Reykjavíkur hafði gefið fyrirheit um samsvarandi lækkun. Hitaveita Reykjavíkur hafði gefið fyrirheit um lækkun taxta um 7%. Ákveðið var að lækka afnotagjald Ríkisútvarpsins um 5% og ríkisstj. hét því að beita sér fyrir lækkun á dagvistunargjöldum um 5%. Auk þessarar beinu verðlagslækkunar voru gefin fyrirheit um að fyrirtæki féllu frá fyrri áformum um hækkun á gjaldskrám síðar á árinu. Bein áhrif til lækkunar á verðlagi vegna þessara aðgerða voru metin á 0,5% en með óbeinum áhrifum var talið að þau gætu numið 0,7%. Jafnframt var gefið fyrirheit um að lækka mætti tekjuskatta til samræmis við lækkun verðlags um 150 millj. kr. og borgarstjórn Reykjavíkur lýsti því yfir að hún mundi beita sér fyrir lækkun á útsvari um 300 millj. kr. eða úr 10,8% í 10,2% og önnur sveitarfélög hafa gefið vilyrði fyrir samsvarandi lækkun. Jafnframt var því lýst yfir að fyrirframgreiðsla opinberra gjalda mundi lækka úr 13% á mánuði af álagningu fyrra árs í 12%.

Fyrirheit voru gefin um lækkun nafnvaxta og lækkun á verði á olíu og bensíni í samræmi við þá almennu lækkun sem orðið hefur á heimsmarkaði á þessum vörum. Jafnframt var tekið undir óskir um ráðstafanir til þess að hafa áhrif á lækkun búvöruverðs og aðgerðir í húsnæðismálum. Aðilum vinnumarkaðarins var gerð grein fyrir því að ríkisstj. væri fyrir sitt leyti reiðubúin að ræða annars konar útfærslu á þessum megingrundvelli sem hún var tilbúin að leggja fyrir vegna kjarasamninganna og frekari aðgerðir ef þeirra yrði talin þörf.

Í samræmi við þetta hefur ríkisstj. í dag gert aðilum vinnumarkaðarins grein fyrir því að í samræmi við óskir þeirra er hún tilbúin að beita sér fyrir viðbótarráðstöfunum, fyrst og fremst til þess að hafa áhrif á verðlag til lækkunar og treysta rekstur útflutningsatvinnuveganna.

Þar er um að ræða ráðstafanir sem kosta munu ríkissjóð um 1450 millj. kr. samtals og það frv. sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir útfærslu á þeim breytingum. Ég tel að með þessum samningum hafi tekist mjög heilladrjúg samvinna á milli ríkisvalds og aðila vinnumarkaðarins og með þeirri samvinnu og því samkomulagi sem gert hefur verið á milli samningsaðila á vinnumarkaðinum og svo milli þeirra hins vegar og ríkisstj. hafi verið lagður grundvöllur að því að á þessu ári náum við því takmarki að lækka verðbólgu meira en gert hafði verið ráð fyrir í þjóðhagsáætlun og styrkja frekar kaupmátt en þar var ráð fyrir gert.

Það frv. sem hér liggur fyrir felur í sér breytingar í samræmi við þetta á fjárlögum og skattalögum, tollalögum og lánsfjárlögum. Það er ljóst að þessar ráðstafanir hafa veruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs. Hún veikist allverulega á þessu ári frá því sem ráð var fyrir gert í fjárlögum eða frá því að þau gerðu ráð fyrir 163 millj. kr. tekjuafgangi til þess að halli verður nú á fjárlögum um 862 millj. kr. Afkoman versnar því um 1025 millj. kr. Tekjur ríkissjóðs lækka um 2510 millj., þar af um 1050 millj. vegna áhrifa breyttra verðforsendna. Tekjulækkun vegna gagngerra aðgerða til lausnar á kjarasamningum nemur, eins og áður segir, um 1450 millj. kr.

Ríkissjóður fórnar nokkrum veigamiklum tekjuliðum. Þar má nefna tolltekjur af innflutningi bifreiða um 400 millj. kr., lækkun tolla af grænmeti, heimilistækjum og fleira um 180 millj. kr. og lækkun launaskatts um 250 millj. kr. Þá lækka tekjur af innflutningsgjaldi af bensíni um 150 millj. kr. og niðurfelling verðjöfnunargjalds af raforku rýrir tekjur ríkissjóðs á þessu ári um 330 millj. kr.

