28.02.1986
Neðri deild: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2928 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu siglir nú með ógnarhraða gegnum þingið. Það var til umræðu í Ed. í gærkveldi og var tekið til umfjöllunar á sameiginlegum fundi fjh.- og viðskn. beggja deilda í morgun þar sem dengt var inn til fundarmanna ýmsum tölum og upplýsingum. Það er ljóst að með þessum hraða geta þm. illa tileinkað sér og unnið úr ýmsum flóknum atriðum sem nauðsyn er að fá á hreint áður en afstaða er tekin til málsins. Það er jafnframt líka ljóst að hinir ýmsu efnahagssérfræðingar ríkisstj. hafa enn ekki nærri reiknað það dæmi til fullnustu á hvern hátt skuli standa að fjármögnun þeirra ráðstafana sem ríkisstj. hefur þegar samþykkt að hún muni standa að. Þar eru enn margir lausir endar. T.d. eru þær aðgerðir í húsnæðismálum sem boðið er upp á langt frá því að vera fullmótaðar og í reynd ætti ekki að þurfa að fjalla um slík sjálfsögð mannréttindi, sem öruggt húsnæði er, í kjarasamningum, ekki frekar en veikindafrí vegna barna eða þá heldur bensín, eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir minntist á.

Ég mun ekki fara út í langa efnislega umræðu um þá kjarasamninga sem tengjast því frv. sem hér er til umræðu. Þar örlar að vísu á nokkrum atriðum til bóta, eins og t.d. því veikindafríi sem ég minntist á fyrir foreldra vegna veikinda barna þeirra og eins t.d. lengdum uppsagnarfresti fyrir fiskvinnslufólk sem hefði auðvitað fyrir löngu átt að vera kominn. Þó verð ég að geta þess hve mikil vonbrigði það eru að engin tilraun virðist hafa verið gerð til að snerta á því óréttlæti sem hér ríkir í tekjuskiptingu. Mér er í raun óskiljanlegt þetta viljaleysi samningsaðila, þetta algera viljaleysi stjórnvalda og þetta viljaleysi stéttarfélaga til að gera tilraun til að hreyfa við þessari óréttlátu tekjuskiptingu. Mér er það óskiljanlegt. Sú láglaunastefna sem hér hefur ríkt á nú að lögfestast. Nú á að lögfesta það að manneskja sem hefur 17 060 kr. skv. lægsta taxta nái ekki meiru en 19 272 kr. í árslok. Hver verður endir á hennar basli? Og gleymið því ekki, hv. þm. og þeir ráðherrar sem eru hér, að langflestir, meiri hluti þeirra sem hafa þessi lágu laun, eru konur.

Ég gerði hér s.l. þriðjudag fyrirspurn til hæstv. heilbrmrh. um kostnað kvenna vegna leghálskrabbameinsleitar hjá leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Hann er nú 750 kr., það er það sem konan þarf að greiða til þess að koma til leitarstöðvarinnar. Það er augljóst mál að manneskja með 17 000 kr. og jafnvel þó hækkað sé í 19 272 kr. hefur ekki efni á að fara í svona skoðun. Það er ekki furða að konur séu hættar að mæta og fyrirbyggjandi heilsugæsla fari fyrir róða þegar svo er komið launum fullvinnandi fólks í þessu þjóðfélagi.

Í morgun, á þessum sameiginlega fundi fjh.- og viðskn. beggja deilda, sagðist hagfræðingur ASÍ þekkja dæmi þess að konur lifðu í raun og veru á u.þ.b. 20 000 kr. á mánuði. Þetta finnst mér óskiljanlegt. Ég kaupi sjálf þann mat sem mitt heimili þarf á að halda og mér er óskiljanlegt hvernig manneskja lifir á þessum launum á mánuði. Í raun er það rannsóknarefni fyrir hv. Alþingi hvernig nokkurri manneskju tekst að lifa af þessari launalús. Það væri ráð að reyna að fjármagna slíka rannsókn því að viðfangsefni hennar nálgast kraftaverk.

