30.10.1985
Neðri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

9. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33 17. júní 1944. Þetta frv. er 9. mál þingsins og er að finna á þskj. 9.

Margoft hefur komið fram og verið ítrekað hve mikilvægt er að mati BJ að nauðsyn beri til að styrkja löggjafarstarfsemi þingsins og auka á sjálfstæði þess. Þetta teljum við geta gerst m.a. með því að þm. láti af þingmennsku er þeir gerast ráðherrar. Þeir geta þá snúið sér einbeittir og af fullum krafti að ráðherraembættinu og að þeim skyldum sem því embætti fylgja í fullvissu þess að varamaður sem tekið hefur við þingsætinu gegni þeim skyldum sem fylgja því af bestu samvisku og skili sætinu aftur komi til þess að ráðherra hverfi frá embætti á kjörtímabilinu.

Þetta frv. fjallar því í raun og sannleika um stöðu þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu. Það mundi verða um að ræða virkara og ábyrgara frumkvæði í lagasetningu af hálfu þingsins en tíðkast hefur síðustu áratugi. Það leiddi af sjálfu sér þar sem menn væru ekki eins bundnir frumkvæði og þátttöku framkvæmdavaldsins hverju sinni.

Tillögur stjórnarskrárnefndar hljóða á þá leið að ráðherrar eigi samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi. Þar er einnig tekið fram að þeir eigi því aðeins atkvæðisrétt að þeir séu jafnframt þingmenn. Sem sagt, þar með er gert ráð fyrir að þeir geti verið þingmenn jafnframt eins og nú er. Í núgildandi stjórnarskrá er gert ráð fyrir að ráðherrar eigi fullgilda aðild að þingstörfum.

Þessi breytingartillaga sem hér er flutt gerir hins vegar ráð fyrir aðild ráðherranna að öllu leyti nema að því er tekur til atkvæðagreiðslu. Ég álít að þetta frv. snerti fyrst og fremst starfshætti þingsins og að þessi breyting, yrði hún samþykkt, mundi án alls efa styrkja að miklum mun löggjafarstarfsemi þingsins og ekki hvað minnst auka á sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdavaldinu. Einnig skapaðist möguleiki á að hin þverrandi virðing fyrir Alþingi - að mörgu leyti verðskulduð hin síðustu ár - gæti farið vaxandi. Alþingi hefði þannig raunhæfa möguleika á að öðlast að nýju það traust og þá virðingu sem slíkum valdþætti ber. Alþingi á að vera traustvekjandi stofnun í þjóðfélaginu. Þess vegna hlýtur það að vera sjálfsögð og eðlileg krafa að virðingu þessarar stofnunar sé í sem fæstu ábótavant.

Samband þessara tveggja valdþátta sem frv. tekur til, löggjafarvalds og framkvæmdavalds, getur ekki talist eðlilegt og hefur m.a. orðið til þess að stuðla að þverrandi virðingu löggjafans. Með frv. er lagt til að um þessi óeðlilegu tengsl verði losað. Lagt er til að bundið verði í stjórnarskrá að gerist alþingismenn ráðherrar gegni þeir ekki þingmennsku samtímis, þ.e. að þeir verði ekki jafnframt ráðherrar.

Það má leiða að því rök að með því að gegna ráðherraembætti jafnframt þingmennsku sýni menn starfi þingmannsins í raun og sannleika lítilsvirðingu. Eða hvernig á að fara að því að skilgreina að hægt sé að sinna þingmennskunni meðfram svo viðamiklu starfi sem embætti ráðherra er? Ég minnist þess einmitt að fyrir skömmu heyrði ég einn af ráðherrum þessarar ríkisstj. geta um það í útvarpsviðtali sem átt var við hann að hann gæti af eðlilegum orsökum ekki sinnt þingmannsstarfi sínu sem skyldi, og í raun og veru engan veginn, kom fram síðar í viðtalinu. Hann vonaðist þó til þess að kjósendur hans fyrirgæfu honum. Þetta er sem sagt mergurinn málsins. Ráðherrar eru og eiga að vera æðstu menn framkvæmdavaldsins og þess vegna er ekkert eðlilegra en að þeir eigi sæti á Alþingi; það skapar einungis eðlileg tengsl á milli löggjafans og framkvæmdavaldsins. En það er að sama skapi óeðlilegt og óæskilegt að þeir hafi þar nokkur áhrif með atkvæði sínu.

