28.02.1986
Neðri deild: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2918 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í umræðum utan dagskrár í gær um kjarasamningana lýsti ég því yfir fyrir hönd okkar jafnaðarmanna að við teldum þau vinnubrögð sem beitt var við þessa samningagerð til bóta. Borið saman við hvað? Ekki borið saman við hið fullkomna þjóðfélag, ekki neina paradísarhugmynd eða hina fullkomnu réttlátu tekjuskiptingu heldur borið saman við reynsluna á liðnum hálfum öðrum áratug, borið saman við vinnubrögð við gerð kjarasamninga áður, borið saman við þann árangur sem fengist hefur af þeim. Við teljum að sú tilraun sem hér hefur verið gerð af hálfu forustumanna verkalýðshreyfingarinnar sé einnar messu virði og til mikilla bóta frá því sem áður var. Af því leiðir að við munum styðja það frv. sem á þessum kjarasamningi byggist. Það gerum við heldur ekki vegna þess að við séum vissir í okkar sök um að þetta frv. tryggi árangurinn. Við höfum þvert á móti mjög alvarlegar efasemdir um það. Við viljum samt gera þetta vegna þess að við viljum að þessi tilraun verði keyrð áfram til enda, við viljum láta á það reyna hvort það tekst. Við höfum í okkar málflutningi bent á að það þurfi eitthvað að gera í meðferð málsins hér á þingi til að tryggja árangurinn betur. Við höfum sagt að við værum sjálfir reiðubúnir til samkomulags við aðra um slíkan tillöguflutning um að styrkja stöðu ríkisfjármála til að tryggja þennan árangur. Við hörmum að í meðferð málsins hingað til hefur ekki verið undir það tekið og við tökum fram að ríkisstj. sjálf, sem þannig hefur haldið á málum, hlýtur að lokum ein að bera ábyrgð á hvort sá árangur, sem við gerum okkur vonir um, næst eða ekki.

Þetta þykir sumum áreiðanlega ekki nægilega glæsileg afstaða miðað við samanburð við hið fullkomna þjóðfélag eða hina réttlátu tekjuskiptingu, en öll ræða hv. seinasta ræðumanns byggðist á einhverri slíkri viðmiðun. Hver mundi mæla því mót að það væri æskilegt í einu stökki að tvöfalda dagvinnutekjur Íslendinga, að færa þær úr 17 000 kr. upp í 34 000? Ekki nokkur einasti maður. Jafnvel ekki þeir uppi í Garðastræti. Ekki heldur þeir uppi í stjórnarráði. Síst af öllu hæstv. forsrh., sá velviljaði maður. Enginn. Og hvað værum við að gera með því? Við værum að hækka dagvinnulaun á Íslandi til samræmis við það sem tíðkast í nágrannalöndum, jafnvel löndum þar sem þjóðartekjur á mann eru mun lægri en á Íslandi. Enginn mundi bera á móti nauðsyn þess arna. Allir mundu telja þetta eðlilegt. Spurningin er þá: Hvers vegna er þetta ekki gert? Hvernig stendur á því að verkalýðshreyfingin beitir ekki afli samtaka sinna til að knýja þetta fram þrátt fyrir allt? Ja, hvert er svarið við því? Svarið við því er að verkalýðshreyfingin er margbúin að reyna þetta. Hún er margbúin að reyna að hækka krónutölu kaups að nafninu til jafnsnögglega og í jafnstórar stærðir og ég var að nefna. Við höfum hækkað kaup í krónutölu um þúsundir prósenta á undanförnum árum. Fræg var sú tilvitnun að á síðastliðnum áratug hefði það hækkað um 3000 og eitthvað prósent, eftir hefði staðið eftir áratuginn innan við 7% kaupmáttaraukning í reynd. Allt hitt var í svikinni mynt. Allt hitt hvarf. Hvað þýðir þetta? Það þýðir að í þjóðfélagi af þessari gerð er það ekki á valdi verkalýðshreyfingarinnar við samningaborðið að leysa tekjuskiptingarvandann, að koma á tekjuskiptingu, að tvöfalda í reynd dagvinnutekjur fólks. Meira að segja væri það ekki gerlegt þó að það væru vinnustaðasamningar, meira að segja þótt breytt væri hinu úrelta skipulagi verkalýðshreyfingarinnar sem við hv. síðasti ræðumaður værum sennilega sammála um að þyrfti að gerbreyta. Jafnvel þótt við hefðum getað stokkað það skipulag upp, jafnvel þótt við hefðum getað fært valdið ofan af Grensásvegi og niður á vinnustaðina hefði það eitt sér ekki dugað til þess.

