28.02.1986
Neðri deild: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2938 í B-deild Alþingistíðinda. (2458)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Frsm. 2. minni hl. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hl. fjh.- og viðskn. um þetta frv.

Þingflokkur Alþfl. vill fyrir sitt leyti veita þessu frv. stuðning. Rökstuðningur okkar fyrir því hefur verið rækilega tíundaður úr þessum ræðustól áður og í nál. Ed. og þessarar deildar. Engu að síður hörmum við að ríkisstj. og þingmeirihluti skuli ekki hafa tekið undir með okkur um nauðsyn þess að styrkja stöðu ríkisfjármálanna til að tryggja betur tilætlaðan árangur kjarasamninga. Þar af leiðir hins vegar að ríkisstj. ein hlýtur að bera ábyrgðina ef ónýt fjármálastjórn spillir árangri skynsamlegra kjarasamninga.