Það er smánarlegt að metnaður samningsaðila skuli ekki hafa verið meiri eða þá stjórnvalda til að breyta svo augljósu óréttlæti og ég verð að taka undir með hv. þm. Guðmundi Einarssyni að það er undarleg jafnaðarmennska sem telur slíkt viðunandi og vitna þar í orð formanns Alþfl. í gær.

Það er athyglisvert að þær tollalækkanir sem notaðar eru til að hafa áhrif til stýringar á framfærsluvísitöluna eru þess eðlis að þær nýtast engan veginn þeim sem lægstu launin hafa. Láglaunakonur eru í því að skrimta. Þær keyra tæpast bíl né kaupa heimilistæki til að geta mætt morgundeginum. Lækkun á búvöruverði kæmi þeim aftur á móti miklu betur. Og þetta bið ég menn að athuga því að ekki tyggja láglaunakonur hjólbarða þegar fokið er í öll skjól.

Nei, þessir samningar hafa ekki tekið tillit til þeirra sem við Kvennalistakonur erum fulltrúar fyrir hér á Alþingi og það vantar í þessa samninga skynjun á því hvernig kjör annarra eru í raun og veru í þessu þjóðfélagi. Menn lifa í fílabeinsturnum og þá vantar hæfileika, kannske mikilvægasta hæfileikann bæði fyrir samningsaðila og ekki síður fyrir alþm., til að geta sett sig í spor annarra.

Hvernig stendur svo á því að það góðæri sem við búum við nú og þær batnandi ytri aðstæður sem nú ríkja duga ekki betur til að jafna þessi kjör okkar? Nú stöndum við, sumir fulltrúar þingræðisins, og ertum ríkisstj. eða reynum það með hinu litla þorni þingræðisins, því að þingræði okkar er með litlu þorni, ríkisstj. sem hefur verið á hlaupum upp í Garðastræti, upp í hið raunverulega ráðhús þjóðarinnar. Hér sitjum við á Alþingi og leggjum oft nótt við dag til að koma málum í gegnum hinn hefðbundna afgreiðsluferil þingsins. Fjárlög voru lögð fram og tekin upp eftir að hafa verið skoðuð og endurskoðuð, yfir þeim vakað og um þau rætt og rifist þar til þau voru endanlega samþykkt af stjórnarþingmönnum fyrir jól. Þegar á bjartan febrúardaginn kemur er öll þessi vinna allsendis út í hött. Henni er í raun kollvarpað með ákvörðunum allt annarra aðila úti í bæ og þriðju fjárlög þessa þingárs verða til og eru samþykkt af ríkisstj. án vitundar eða afskipta alþm.

Lyngið á Lögbergi helga blánar af berjum hvert ár, en við Austurvöll situr Alþingi enn, rúið myndugleika og virðingu margumtalaðri, og hlutskipti þess er m.a. að vera stimpilstofnun sem býr við þingræði með litlu þorni, kannske svefnþorni.

Þetta frv. hefur þegar verið afgreitt frá Ed., en þar á Kvennalistinn fullgildan aðila í fjh.- og viðskn. Sjálf hef ég áheyrnaraðild að fjh.- og viðskn. Nd. og sat því sameiginlega fundi nefndanna í morgun þar sem þetta afdrifaríka og um margt flókna og óútkljáða mál fékk hraða og yfirborðslega umfjöllun. Ég get því ekki staðið að sérstöku nál. í þeirri nefnd og vil því, með leyfi forseta, lesa það nál. sem hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir flutti í Ed. sem er 4. minnihlutaálit fjh.- og viðskn. Það er efnislega afstaða okkar Kvennalistaþingkvenna til þessa frv.:

„Aðilar vinnumarkaðarins hafa nú gert með sér nýjan kjarasamning sem er byggður á margvíslegum aðgerðum í stjórn efnahagsmála.