Það er m.a. með hliðsjón af þessari reynslu að við gerum okkur grein fyrir því að það er svo takmarkað sem verkalýðshreyfingin getur unnið við samningaborðið, það er svo litlu sem hún getur orðið breytt vegna þess að lífskjör venjulegrar fjölskyldu ráðast af svo mörgum þáttum sem ekkert er um fjallað við samningaborðið, sem verður ekkert um fjallað og ekkert við ráðið nema í gegnum pólitískar ákvarðanir sem þrátt fyrir allt eru teknar hér. Ekki á einhverjum stað sem heitir Alþingi heldur í hliðarherbergjum þess fyrir byrgðum dyrum í þingflokkum, innan þess hóps sem hefur meiri hluta á Alþingi hverju sinni.

Hvað er það sem ræður afkomu fjölskyldunnar? Taxtakaupið sem samið er um við samningaborðið? Hver mundi ekki geta fallist á að það væru rétt rök að hófleg kauphækkun í krónutölu, 13,6% sem færir lágmarkslaunin úr 17 000 kr. í rúm 19 000 kr., skipti engum sköpum, þetta sé allt of lítið? Hvað þýðir þetta þá? Það þýðir að þær fjölskyldur í landinu sem eiga að framfleyta sér og sínum af þessum lágmarkstekjum einnar fyrirvinnu búa undir hungurmörkum. Þetta eiga allir að vita og vita allir og enginn getur mótmælt því. Hvað eru þær margar? Hvað eru þeir margir, hvað eru þeir fjölmennir hóparnir sem lifa við þessi kjör? Hvað eru þær margar fjölskyldurnar í landinu sem lifa á þessum kjörum? Ég hef ekki þau svör í kollinum, en ég veit samt sem áður að það er mikill minni hluti Íslendinga þrátt fyrir allt.

Það skiptir sköpum fyrir fjölskylduna hvort fyrirvinnurnar eru ein eða tvær. Það skiptir líka sköpum að vinnan sé ekki unnin á lágmarkstöxtum verkalýðsfélaga, að til komi einhvers konar kaupaukar, einhvers konar bónus, einhvers konar ákvæðisvinna, að vinnutíminn sé ekki átta tímar, að fyrirvinna fjölskyldunnar eigi kost á aukavinnu, helgarvinnu, næturvinnu, öðrum störfum, aukastörfum. En þetta er þó ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er hverju þessi fjölskylda heldur eftir af brúttóaflafé sínu, atvinnutekjunum. Hverjar eru ráðstöfunartekjurnar eftir skatt? Það skiptir sköpum. Við erum ekkert ósammála, hv. síðasti ræðumaður og ég, þeirri lýsingu, þeirri mynd sem hann dró upp í þeim efnum. Við erum áreiðanlega mjög svo svipaðrar skoðunar á því. Við tölum um illa rekin fyrirtæki, um spillinguna sem gegnsýrir þetta þjóðfélag eftir 15 ára botnlausa verðbólguþróun, um lélega stjórnun í fyrirtækjum, um þá staðreynd að skattakerfið verkar sem hvati á linnulausa eftirspurn eftir lánsfé, gífurlega sólund á peningum, að fyrirtæki eru rekin út frá úreltum ákvæðum skattalaga til að sýna tilbúna afkomu, að laun fyrir vinnu sem ekki er unnin eru færð á reikning fyrirtækis, að risna manna og kostnaður eru færð á fyrirtækin. Allt eru þetta staðreyndir meira og minna gegnumgangandi út um allt kerfið. Og auðvitað skiptir það sköpum um afkomu manna. Það eru ekki bara laun uppgefin á blaði. Það er það hvað menn þurfa að leggja af þessum launum til skatts, hver er aðstaðan til skattundandráttar, löglegs eða ólöglegs. Verkalýðshreyfingin sem slík, umboðsmenn launþega við samningaborð, fá ekkert við þetta ráðið. Ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er ekki verið að semja um annað við samningaborðið en brot, kannske brotabrot af raunverulegum lífskjörum, taxta, launabil, launastiga en ekki raunveruleg lífskjör, ekki raunverulegar atvinnutekjur, ekkert um aðstöðu manna til skattundandráttar.

