27.02.1986
Efri deild: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2867 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Frsm. 3. minni hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 3. minni hl. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar sem fjallað hefur um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, verðlags- og lánsfjármálum 1986. Sá hátturinn var á hafður að fjh.- og viðskn. beggja deilda fjölluðu um þetta mál í sameiningu í morgun og fengu allmarga aðila á sinn fund til skýringa og til svara og hirði ég ekki um að gera frekar grein fyrir því þar sem komið hefur verið inn á það hér í máli þeirra sem á undan hafa talað.

Ég ítreka það af hálfu þingflokks Alþýðuflokksins að við viljum allt til vinna að sá árangur, sem stefnt er að með þessum nýgerðu kjarasamningum, náist í raun og framkvæmd og við erum þeirrar skoðunar að ef vel tekst til um framkvæmdina geti þessir kjarasamningar skipt sköpum um efnahagslega þróun hér á næstu árum, en með þessum samningum er að því stefnt að verðbólga lækki úr 30-40% í 8%, kaupmáttur launa fari vaxandi eftir því sem líður á samningstímabilið og kaupmáttur þeirra sem ekki hafa notið launaskriðs hækki nokkru meira en annarra. Þetta er auðvitað umtalsverður og óvenjulegur árangur kjarasamninga sem eru staðreynd án verkfalla, þ.e. ef þetta stenst í framkvæmdinni.

Ég rakti það hér í gær við 1. umr. málsins og það er enn fremur rakið í þessu nál. að það er auðvitað sá bati sem orðið hefur í ytri skilyrðum þjóðarbúsins vegna mjög lækkandi olíuverðs og hækkandi fiskverðs sem hefur skapað svigrúm til þessara samninga og gert það að verkum að nú er lag. Þessum viðskiptakjarabata er að verulegu leyti varið til þeirrar kaupmáttaraukningar sem ég vék að áðan, en kaupmáttaraukningin er ekki tryggð með háum prósentuhækkunum heldur með fyrirheiti stjórnvalda um breytta stjórnarstefnu sem lýsir sér m.a. í niðurfærslu tekjuskatts og útsvars, áformaðri lækkun nafnvaxta og lækkun á gjaldskrám opinberrar þjónustu, lækkun á bensíni og rafmagni o.s.frv. og að gerðar eru ráðstafanir til þess að hindra hækkun búvöruverðs. Þar að auki koma til sérstakar launabætur sem eiga að skila kaupmáttarauka til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar og enn fremur aðgerðir til að auka ekki aðeins starfsöryggi heldur starfsvirðingu fiskvinnslufólks. Þá er að lokum að geta fyrirheita stjórnvalda um nýtt og stórbætt húsnæðislánakerfi sem getur skipt sköpum, ekki síst fyrir yngri kynslóðina í landinu.

En allt þetta er gert með einu skilyrði og það skilyrði er að ríkisstj. taki upp stefnu í efnahagsmálum sem geti samrýmst svona afgerandi hjöðnun verðbólgunnar. Vonir manna um árangur í þessum efnum eru auðvitað bundnar því skilyrði að hallarekstur ríkissjóðs magni ekki upp verðbólguna að nýju og þessar lántökur, þó innanlands séu, þrýsti ekki upp vaxtastiginu eða færi alla stjórn peningamála úr skorðum.

Frv. felur í sér að rekstrarjöfnuður fjárlaga versnar um 1650 millj. og að mati okkar Alþýðuflokksmanna er þetta ekki viðunandi niðurstaða, ekki síst þegar þess er gætt að það er ekki ólíklegt að ýmsir duldir gallar reynist í frumgerð fjárlaganna, en um þetta þýðir ekki að fást úr þessu. Þegar fjárlög og lánsfjárlög fyrir árið 1986 voru afgreidd flutti Alþfl. samræmdar tillögur um nýja og aðhaldssamari stefnu í ríkisfjármálum. Þær tillögur náðu ekki fram að ganga hér á Alþingi, en ef þær hefðu verið samþykktar værum við kannske að einhverju leyti betur undir það búin að mæta nokkrum útgjaldaauka. Það er auðvitað þeim mun brýnna nú að gætt verði aðhalds í ríkisfjármálum þegar á að gera tilraun til að slá niður verðbólguna eins og nú er verið að gera. Þessu sjónarmiði samsinnir ríkisstj. vissulega í orði, en hins vegar ekki á borði.

