04.03.1986
Sameinað þing: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2957 í B-deild Alþingistíðinda. (2477)

269. mál, frelsi í innflutningi á olíuvörum

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 502, 269. máli.

Ég held að það sé hollt að við byrjum á því að setja okkur í spor þess sem væri forstjóri fyrir olíufélagi til að átta okkur á því hvernig það kerfi er sem við höfum búið til varðandi olíuverðlagningu, olíuinnkaup o.s.frv. hér á landi. Hugsum okkur að við værum í sporum forstjóra olíufyrirtækis sem langaði til þess að ná í stærri markaðshlutdeild hér á Íslandi í sölu á olíuvörum. Hvað má hann gera og hvað má hann ekki gera? Hann má ekki bjóða hagstæðara verð vegna þess að það er boðið með lögum að öll olíufélögin skuli selja olíuna á sama verði. Hvað hefur hann þá til ráða til að reyna að auka markaðshlutdeild sína? Hann má ekki nota verðið. Hann verður að lokka fólk til sín. Hvaða ráð eru til þess? Kannske eru ráðin þau ein að því er bensínviðskiptin varðar að búa til fallega útsölustaði sem fólk fýsir að koma inn á, að setja upp aðra þjónustu á útsölustöðunum sem dregur að fólk, selja sígarettur, pulsur og leigja vídeóspólur. Kannast einhver við þetta? Þetta er nefnilega sannleikurinn í málinu. Þetta eru ráðin sem þeir hafa til þess að lokka til sín viðskipti og þetta hafa þeir líka gert.

En skiptir þá ekki máli hvað þetta kostar olíufélagið? hljóta menn að spyrja. Svarið er nei. Það skiptir ekki máli vegna þess að við búum við það kerfi að dreifingarkostnaðinum er jafnað niður á félögin þannig að ef eitthvert olíufélagið gengur örlítið lengra en hin í þessum efnum er því jafnað á þau öll. Sá forstjóri sem tekur þá ákvörðun að vinna svona til að lokka til sín viðskipti veit það reyndar að hin olíufélögin hljóta að fara alveg eins að. Og þótt eitthvað halli á verður það jafnað að lokum vegna þess að verðið á að vera hið sama og ef einhver yfirdráttur verður í bönkum veit hann að það verður svipað hjá hinum félögunum og það verður líka jafnan fyrirgefið. (ÓÞÞ: Er þetta nú alveg víst?) Þetta er alveg víst, herra þm.

En við skulum taka hina hliðina. Það gæti líka verið að þessi forstjóri hefði áhuga á því að láta fyrirtæki sitt sýna meiri hagnað eða vera hagkvæmara en hin fyrirtækin. Hvað hefði hann til ráða? Getur hann gert hagkvæm innkaup á olíu? 3/4 af olíuinnkaupunum eða því sem næst eru bundnir með viðskiptum við Sovétríkin. Hann getur ekki sýnt meira áræði eða meiri hagnað eða sparað sér peninga í þeim viðskiptum. Hvað þá um seinasta fjórðunginn? Þar gæti hann hugsanlega haft einhvern ávinning. En svarið er aftur nei vegna þess að við höfum komið okkur upp innkaupajöfnunarreikningi sem þýðir að þeim forstjóra sem gerir hagkvæm innkaup ber að afhenda ábatann af því til hinna olíufélaganna. Viðskiptin eru jöfnuð út. Nú segja menn að vísu að það sé í uppsiglingu sérreikningur fyrir hvert olíufélaganna. En það mun ekki koma að gagni því að eftir sem áður á það ekki að fá að njóta þess nema í einhverjum litlum mæli sem Verðlagsstofnun á að ákveða, en sama verð á eftir sem áður að gilda hjá öllum.

Við höfum njörvað þetta niður þannig að það er engin ástæða til þess fyrir forstjóra olíufélagsins að leggja nokkurn skapaðan hlut á sig til þess að vera með hagkvæm innkaup eða hagkvæmni í dreifingu. Við höfum meira að segja fundið upp flutningsjöfnunarsjóð sem er svo snjall að ef eitthvert olíufélaganna hefur minni dreifingarkostnað en hin er því ætlað að bera uppi dreifingarkostnaðinn hjá hinum sem hafa meiri dreifingarkostnað.