Hvað á þá verkalýðshreyfingin að gera? Má ég rifja upp reynsluna af verkfalli opinberra starfsmanna haustið 1984? Mánaðar verkfall. Hver varð niðurstaðan? Niðurstaðan var nákvæmlega sú að svokallaður ávinningur í einhverjum prósentutölum kauphækkunar hvarf á örfáum vikum. Og verra en það: Hann varð að engu, varð verri. (GHelg: Hann var látinn hverfa.) Já, hvers vegna hvarf hann? (GHelg: Af því að hann var látinn hverfa.) Vegna þess að með pólitískum ákvörðunum er ýmist hægt að láta hann hverfa eða halda einhverju eftir af honum. Það er rétt. Að vísu eru takmörk fyrir því hvaða hald er í pólitískum ákvörðunum sem teknar eru hér á Alþingi vegna þess að það eru jafnvel enn þá veigameiri þættir sem skipta sköpum. Hver er aflinn? Hvað veiðist mikið af þorski? Hver eru viðskiptakjörin? Hver er þróun gengis? Þessu ráðum við út af fyrir sig ekki og skiptir það þó sköpum. En ef við erum að spyrja einhverra grundvallarspurninga um hvað það er sem ræður tekjuskiptingunni á Íslandi, þá verður henni ekki breytt hvaða hugmyndir sem við höfum um hvernig hún ætti að vera. Henni verður ekki breytt við samningaborðið. Ef menn vilja breyta henni er eina leiðin til þess að gera það að gera það í valdi pólitískra ákvarðana sem meiri hluti á Alþingi Íslendinga tekur, kallast ríkisstjórn öðru nafni.

Ef hér væri við lýði ríkisstjórn sem viðurkenndi staðreyndir um hvernig komið er skattakerfinu, væri reiðubúin að fleygja því eins og ónýtu fati, sem væri reiðubúin að leggja fyrir Alþingi og fá þar samþykkta nýja skattalöggjöf sem beinlínis miðaði að því að uppræta skattundandrátt og spillingu, að gerbreyta leikreglum í atvinnurekstri og fyrirtækjarekstri, að stuðla að raunverulegri tekjujöfnun í gegnum skattakerfi. Það eru þau verkfæri sem hægt væri að nota. Með slík verkfæri í höndunum gætum við tekið upp t.d. stefnu í líkingu við þá sem hv. síðasti ræðumaður var að vitna í í Morgunblaðsgrein, grein Stefáns Ólafssonar um launamál á Íslandi, um afnám þessarar svokölluðu láglaunastefnu, um raunveruleg áhrif á tekjuskiptinguna í jafnaðarátt. Um þetta hygg ég að sé ekki mikill ágreiningur á milli okkar.

Spurningin er núna: Við erum að reyna að meta þennan kjarasamning og það sem verkalýðshreyfingin hefur gert. Ég segi: Það sem verkalýðshreyfingin er að reyna að gera við þær aðstæður sem nú eru ríkjandi er að meta reynslu sína og draga þannig rökréttar niðurstöður. Og rökréttar niðurstöður eru þessar: Það hefði ekkert stoðað og engu breytt fyrir verkalýðshreyfinguna jafnvel þótt hún hefði getað hvatt liðsmenn sína út á göturnar eða til að beita verkfallsvopni sem enginn hafði efni á og allir vissu. Það hefði engu breytt þótt hún hefði getað knúið fram að daglaun skyldu í krónutölu hækka upp í 34 000, tvöfaldast, vegna þess að um leið og búið var að hækka kaup fiskverkunarkonunnar úr 17 000 kr. upp í 34 000 kr. hefði verið búið að hækka kaup flugstjórans upp í 300 000 kr., endurskoðandans, tannlæknisins, læknisins og þeirra allra saman margfaldlega og eftir hefði staðið svikin mynt, 0,0. Að vísu væri efnahagslíf enn þá spilltara, enn þá ónothæfara af slíku verðbólguferli sem þetta hefði hleypt af stað, en við hefðum setið nákvæmlega í sömu sporum.