Allar þessar tekjuaðgerðir hafa áhrif, ekki aðeins á þessu ári heldur einnig til lengri framtíðar, og það má gera ráð fyrir að erfitt verði að komast hjá einhverjum halla á rekstri ríkissjóðs, einnig á næsta ári, í kjölfar þessara ráðstafana.

Með þeim samningum og þeim breyttu efnahagslegu forsendum sem lagðar eru til grundvallar náum við mjög mikilvægum efnahagslegum markmiðum og því teljum við skynsamlegt og rétt að fórna nokkru að því er ríkisfjármálin varðar.

Lækkun tekjuskatts nemur um 150 millj. kr. Hún gerist með þeim hætti að skatthlutföll í öllum þrepum lækka um 0,5%. Með lækkun skatthlutfallanna á þennan hátt er stefnt að því að lækkun á greiðslubyrði tekjuskatts verði sem sanngjörnust fyrir skattgreiðendur. Fallið er frá því að lækka aðrar stærðir í lögum um tekjuskatt og eignarskatt, svo sem barnabætur. Þær aukast því nokkuð að raungildi. Þó mun skattafsláttur lækka á þessu ári um 400 kr. hjá hverjum einstaklingi til þess að ná þeim markmiðum sem að er stefnt í frv. þessu. Útgjöld ríkissjóðs lækka frá samþykktum fjárlögum um 1485 millj. kr. Lækkunin skýrist þannig að vegna verðforsendnanna lækka útgjöld um 1080 millj. kr. Sú lækkun verður framkvæmd þannig að flestir útgjaldaliðir fjárlaga verða lækkaðir. Mestu máli skiptir í því sambandi launa- og rekstrargjaldaliðir hvers konar. Þá verða framlög til stofnkostnaðar og ýmiss konar rekstrartilfærslur lækkuð til samræmis.

Ráðuneytum verður gerð grein fyrir breytingum einstakra fjárlagaliða mjög fljótlega og þegar fyrir liggur hver endanleg niðurstaða verður í kjarasamningum við opinbera starfsmenn en ráð er fyrir því gert að þeir verði leiddir til lykta á sömu forsendum og aðilar vinnumarkaðarins hafa komið sér saman um með samningum sín á milli í dag.

Framlög til lífeyristrygginga hafa sérstaklega verið metin vegna sérstakra launabóta til þeirra sem lægst hafa launin og reiknað er með að elli- og örorkulífeyrisþegar sem njóta tekjutryggingar fái hliðstæða hækkun bóta.

Það er ráð fyrir því gert að taka, í samræmi við það samkomulag sem orðið hefur á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj., lán frá lífeyrissjóðunum að upphæð 925 millj. kr. Frv. gerir ráð fyrir því að þetta lán verði tekið af Byggingarsjóði ríkisins. Það eykur ráðstöfunartekjur hans um 300 millj. sem ætlað er að verja til þeirra sem hafa átt við greiðsluerfiðleika að etja og þessar 300 millj. koma til viðbótar 200 millj. sem áður var ættað að ráðstafa í því skyni. Með því að byggingarsjóðurinn tekur allt þetta lán sem lífeyrissjóðirnir hafa boðið fram í þessu skyni lækkar framlag ríkissjóðs til byggingarsjóðsins um 625 millj. kr., en það er sú upphæð sem lífeyrissjóðirnir höfðu gert ráð fyrir að ráðstafa á þann veg að koma til móts við þann mikla kostnaðarauka sem ríkissjóður hefur af aðgerðum til þess að greiða fyrir þessum samningum.

Þá er sérstaklega gert ráð fyrir því að verja um 220 millj. kr. til þess að niðurgreiða landbúnaðarafurðir í samræmi við þá yfirlýsingu sem aðilum vinnumarkaðarins var gefin í dag. Hér er við það miðað að tekjutapi ríkissjóðs, kostnaði ríkissjóðs, vegna þessara ráðstafana verði mætt með lántökum innanlands. Það er ekki gert ráð fyrir því að auka skattheimtu af þessum sökum. Ég er þeirrar skoðunar að með því að ríkissjóður er að gera sérstakar ráðstafanir til þess að treysta fjárhagsstöðu heimilanna með lækkun á margvíslegum opinberum gjöldum sé ekki rétt og ekki verjandi að auka skatta á almenning til þess að standa straum af þessum ráðstöfunum og fyrir því verður fjár aflað með innlendum lántökum í þessu skyni. Það á ekki að hafa áhrif til aukinnar verðþenslu innanlands. Það hlýtur á hinn bóginn að draga úr ráðstöfunartekjum bæði lífeyrissjóða og banka og þeim fjármunum sem ríkissjóður tekur þannig að láni verður ekki ráðstafað til annarra hluta. Augljóst má vera að fjáröflun til þessara aðgerða hlýtur að koma einhvers staðar niður. Við töldum hins vegar rétt að gera það með þessum hætti fremur en að auka skattálögur.

