28.02.1986
Neðri deild: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2945 í B-deild Alþingistíðinda. (2461)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu og síst af öllu hef ég í huga að skattyrðast við hv. 3. þm. Vestf.

Hann vék að því í ræðu sinni að fyrir ekki mörgum árum hafði ég þann starfa að vinna að gerð kjarasamninga. Auðvitað henti það mig, eins og ýmsa fleiri sem að þeim málum hafa komið, að gera verðbólgusamninga. Honum fannst því að ummæli mín í gær hafi skotið nokkuð skökku við. Ég hygg þó að ég hafi á þeim tíma kannske fremur legið undir gagnrýni frá gagnaðilum við samningsgerð að hugsa meira um að ná niður verðbólgu við kjarasamninga en að semja um kaup og kjör.

Ég minnist þess að á þeim tíma var hv. þm. Ragnar Arnalds fjmrh. Sú ríkisstj. gerði ítrekaðar tilraunir til að ná samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um alhliða ráðstafanir til að kjarasamningar þyrftu ekki að leiða til aukinnar verðbólgu. Einhverju sinni lét þáv. fjmrh. ummæli falla í þá veru og ég taldi þá nauðsynlegt að koma mjög sterklega til móts við viðhorf þáv. ríkisstj. og lét þau ummæli falla í blaðaviðtali að hugmyndir þáv. fjmrh. væru eins og komnar beint úr mínu hjarta. Ég held að þáv. fjmrh. hafi a.m.k. eytt þremur blaðagreinum í að skrifa sig frá þessari ákveðnu stuðningsyfirlýsingu. En ég ætla ekki að eyða fleiri orðum að þessu.

Ég vil að gefnu tilefni taka fram að þegar hafa verið teknar ákvarðanir í tengslum við þessar ráðstafanir um hækkun á bótum almannatrygginga í samræmi við þá launahækkun sem kjarasamningarnir gera ráð fyrir og þar að auki hefur verið tekin ákvörðun um sérstaka hækkun á tekjutryggingu í samræmi við láglaunabætur sem kjarasamningarnir ákveða. Þessi ákvörðun hefur þegar verið tekin.

Það verður þegar í stað hafist handa við að hefja vinnu við nauðsynlega athugun og samningu á lagafrumvörpum í tengslum við tillögur þær sem fyrir liggja um nýtt húsnæðislánakerfi og ég lít svo á að um það atriði sé fullt samkomulag á milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.

Að því er varðar búvöruverð hafa aðilar vinnumarkaðarins fengið ákveðnar skýringar á yfirlýsingu ríkisstj. um það efni sem birtar hafa verið í yfirlýsingu frá Alþýðusambandi Íslands. Að sjálfsögðu verður staðið við þessi atriði í einu og öllu og kappkostað að koma öllum þessum áformum sem fyrst fram.

Ég tek mjög ákveðið undir það sjónarmið, sem hv. 3. þm. Reykv. lýsti í þessari umræðu, að það væri mjög nauðsynlegt að hraða afgreiðslu frv., ekki síst fyrir þá sök að brýnt er að það liggi fyrir þegar verkalýðsfélögin fara að fjalla um þessa samninga. Af hálfu ríkisstj. var kappkostað að standa þannig að undirbúningi málsins að þetta mætti verða og hún hefur fyrir sitt leyti viljað vinna þann veg að málunum. Ég tek undir þau orð hv. 3. þm. Reykv. að það er býsna kynlegt að heyra þau orð falla á hinu háa Alþingi að þessi lagasetning ætti að bíða þess að verkalýðsfélögin samþykktu samningana. Þvert á móti lítum við svo á að þetta sé ein af mikilvægustu forsendum samninganna og hún hljóti því að liggja fyrir af hálfu ríkisstj. og Alþingis áður en þau ganga til umfjöllunar um þessa samninga.

Ég ítreka að við erum að gera mjög mikilvæga tilraun. Við erum hér að stíga ný skref til þess að taka á okkar efnahagslegu vandamálum. Við eigum mörg verk óunnin. Við erum að hefja nýja tilraun, ekki að ljúka verki heldur að byrja verk.

Ég ítreka þakklæti mitt til þeirra sem staðið hafa að kjarasamningum af hálfu aðila vinnumarkaðarins, bæði af hálfu verkalýðsfélaganna og vinnuveitendasamtakanna. Ég lít svo á að þeir hafi hér unnið mikið brautryðjendaverk, gengið til samstarfs sín á milli og við ríkisstj. sem marki nokkur þáttaskil.

Ég vil enn fremur færa hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar þakkir fyrir skjót viðbrögð og skjóta afgreiðslu á þessu máli og þann víðtæka stuðning sem fengist hefur við afgreiðslu þessa mikilvæga máls.