Ríkisstj. hefur fyrir sitt leyti samþykkt þessar efnahagsaðgerðir og er þær m.a. að finna í þessu frv.

Álit 4. minni hl. á þessum aðgerðum er:

1. Ljóst er að frumkvæðið í stjórn efnahagsmála er ekki lengur í höndum Alþingis og ríkisstjórnar. Í stað þess að leggja sjálf þann efnahagsgrunn sem frjálsir kjarasamningar geta byggst á lætur ríkisstj. aðila vinnumarkaðarins leggja þennan grunn fyrir sig og gerir þeirra tillögur að sínum“. Ef það er svona einfalt að ná tökum á verðbólgunni með þessum aðferðum hvers vegna hafði ekki ríkisstj. hugsað þetta upp sjálf fyrir löngu?

„Verkefni Alþingis er samkvæmt þessu að stimpla þessar tillögur og gera að lögum og breyta með því þeim lögum um skipan ríkisfjármála sem það er sjálft nýbúið að samþykkja.

2. Ráðrúm Alþingis til að skoða gaumgæfilega þessar aðgerðir áður en þær eru lögfestar er nánast ekkert og hljóta það að teljast forkastanleg vinnubrögð.“ - Og ég minni á orð hv. 5. landsk. þm. áðan.

„3. Jafnframt er ekki gefið ráðrúm til að kynna kjarasamningana og meðfylgjandi efnahagsaðgerðir þeim sem málið er skyldast, þ.e. launafólki í landinu. Undarlegt má telja að grundvöllur samninganna sé lögfestur með þeim hætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir áður en félagsmenn verkalýðsfélaganna hafa haft færi á að kynna sér hann.

4. Samningarnir, sem þetta frv. er hluti af, sækja kjarabæturnar að stórum hluta í ríkissjóð, í vasa launþega sjálfra. Eðlilegra er vitaskuld að þeir sem vinnu launþega njóta, þ.e. atvinnurekendur, greiði sjálfir þessar kjarabætur en ekki ríkið. Smánarlegast er þó hve lítil kjarabót kemur í hlut þeirra sem lægst launin hafa," en í þeim hópi eru konur fjölmennastar eins og ég gat um áðan. „Lægstu laun hækka sem sé úr 17 060 kr. á mánuði í 19 272 á samningstímanum og má ljóst vera að af þeim launum er ekki hægt að lifa. „Sárabæturnar“, sem áformað er að greiða út tvisvar á árinu til þeirra sem við þessi kjör búa, munu litlu þar um breyta.“ Og ég vil geta þess að þegar margar konur sáu þessar „sárabætur“, 3000 kr. á mánuði ofan á launin, voru ekki ófáar sem misskildu samningana. Það hvarflaði ekki að þeim að það ætti að sletta þessu í þær tvisvar. Þær héldu að þetta væri auðvitað mánaðarleg uppbót. Þeim datt ekkert annað í hug.

„Það er því ljóst að þessar efnahagsaðgerðir staðfesta einungis þá láglaunastefnu sem þessi ríkisstj. hefur rekið.

5. Þær ráðstafanir sem gerðar eru til að lækka tolla eru ekki til þess fallnar að bæta kjör almenns launafólks heldur eru þær fyrst og fremst leikur með framfærsluvísitöluna. Þær kunna þó að leiða til einhverra kjarabóta ef þar með tekst að ná niður lánskjaravísitölunni. Hins vegar munu þessar ráðstafanir að öllum líkindum leiða til aukins innflutnings og aukins viðskiptahalla sem ekki er á bætandi.

