04.03.1986
Sameinað þing: 54. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2955 í B-deild Alþingistíðinda. (2473)

294. mál, fullvirðisréttur í landbúnaðarframleiðslu næstu verðlagsár

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svör hans. Hann vék í upphafi að því hvernig staðið hefur verið að ákvörðun um fullvirðisrétt vegna mjólkurframleiðslu. Um það var út af fyrir sig ekki spurt og umræða hefur farið fram um þau efni þó að ekki saki að það sé rifjað upp hér.

Fram kom hjá hæstv. ráðh. að Stéttarsamband bænda væri að vinna að þessum málum og hann gerði ráð fyrir að unnt yrði að tilkynna bændum um fullvirðisrétt vegna sauðfjárframleiðslu og nautgripaafurða fyrir næsta verðlagsár, sem hefst 1. sept. n.k., í júnímánuði eða fljótlega eftir 15. júní ef ég hef skilið hæstv. ráðh. rétt. Vissulega er þar öðruvísi að staðið en gerst hefur á yfirstandandi verðlagsári og full ástæða til að hvetja til að það dragist ekki lengur en þarna er nefnt að bændur fái þessar upplýsingar um rétt sinn. Auðvitað þyrfti þetta að vera komið fram fyrr en þarna er um rætt, en er þó annað og skárra en það sem bændur hafa mátt þola á yfirstandandi verðlagsári.

Ég innti hæstv. ráðh. síðan eftir því hvert horfði í þessum efnum varðandi næstu ár að hans mati. Hann reynir ekki að spá neitt í um hvaða magn geti orðið að ræða í sambandi við sauðfjárframleiðsluna eftir að því samningstímabili lýkur sem nú stendur yfir, þ.e. varðandi næsta verðlagsár, og það er vissulega bagalegt ef yfirstjórn landbúnaðarmála getur ekki gert sér nokkra grein fyrir því hvert horfir í þeim efnum og hverju reynt verði að keppa að í þeim málum því að það skiptir auðvitað mjög miklu að allt verði gert til að halda uppi neyslunni á þessum landbúnaðarafurðum innanlands og vinna að því með markvissum hætti.

Ég vil inna hæstv. ráðh. eftir því hér frekar hvert sé álit hans á þeim horfum sem dregnar hafa verið upp í spánefnd hæstv. forsrh. varðandi þróun búvöruframleiðslunnar, hinnar hefðbundnu búvöruframleiðslu, en við fengum um það fréttir fyrir nokkru að þar væri talið stefna í að sauðfjáreign landsmanna færðist úr um 700 þús. niður í um 450 þús. svona á fimm ára tímabili eða svo. Ef þetta eru horfurnar og landbrh. er sammála þeirri nefnd sem hefur verið að vinna að málum fyrir forsrh. er þröngt fyrir dyrum hjá íslenskri bændastétt í sambandi við sauðfjárafurðirnar. Ég held að forsvarsmenn landbúnaðarmála hljóti að skoða þetta dæmi og hvað unnt er að gera til þess að ekki fari svo sem þarna er gert ráð fyrir.

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum svörin, en vænti þess að hann greini okkur frá viðhorfum í sambandi við þróunina til lengri tíma litið, sérstaklega varðandi sauðfjárafurðirnar, eins og ég nefndi hér, og ég vil að endingu hvetja ráðherra til að stefna að langtímasamningum um þessi efni, eins og vikið var að í svari við 3. lið fsp. minnar, þar sem heimilt er að semja til lengri tíma en eins verðlagsárs í senn. Slíkt skiptir auðvitað mjög miklu máli í sambandi við stefnuna í landbúnaðarframleiðslunni.