28.02.1986
Neðri deild: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2948 í B-deild Alþingistíðinda. (2465)

303. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega þakka hv. 10. landsk. þm. fyrir að setja lögfræðinga í flokk reikningsglöggustu manna.

Varðandi spurningar hennar um vexti er þess að geta að það hafa þegar verið teknar ákvarðanir um verulega lækkun á nafnvöxtum. Það hefur komið fram að raunvextir af verðtryggðum lánum verða óbreyttir fyrst um sinn. Ég hef greint frá því í umræðum í Ed. um þetta atriði að ég vænti þess að raunvextir af spariskírteinum, sem ríkissjóður hefur selt, geti mjög fljótlega eða innan ekki langs tíma lækkað og auðvitað mun það fara eftir því hvernig til tekst í þessum efnum, en því meir sem við náum niður verðbólgu, því hraðar getum við stigið skref í þessa veru. En ég get tekið það fram aftur hér í hv. Nd. að innan ekki langs tíma sé ég fram á að raunvextir af spariskírteinum ríkissjóðs, sem ýmsir hafa talið að væru nokkuð leiðandi í þessum efnum, geti lækkað.