30.10.1985
Efri deild: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

75. mál, umferðarlög

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð varðandi þá athugasemd sem hæstv. ráðh. gerði varðandi það sem ég hafði sagt um 47. greinina, sem mér finnst satt að segja alveg einstaklega hjákátleg. Hann tók þannig til orða að því fylgdi ábyrgð að veita eða selja áfengi. Ef þetta er hugsað út frá því þá ætti náttúrlega líka hér í þessari grein að leggja þessa skyldu á herðar forstjóra þeirrar ríkisstofnunar sem selur mönnum áfengi og öllum hennar starfsmönnum. Ef það er röksemdin að baki þessu að það fylgi því skyldur að selja áfengi þá hlýtur það fyrst og fremst að eiga við um þá sem selja bróðurpartinn af því áfengi sem haft er um hönd í landinu.

Ég bara ítreka andstöðu mína við þessa grein eins og hún er orðuð hér og tel alveg tvímælalaust að henni beri að breyta.