Þetta er sú reynsla sem verkalýðshreyfingin þrátt fyrir allt er búin að gera sér grein fyrir og það er þakkar vert. Það er þakkarvert að þeir skuli a.m.k. hafa látið sér lærast þessa lexíu eftir 15 ár. Það er vissulega ástæða til fyrir menn sem hafa gagnrýnt þessi vinnubrögð lengi að láta ekki undir höfuð leggjast að hæla mönnunum þegar þeir hafa þó lært þessa lexíu á 15 árum. Gamla aðferðin var þýðingarlaus, vonlaus. Sjónhverfing, blekking, steinar fyrir brauð. Þess vegna styðst þessi tilraun, sem nú er verið að gera, við rök. Hún er í þessu fólgin: Við ætlum ekki að ljúga því að fólki eða blekkja fólk áfram með því að við getum við samningaborðið með tvöföldun á kauptöxtum bætt kjörin ykkar. Við ætlum að fara aðra leið. Við ætlum að taka á okkur þann sjálfsaga að hafa launahækkanirnar í prósentum talið eða krónum talið tilölulega litlar. Við ætlum að reyna með sérstökum aðgerðum að fá kauphækkun fyrir þá sem búa á hungurtöxtunum heldur meiri. Við ætlum hins vegar að reyna að tryggja að þessar launahækkanir haldi sér. Og við ætlum að reyna að fá ríkisvaldið til að breyta stefnu sinni frá því sem hún var ákveðin í fjárlögum og lánsfjárlögum fyrst og fremst til þess að koma til móts við okkur. Hvernig? Jú, í fyrsta lagi með því að tryggja að þær ákvarðanir sem teknar voru fyrir jól í fjárlögum og lánsfjárlögum um skatta verði a.m.k. færðar niður til jafns við verðlag. Það er hárrétt, sem hv. þm. Guðmundur Einarsson sagði, að ríkisstj. er ekki að gefa neitt í sköttum. Hún er ekki að lækka skatta að raungildi. Það er hárrétt. Tekjuskattur er ekki lækkaður. Það er verið að reyna að láta hann halda sér hlutfallslega sem sama hlutfall af tekjum greiðsluárs. Það er reynt að ná samningum um að lækka útsvar. Ég þori ekki að fullyrða hvort það er umfram aðlögun að verðlagsforsendum eingöngu eða ögn betur. Það er á valdi sveitarstjórnarmanna hvort eð er. Það er reynt að fylgja þessu eftir með lækkun vaxta og það er vitað að fyrst í stað verður þar ekki um að ræða lækkun raunvaxta. Það er reynt að fylgja þessu eftir með lækkun á gjaldskrám opinberrar þjónustu, fylgja því eftir með lækkun á tollum, fylgja því eftir með aðgerðum sem eiga að geta stuðlað að lækkun á vöruverði. Það eru felldir niður launaskattar hjá þeim greinum þar sem láglaunafólkið er fjölmennast, fiskiðnaðinum og samkeppnisiðnaðinum, til þess reyndar líka að reyna að renna stoðum undir að gengisforsendurnar haldi. Það er reynt að koma í veg fyrir nýja verðbólguholskeflu með því að koma í veg fyrir hækkun á búvöruverði og það er reynt að leita samkomulags um að endurreisa það húsnæðislánakerfi sem er hrunið.

Hv. síðasti ræðumaður sagði: Allt er þetta sjónhverfing og blekking og þetta er einskis virði. Mér þykir leiðinlegt að hann skuli segja það. Mér þykir það mjög miður vegna þess að það eru ýkjur. Þetta er nákvæmlega það eina sem hægt er að gera, eina leiðin sem fær er til að feta sig út úr svikamyllu verðbólguholskeflunnar, taka fyrstu skrefin í átt að sameiningu íslensks efnahagslífs sem ég hélt að hv. þm. væri einna helst talsmaður fyrir að ætti gera. Það gerist ekki með neinu heljarstökki. Það gerist ekki með neinni hókus pókus patentlausn. Þegar verið er að reyna að breyta vinnubrögðunum í rétta átt eins og hér er verið að reyna að gera er það vissulega mjög miður að boðberar nýrra hugmynda, boðberar nýrra vinnubragða skuli foragta þetta, einskinsmeta þetta og svara hins vegar engu um það hvernig þeir vilji að mál verði leyst í staðinn nema með patentlausnum, kjósa forsætisráðherra beint og svo mun allt annað hlotnast yður að auki, sem við erum búin að heyra hundrað sinnum og stenst ekki.