6. Í þessu frv. eru engar tillögur um tekjuöflun.“ A.m.k. hef ég engar tillögur séð eða heyrt um raunverulega tekjuöflun. „Þar er fyrst og fremst gert ráð fyrir tilflutningi fjármuna innan kerfisins. Sömuleiðis eru mjög óljósar hugmyndir um það hvernig fjármagna á stóran hluta þess kostnaðar sem þessar ráðstafanir hafa í för með sér. Í 1. gr. frv. er talað um að lækka ríkisútgjöld um 860 millj. kr.“ Engar frekari útskýringar sem ég hef heyrt eða séð liggja fyrir um það hvernig þetta verður gert. „Það er hætt við því að aukinn niðurskurður á ríkisútgjöldum ásamt lækkun á tekjuskatti og útsvari leiði til þess að dregið verði úr félagslegri þjónustu. Slíkur samdráttur getur einnig haft í för með sér atvinnuleysi“ - og ég bið menn að athuga það. „Hvort tveggja mun enn fremur bitna fyrst og fremst á þeim sem lægstar tekjur hafa.

7. Styrkur þessara kjarasamninga hvílir fyrst og fremst á forsendum sem margar eru mjög óvissar. Þau fjögur meginatriði sem ekki mega bresta eru í fyrsta lagi trú fólksins á að þessi leið sé fær, í öðru lagi stöðugleiki gengisskráningar, í þriðja lagi að ríkisstj. standi við þau framlög sem hún hefur samþykkt og í fjórða lagi að verðlag haldist í skefjum.

Sú reynsla sem fólk hefur haft af þessari ríkisstj. hefur ekki gefið tilefni til þess að henni sé sýnt óskorað traust nú. Áætlaðar breytingar á raungengi, sem reiknað var með á sameiginlegum fundi í morgun, voru um 2-3% á árinu og þær eru háðar mörgum breytum sem stjórnvöld ráða ekki yfir. Ekki verður enn séð hvernig ríkisstj. ætlar að afla fjár til þeirra framlaga sem hún hefur skuldbundið sig til og samþykkt. Engin trygging er fyrir því að verðlag haldist í skefjum þrátt fyrir lækkanir á tollum - og fyrirætlanir um verðlagseftirlit eru óljóst orðaðar.“ Hver á að sinna því og hver tryggir að kaupsýslumenn hækki ekki vörur sínar jafnvel þó innflutningstollar lækki? Það er engin trygging fyrir því.

„Forsendur þessara samninga eru því ekki einungis viðkvæmar, þær eru mjög ótraustar.

Þessir samningar og meðfylgjandi efnahagsaðgerðir eru tilraun til að taka á þessum málum á nýjan hátt. Það er reyndar löngu tímabært.“ Og það er jákvætt við þessa samninga. Það ber að geta þess sem er jákvætt. „Hins vegar breyta þeir ekki þeirri óréttlátu tekjuskiptingu sem nú viðgengst í íslensku þjóðfélagi. Þess vegna og þar sem ríkisfjármálunum er þar að auki stefnt í mikla óvissu með þessu frv. getur 4. minni hl. nefndarinnar ekki staðið að samþykkt þess. 4. minni hl. mun því sitja hjá við afgreiðslu þessa frv.“

Að auki er þess getið að hv. þm. Stefán Benediktsson sat fundi nefndarinnar og var samþykkur þessu nál. sem ég hef hér lesið og er undirritað af hv. þm. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur.

Það má geta þess að við umfjöllun um þetta mál meira en hvarflaði að okkur Kvennalistakonum að sitja ekki aðeins hjá við afgreiðslu þess heldur greiða atkvæði á móti því, leggja til að það yrði hreinlega fellt. En niðurstaða okkar varð þó að afstaða sú sem ég hef hér lýst á undan væri ábyrgari, fyrst og fremst vegna þess að við þau skilyrði sem þm. er ætlað að skoða þetta mál er ekki vinnandi vegur að gera sér heillega grein fyrir afleiðingum þessara ráðstafana. Við hv. þm. Kristín Halldórsdóttir munum því sitja hjá við afgreiðslu þessa frv.