Frv. gerir, eins og áður segir, ráð fyrir því að tekjuskatti verði breytt til samræmis við nýjar verðlagsforsendur. Samtals er þar um að ræða 150 millj. kr. Fyrirheit höfðu verið gefin um að lækkun fyrirframgreiðslu kæmi til framkvæmda um leið og samningar hefðu verið gerðir. Þannig stóð á að þegar nauðsynlegt var að taka ákvarðanir um þessi mánaðamöt sem nú eru senn að renna upp var ekki ljóst hvort af þessum samningum yrði og fyrirframgreiðslan verður því óbreytt um næstu mánaðamót frá því sem áður var, en ráð er fyrir því gert að á næstu þremur gjalddögum komi lækkunin til framkvæmda og þá verði tekið tillit til þess að þessi næsti gjalddagi fellur niður þannig að þeirri lækkun sem þá hefði komið til framkvæmda verður jafnað niður á þrjá næstu gjalddaga. Launþegar eiga þess vegna ekki á þessum tíma að tapa í neinu af þeim sökum.

Frv. gerir ráð fyrir breytingum á launaskatti á þann veg að hann fellur niður af fiskiðnaði og almennum iðnaði. Þetta er gert í því skyni að koma til móts við þessar atvinnugreinar fyrst og fremst. Hér er að stórum hluta til um að ræða útflutningsatvinnugreinar sem þurfa að búa við stöðugt gengi og forsenda þess að þær geti tekið á sig kostnaðarauka af þessum nýju kjarasamningum er sú að þessi skattheimta lækki að því marki sem hér er gert ráð fyrir.

Þá eru í frv. ákvæði um breytingar á tollskrá. Í 10. gr. frv. eru ákvæði þar að lútandi. Greinin fjallar einkum um nauðsynlegar breytingar sem gera verður á tollskrárlögum til þess að ná þeim markmiðum sem samið hefur verið um að þessu leyti. Meginefni þessara breytinga felur í sér að tolltekjur ríkissjóðs lækka um 700 millj. kr. á heilu ári en um 580 millj. kr. á árinu 1986. Þar vegur þyngst lækkun tolla á bifreiðum um 400 millj. kr. á heilu ári. En heildaráhrif þessara aðgerða á vísitölu framfærslukostnaðar eru áætluð um 2,15%.

Skv. a-lið í 10. gr. er lagt til að almenn tollalækkun verði á öllum innfluttum matvælum sem bera hærri toll en 40%. Er hann nú hæstur 80% skv. gildandi tollskrárlögum. Frv. felur í sér að tollur verður ekki hærri en 40% á neinni matvöru og er hér því um verulega tollalækkun að ræða á mörgum matvörum. Þannig mun

til að mynda grænmeti almennt lækka í 40% úr 70%, krydd úr 80%, ýmsir ferskir og niðurlagðir ávextir úr 70% og nokkrar aðrar unnar matvörur úr allt að 80%. Gert er ráð fyrir að tollalækkanir þessar geti leitt til allt að 25-30% verðlækkunar á nefndum matvörum.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að tollur verði lækkaður á hjólbörðum og slöngum úr 40% í 10%, auk þess sem gúmmígjald verði fellt niður.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að tollur á bifreiðum verði lækkaður verulega eða úr 70% í 30%. Auk þess er gert ráð fyrir að svonefnt bifreiðagjald verði fellt niður af bifreiðum með 2000 cm3 slagrými eða minna en lækkun hins vegar hlutfallslega minni á aflmeiri bifreiðum. Gert er ráð fyrir að bifreiðagjaldið verði innheimt af þessum bifreiðum í þremur gjaldflokkum og verði á bilinu 4-12% af tollverði viðkomandi bifreiðar. Breytingar þessar munu leiða til verulegrar lækkunar á útsöluverði bifreiða um allt að 30%.

Í fjórða lagi er lagt til að tollar verði lækkaðir verulega á ýmsum heimilistækjum. Þannig er m.a. ráðgert að lækka tolla á sjónvarpstækjum, myndbandstækjum og útvarpstækjum úr 75% í 40% og á ísskápum, frystikistum, uppþvottavélum, þvottavélum, þurrkurum og fleiri heimilistækjum úr 40% í 15% auk þess sem tollur á ýmsum öðrum heimilistækjum verður lækkaður í 40%.