Við í þingflokki Alþfl. vörum við því að stjórnarmeirihlutinn tefli árangri kjarasamninga í tvísýnu með of miklum hallarekstri í ríkisfjármálum og of miklum lántökum sem geta haft neikvæð áhrif á vaxtaþróun. Við hefðum kosið að útgjaldaauka ríkissjóðs hefði í auknum mæli verið mætt með nokkurri hækkun tekna ríkisins og lækkun útgjalda. Við minnum á að í bréfi aðila vinnumarkaðarins til ríkisstjórnarinnar, sem er dagsett í fyrradag segir, með leyfi forseta:

„Miklu máli skiptir að þessi kostnaður valdi ekki halla á ríkissjóði og að hann verði fjármagnaður með innlendu fé. Að öðrum kosti væri hætta á aukinni þenslu sem gæti sett verðlagsmarkmið kjarasamninga úr skorðum.“

Með vísan til þessara grundvallarsjónarmiða lýsir þingflokkur Alþfl. sig reiðubúinn til samstarfs við ríkisstj. um tillögugerð er feli í sér að minnka fjárlagahallann og treysta þannig vonir manna um raunhæfan árangur af þessum kjarasamningum. Við værum t.d. reiðubúnir til að fallast á sameiginlegar tillögur aðila vinnumarkaðarins um aukna tekjuöflun, t.d. með sérstökum skatti á banka og fjármálastofnanir og sérstökum eignarskattsauka á félög einkum, lækkun ríkisútgjalda, t.d. vegna vegagerðar, þó mönnum sé það ekki ljúft nema síður sé, og að fallið verði frá því að auka fjárveitingu til niðurgreiðslna á búvörum um 220 millj., en ónýttur afgangur útflutningsbótafjár og framlög til jarðræktarstyrkja verði notuð í þessu skyni í staðinn. Þá erum við og reiðubúnir til samstarfs um að lækka erlendar lántökuheimildir sérstaklega til að hamla gegn þenslu. Það væri áreiðanlega mjög jákvæð ráðstöfun í þessu samhengi að lækka heimildir á lánsfjárlögum til erlendrar lántöku, t.d. til Landsvirkjunar, Framkvæmdasjóðs og Byggðastofnunar, um kannske 500 millj. kr. Með slíku væri reynt að tryggja að það viðnám gegn verðbólgu, sem að er stefnt með þessum kjarasamningi Alþýðusambandsins og vinnuveitenda, verði ekki eyðilagt með ónýtri fjármálastjórn ríkisins. Þar með væri aðhald í ríkisfjármálum og lánsfjármálum hert verulega án þess að það bitnaði á launafólki eða drægi úr sérstökum ráðstöfunum til að hamla gegn verðhækkunum. En auðvitað er kjarni málsins sá að verðbólgan næst ekki niður þótt launafólk sé reiðubúið til að axla ábyrgð ef lausatök eru á fjármálum ríkisins og lánamála.

Þingflokkur Alþfl. vill fyrir sitt leyti veita þessu frv. stuðning og það munum við gera, en við skorum á ríkisstj. og þingmeirihluta að leita víðtækara samkomulags um að styrkja stöðu ríkisfjármálanna og tryggja þar með betur þann árangur sem allir eru sammála um að reyna að ná. Ella hlýtur ríkisstj. ein að bera ábyrgð á því ef ónýt fjármálastjórn - ég segi ef - spillir árangri skynsamlegra kjarasamninga.

Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að lengja þessa umræðu frekar en orðið er. Það hafa allir gert grein fyrir sínum meginsjónarmiðum við 1. umr. og nú hefur verið fjallað um málið í nefnd og þess að vænta að afgreiðslu þess héðan úr hv. Ed. geti lokið á næstu tveimur klukkutímum eða svo. Ég sé ekki að það ætti að vera neitt því til fyrirstöðu að um það gæti verið samkomulag. En ég ítreka að við Alþýðuflokksmenn munum styðja þetta frv. Við munum e.t.v. sitja hjá við atkvæðagreiðslu um eina eða tvær af greinum þess, en ekki flytja neinar brtt., en leggjum áherslu á að nú er það ríkisstjórnarinnar að standa við sitt. Það er auðvitað undir því komið hvernig tekst til um framkvæmdina alla og árangurinn hvort ríkisstj. stendur við það sem að henni snýr og það er auðvitað kjarni málsins nú.