Þessi samningur leiðir ekki til réttlátrar tekjuskiptingar. Þessi samningur er ekkert nema fyrsta skrefið. En framhaldið á honum er algjörlega komið undir því hvaða pólitískar ákvarðanir eru teknar hér. Nú liggur það fyrir hvaða ákvarðanir hæstv. ríkisstj. og stjórnarmeirihluti hefur tekið. Það er það sem við gagnrýnum. Í umræðum um málið í fjh.- og viðskn. á sameiginlegum fundum beggja deilda lýstum við mjög skilmerkilega okkar skoðunum í því. Við segjum: Það er stórháskalegt að hæstv. ríkisstj. skuli ætla sér að fara þá leið að mæta þeim útgjaldaauka sem af kjarasamningunum hlýst eingöngu með stóraukinni lántöku upp á hálfan annan milljarð og með því að auka hallarekstur ríkissjóðs með þeim hætti. Það er stórkostlega varasamt. Með því er ríkisstj. að taka á sig ábyrgð af því að hún með hallarekstri og ónýtri fjármálastjórn spilli að lokum þeim árangri sem menn geta gert sér raunhæfar vonir um að geti tekist ella. Það er það sem er hættulegast við þetta.

Í umræðum um þetta mál í nefndinni og eins í nál. Eiðs Guðnasonar hv. þm. í Ed. segjum við að við séum reiðubúnir til samstarfs við ríkisstj. um tillögugerð sem feli í sér að minnka fjárlagahallann og treysta þannig vonir manna um raunhæfan árangur kjarasamninganna. Þar segir á þá leið að við séum reiðubúnir til þess að fallast á sameiginlegar tillögur aðila vinnumarkaðarins um aukna tekjuöflun ríkissjóðs, um aukna tekjuöflun ríkissjóðs til þess að þessu verði ekki öllu saman mætt með lánum og fjárlagahallinn þar af leiðandi aukinn, ofan á það sem vitað er, að í raun og veru er verulegur innbyggður dulinn fjármálahalli eftir fjárlagaafgreiðsluna fyrir jól.

Hvernig er unnt að mæta þessum kostnaðarauka með aukinni tekjuöflun? Við rifjum upp að aðilar vinnumarkaðarins höfðu komið sér saman um nýja tekjuöflun a.m.k. að upphæð 625 millj. kr., t.d. með því að leggja sérstakan skatt á banka og fjármálastofnanir, t.d. með því að leggja á sérstakan eignarskattsauka, sem mætti hafa þannig að leggja eingöngu á félög með umtalsverðar skuldlausar eignir, og í þriðja lagi með lækkun ríkisútgjalda, t.d. með því að draga að nokkru leyti úr framlögum til vegaframkvæmda með hliðsjón af fyrirsjáanlegum sparnaði í þeirri fjárfestingu í kjölfar lækkandi olíuverðs. Aðilar vinnumarkaðarins höfðu komið sér saman um að leggja fram slíkar tillögur, um að ríkissjóður mætti þessum útgjaldaauka að hluta til, 625 millj., með þessum hætti. Við lýstum því yfir í nefndinni og við lýsum því yfir hér að við erum reiðubúnir til að styðja slíkar tillögur og jafnvel ganga ögn lengra. Við erum því t.d. mjög mótfallnir að aflað verði sérstakra lána, 220 millj., til að greiða niður hækkun búvöruverðs. Við teljum að þetta eigi að leysa innan fjárlaga, t.d. með því að verja verulegum hluta af útflutningsbótafé, sem á fjárlögum er 740 millj. ef ég man rétt, til þess að mæta þessum útgjöldum en ekki að láta launþega og neytendur greiða þetta í formi hærri skatta seinna sem gert verður ef þetta er gert með lánum. Við viljum nefna enn eitt dæmið um þetta. Við teljum að hér væri mjög æskilegt, til þess nú að undirstrika raunverulegan vilja ríkisstj. til að ná árangri, að hún innsiglaði þann vilja sinn með tillögum um að draga enn verulega úr þeim stórauknu erlendu lántökum sem ákveðnar voru með lánsfjárlögum núna fyrir jólin. Við mundum mæla með því að erlendar lántökur væru lækkaður um 500 millj. kr., ekki minna, og þar með skertar heimildir til erlendrar lántöku hjá stofnunum eins og Framkvæmdasjóði og Byggingarsjóði ríkisins og Landsvirkjun.