Með þessu frv. er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á tollalögum sem ekki eiga beint rætur að rekja til þeirra efnahagsaðgerða sem gripið er til í tengslum við kjarasamningana. Hér er um minni háttar leiðréttingar að ræða og hagræðingaratriði sem óhjákvæmilegt er að gera á tollskrárlögunum og þótti hagræði að því, vegna þess að verið var að breyta tollskrárlögum, að koma þeim fram með þessum breytingum.

Hér er um að ræða breytingar sem leiða af því að í byrjun þessa árs urðu Spánn og Portúgal aðilar að Efnahagsbandalagi Evrópu og frá sama tíma féll aðild Portúgala að Fríverslunarsamtökum Evrópu niður, svo og samningur EFTA-landanna og Spánar. Lagt er til að ákvæði tollskrárlaga verði færð til samræmis við breytta skipan þessara mála og Portúgal og Spáni bætt við upptalningu EBE-ríkjanna sem er að finna í upphafi 1. gr. tollskrárlaganna.

Í núgildandi tollskrárlögum er fjmrn. heimilt að láta koma til framkvæmda tollfrelsis- og tollalækkunarákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum. Hér er lagt til að framkvæmd á þessum atriðum verði auðvelduð. Jafnframt er lagt til í 12. gr. að auðvelda ýmsar tæknilegar breytingar á tollskránni og leiðrétta hana þannig að texti skrárinnar endurspegli m.a. sem nákvæmast tollun vara og dragi þannig úr hættu á mismunandi tollmeðferð á vörum eftir innflytjendum eins og nú er raunin á vegna fjölmargra undanþága sem er að finna í auglýsingum og einstökum ráðuneytisbréfum. Jafnframt er gert ráð fyrir því að fjmrh. geti tekið upp ný tollskrárnúmer í tollskránni í þeim tilvikum þegar tollar eru samræmdir á vörum, sem gerðar eru úr mismunandi efnum, eða þeir eru felldir niður.

Þá er heimild til þess að aðlaga tollskrána þeim breytingum sem kunna að verða samþykktar á tollanafnaskrá Tollasamvinnuráðsins hverju sinni eða skýringum við hana. Tollafgreiðslugjald hefur verið innheimt og með þessu frv. er lagt til að það verði lagt niður. Enda hafa tekjur af því verið óverulegar.

Þá er lagt til að samhliða lækkun tolla á hjólbörðum og slöngum verði fellt niður svonefnt gúmmígjald en það eru 45 aurar af hverju kg af hjólbörðum og gúmmíslöngum.

Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstj. frá í dag gerir frv. ráð fyrir að fellt verði niður verðjöfnunargjald á raforku og síðan er hér um að ræða þó nokkrar breytingar á lánsfjárlögum. Lántökur ríkissjóðs og nokkurra annarra opinberra aðila hljóta að taka breytingum í samræmi við þær breyttu forsendur sem hér um ræðir. Ég vil nefna sérstaklega að lántökur ríkissjóðs innanlands hækka um 850 millj. kr. sem er nauðsynlegt til að tryggja greiðsluafkomu ríkissjóðs.

Erlendar lántökur hækka ekki, enda er það markmið að auka þær ekki, fremur að draga úr erlendri skuldasöfnun. Erlendar lántökur ríkissjóðs nema því eftir sem áður 2550 millj. kr. Lántökur Framkvæmdasjóðs lækka um 600 millj. kr., lántökur Landsvirkjunar um 20 millj., lántökur Byggðastofnunar um 15 millj., lántökur atvinnufyrirtækja lækka um 100 millj. og felld er niður áformuð lántaka Þróunarfélagsins um 100 millj. kr. Alls lækka erlendar lántökur skv. þessu um 835 millj. kr. Að hluta til er hér um að ræða eðlilega niðurfærslu á erlendum lántökum í samræmi við breytta gengisstefnu en sérstaklega er gert ráð fyrir því að taka 500 millj. kr. af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs til þess að auka endurgreiðslur á erlendum lánum og lækka lántökur.

Í lánsfjárlögum eru framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga takmörkuð við 805 millj. og til samræmis við breyttar forsendur er þessi fjárhæð lækkuð í 770 millj. kr. en lækkunin felur ekki í sér neinar efnislegar breytingar.

Frú forseti. Ég hef í aðalatriðum gert hér grein fyrir efnisatriðum þessa frv. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr. og vænti þess að góð samstaða takist um að greiða fyrir framgangi málsins hér á hinu háa Alþingi.