27.02.1986
Efri deild: 52. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2861 í B-deild Alþingistíðinda. (2419)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja mikið þessar umræður sem hér hafa farið fram. Ég geri mér grein fyrir því að þetta frv. kemur seint fram að því leyti til að þm. hafa ekki haft venjulegan tíma til þess að kynna sér efni þess. Það stafar af augljósum ástæðum. Hér er um umfangsmiklar ráðstafanir að ræða. Mín afstaða var sú að nauðsynlegt væri að koma þeim lagabreytingum sem þeim fylgja fram þegar í stað um þessi mánaðamót og hafði því fyrir mitt leyti undirbúið þær breytingar á lögum sem kæmu í kjölfar þess samkomulags sem varð í dag.

Ég þakka þann skilning sem fram hefur komið hjá hv. þm. sem hér hafa talað um að greiða fyrir framgangi þessa frv., þó að svo skammur tími hafi gefist til þess að undirbúa þessar umræður, og vænti þess að frekari skýringar verði þá gefnar á fundum fjh.- og viðskn. og frekari umræður um einstök efnisatriði geti farið fram við 2. umr. málsins. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um ýmis efnisatriði í ræðum einstakra þm. né að stofna til almennra stjórnmálaumræðna í tengslum við þau ummæli þó að ýmis orð hafi hér fallið sem gætu gefið tilefni til frekari athugasemda.

Ljóst er að ytri aðstæður hafa skapað ný skilyrði til þess að ná meiri árangri en gert hafði verið ráð fyrir í þjóðhagsáætlun, sem samþykkt var í lok síðasta árs, og það var ásetningur ríkisstjórnarinnar að hagnýta sér þessar breyttu aðstæður sem fram komu í byrjun þessa árs. Um það hefur tekist gott samkomulag við aðila vinnumarkaðarins. Ég held að ástæðulaust sé að karpa um það í löngum ræðum hverjir hafi átt frumkvæðið í þessu efni. Aðalatriðið er það að samkomulag hefur tekist og niðurstaða af því tagi sem fengin er getur ekki orðið nema samningsaðilar á vinnumarkaðinum sýni hvor öðrum traust og að samstaða náist á milli þeirra annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar. Það er það sem hefur gerst og það er það sem skiptir mestu máli. Þessar aðstæður gera það að verkum að unnt er að viðhalda stöðugu meðalgengi krónunnar. Auðvitað gera allir sér ljósa grein fyrir því að misgengi á milli einstakra erlendra mynta getur haft áhrif á vægi einstakra mynta í gengiskörfunni hér heima, en meðalgengi krónunnar á að geta verið stöðugt við þessar aðstæður ef aðstæður breytast ekki, viðskiptakjör versna ekki og aðrar ytri aðstæður ganga okkur ekki í óhag.

Með þessum ráðstöfunum er með lögum verið að hafa áhrif til lækkunar á verðlag með lækkunum á tollum og sköttum. Teknar hafa verið beinar ákvarðanir um verðlagslækkanir vegna opinberrar þjónustu. Tilmæli hafa verið send til Verðlagsstofnunar um að hafa aukið eftirlit með verðmyndun. Það er ljóst að fyrirtæki hafa við hærra verðbólgustig gert ráð fyrir gengissigi fram í tímann miðað við fyrri aðstæður. Þetta verður að breytast. Samtök vinnuveitenda, sem að þessum samningi hafa staðið, hafa tekið ákvörðun um að beina þeim ákveðnu tilmælum til sinna félagsmanna að standa að verðákvörðunum í samræmi við þessar breyttu efnahagslegu forsendur og breyta þeim verðákvörðunum sem áður höfðu verið teknar miðað við hærra verðbólgustig. Ég trúi því að góð samvinna geti tekist á milli þeirra og verðlagsyfirvalda og mér er kunnugt um að þessi samningur er gerður í því trausti á milli samtaka launþega og atvinnurekenda að þessu verði fylgt eftir.

Ég ætla ekki að svo stöddu að hafa fleiri orð um þetta frv., en þakka góðar undirtektir undir það að greiða fyrir afgreiðslu málsins. Það er mikilvægt að efnisatriði þess nái fram að ganga nú fyrir þessi mánaðamót, bæði með tilliti til hagsmuna þeirra sem njóta eiga þessara ráðstafana og eins vegna þess að hér er verið að gera breytingar t.a.m. á tollalöggjöf og það veldur óeðlilegum háttum í viðskiptum ef það dregst mjög að koma þeim breytingum fram.