Eins og ég gat um fyrr í máli mínu er lagt til að um leið og þingmenn gerast ráðherrar láti þeir af störfum sem alþingismenn. Þeir láti þar með þingsæti sitt til varamanns svo lengi sem ráðherratíðin stendur yfir. Það er einfalt og fullvel skiljanlegt. Ráðherrar geta auðvitað stöðu sinnar vegna aldrei gegnt stöðu þingmanna svo fullnægjandi geti talist meðfram embætti sínu. Í því sambandi nægir að benda á fastanefndir þingsins. Þar eiga ráðherrar ekki sæti. Ekki er gert ráð fyrir þeim, enda þótt þar fari fram afskaplega mikilvægur og tímafrekur þáttur í starfi þm. Ég hef engan heyrt neita því. Ég hef heldur ekki enn þá heyrt neinn þingmann geta um það að hann hafi yfrið nægan tíma til að sinna störfum sínum. Heldur frekar hitt að maður heyri kvartanir um að sólarhringurinn nægi engan veginn til þeirra starfa sem honum eru ætluð. Þess vegna tel ég það vera rökrétta ályktun, að ekki sé á bætandi þó skyldur ráðherra bætist ekki við svona rétt í ofanálag. Þar að auki gæti þetta leitt til þess að fækka mætti aðstoðarmönnum ráðherra en þeim hefur sífellt farið fjölgandi með hverri nýrri ríkisstjórn.

Ég átti í sumar samtal við norska sendiráðsritarann hérlendis, en í Noregi eru alveg skýr ákvæði hvað þetta varðar. Ég var þá m.a. að spyrja hann út í það hvernig þessu væri fyrir komið í Noregi. Hann tíundaði það allt vel og skilmerkilega og tók til ákvæði 12. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir m.a. að sérhver norskur ríkisborgari geti tekið við ráðherraembætti þó því aðeins að hann sé ekki jafnframt þingmaður. Til rökstuðnings þessu sagði hann sem svo: Ja, það er auðvitað alveg ógerlegt að sami maðurinn sé að setja lög á einhverjum ákveðnum tíma dagsins og vasist svo í því að framkvæma þau í annan tíma. Það er alveg augljóst að það gengur ekki, og þar af leiðir að það gilda um það skýr ákvæði að sami maðurinn gegni ekki tveimur svo misvísandi embættum. Mér varð nú að orði: Ja, hvort sem það gengur eða gengur ekki þá er það þannig hérlendis. Vesalings maðurinn vissi ekki hvernig hann átti að snúa sig út úr þessu vonda máli sem hann var greinilega kominn á kaf í og reyndi þess vegna að koma sér farsællega fyrir horn með því að segja eitthvað á þá leið að það væri nú sambærilegt við það ef þingmenn færu t.d. að eiga sæti í bankaráðum eða eitthvað ámóta.

Virðulegi forseti. Það er aðeins hægt fyrir hv. þingdeild að ímynda sér hvernig vesalings manninum leið þegar ég leiddi hann í allan sannleikann um samtvinningu valdþáttanna hérlendis. Það skal tekið fram að maðurinn var rétt nýkominn til landsins og hafði ekki starfað hér áður.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég aðeins segja þetta. Það er trú mín að breyting sem þessi yrði til þess að styrkja löggjafarstarfsemi þingsins og leiddi til aukins og skilvirks eftirlits með því að lögunum væri framfylgt. Auk auðvitað vonarinnar um það að virðing Alþingis færi vaxandi.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu máli verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.