Með tillögum af þessu tagi, sem væru allt í senn um aukna tekjuöflun ríkissjóðs, um lækkun útgjalda og um minnkun erlendra lána, væri ríkisstjórnin að undirstrika vilja sinn í alvöru til þess að sá árangur, sem þessir skynsamlegu kjarasamningar gefa okkur vonir og fyrirheit um, fái staðist. Það veldur mér miklum vonbrigðum að stjórnarmeirihlutinn skuli ekki í verki sýna neinn lit á því að taka undir þessar skoðanir. Þetta eru ekki bara mínar skoðanir, þetta eru ekki bara skoðanir sem hafa komið fram frá aðilum vinnumarkaðarins sjálfum. Þetta eru skoðanir sem því sem næst hver einasti hagfræðingur þjóðarinnar, sem eitthvað hefur látið til sín heyra, hefur sett fram í ræðu og riti í þjóðfélagsumræðunni að undanförnu og nota bene - og það þykir mér vænt um - þetta eru sjónarmið sem hæstv. forsrh. tók undir fyrir sitt leyti í umræðunum utan dagskrár í gær, en hefur gremjulega orðið að láta í minni pokann innan ríkisstj. fyrir þeim sjálfstæðismönnum. Það tel ég mjög miður. Með því að samþykkja tillögur af þessu tagi væri Alþingi að sýna að það er ekki bara stimpilpúði. Með því að samþykkja slíkar aðgerðir væri Alþingi einfaldlega að segja: Sá hluti sem kemur til kasta Alþingis í þessari tilraun til að koma á lífskjarasáttmála er ekki nóg. Við viljum ganga lengra til þess að tryggja almenningi að hann verði ekki fyrir vonbrigðum í þetta skiptið með því að gera það alveg öruggt að ónýt fjármálastjórn í ríkisfjármálum, vaxandi halli í ríkisfjármálum, verði ekki a.m.k. til að ónýta þennan árangur.

Það geta komið fyrir óvæntir utanaðkomandi atburðir á sviði gengismála sem við fáum ekki ráðið við og við getum orðið aftur fyrir áföllum á erlendum mörkuðum að því er varðar fiskverð. En hér erum við að tala um hluti sem eru á valdi ríkisstj. og þingmeirihlutans sjálfs og það væri aldeilis hörmulegt ef þessi þýðingarmikla tilraun til að fitja upp á nýjum vinnubrögðum í íslenskri pólitík og íslenskum kjaramálum rynni út í sandinn vegna þess að ríkisstj. vildi, eins og hún orðaði það, „taka áhættu“, taka þá áhættu að sópa þessu öllu undir teppið með nýjum erlendum lánum, vitandi vits um að innbyggður fjárlagahalli í ríkisbúskapnum er gífurlegur fyrir, og þegar kæmi fram á haustið kæmi á daginn að við sætum uppi með það að þurfa að spretta þessu öllu saman upp, stæðum þá kannske frammi fyrir þeirri staðreynd, eins og gerðist á s.l. hausti, að hallarekstur hins opinbera geira væri kannske kominn vel yfir 3000 millj. kr. sem er mjög raunsætt mat og í lægri kantinum.

Með því að skora á stjórnarliða að hlusta á þessar tillögur og taka undir þær værum við að reyna að tryggja að þetta viðnám gegn verðbólgu, sem að er stefnt með samningum atvinnurekenda og launþegasamtakanna, verði ekki eyðilagt með ónýtri fjármálastjórn. Kjarni málsins er sá að okkar mati að verðbólga næst ekki niður þótt launafólk sé reiðubúið að axla ábyrgð, sem það er búið að sýna, ef lausatök eru á fjármálum og lánamálum.