Það er kannske ekki nema von að olíufélagsforstjórarnir hafi engan áhuga á því að ástunda hagkvæmni í rekstri hjá sér. Það er ekki nema mannlegt og eðlilegt, miðað við það kerfi sem við höfum búið til, að þeir leiti í þann farveginn að búa til glæsilegar hallir sem lokka menn til að koma og kaupa bensín eða þeir lokki menn með því að selja pulsur eða sígarettur eða vera með vídeó.

Þetta er kerfið sem við höfum komið okkur upp í hnotskurn og eiginlega er ekki til neins að vera að sakast við forstjóra olíufélaganna þó að verðlag á olíum og bensíni sé hátt hér á landi. Ég held að það liggi í eðli kerfisins að það er ekki hægt að sakast við þá og í rauninni ekki hægt annað en búast við því að olíuverð og bensínverð sé hátt á Íslandi. Það er þetta, hv. þm., sem ég hef verið að gagnrýna á þessum stað undanfarið og það er að þessu sem sú þáltill. sem ég hef hér flutt beinist.

Ég held að það sé alveg augljóst að við höfum upplifað það og horft á það á undanförnum árum, ekki bara þessa stundina, að verð á gasolíu t.d. hér á landi og bensíni hefur verið mun hærra en í grannlöndum okkar. Munurinn á því hvers konar kerfi við höfum og hvers konar kerfi grannlöndin hafa er sá að við höfum njörvað þetta niður með þeim hætti að olíufélögin geta engan sérstakan hag haft af því að ástunda hagkvæmni. Grannlönd okkar hafa leyft frjálsa samkeppni í þessari grein.

Nú segja menn vitaskuld: Ja, en það eru miklir markaðshagsmunir í húfi hjá Íslendingum. Við seljum svo og svo mikið af varningi til Sovétríkjanna. Við seljum þangað síld, við seljum þangað fryst flök og heilfrystan fisk, lagmeti og prjónavöru. Og það er rétt. En innflutningur okkar á olíu t.d. á árinu 1984 var nær 2250 millj. kr. meðan útflutningurinn nam 1800 millj. Þarna er borð fyrir báru upp á 450 millj. kr.

Í annan stað er ég sannfærður um að margt af þeim varningi sem við höfum selt til Sovétríkjanna, svo sem frystu flökin, getum við selt annað. Það kostar kannske dálitla fyrirhöfn og kannske fáum við ekki alveg jafnhagstætt verð til að byrja með, en ég held að þegar fram í sækir séu aðrir markaðir ekki síðri en sá sovéski.

Ég skal viðurkenna að að því er síldina varðar horfir þetta öðruvísi við. Við höfum fengið mun hærra verð fyrir saltsíld í Sovétríkjunum og það er nánast okkar eini markaður. Þess vegna er aðgæslu þörf á því sviði. En mér er hins vegar spurn hversu lengi það muni haldast að Sovétríkin borgi mun hærra verð fyrir saltsíldina til okkar en þau geta í rauninni fengið saltsíldina á annars staðar að. Dálítið er það fallvalt að byggja viðskipti á slíku.

Niðurstaðan í mínum huga er vitaskuld sú að það kerfi sem við höfum búið okkur til í þessu sambandi elur á óhagkvæmni og nauðsynlegt er að taka það til endurskoðunar. Í öllum viðskiptum gildir að samkeppni og frjáls verslun er líkleg til þess að skapa heilbrigt aðhald og lægra verð og það á auðvitað og áreiðanlega ekkert síður við í þessari grein en öðrum. Það er af þeim sökum sem þessi till. er flutt til þess að menn hugsi nú um það hvað er í húfi hér og hversu óhagkvæmt það kerfi er sem við höfum búið okkur til.

Nú hef ég að vísu heyrt að hæstv. viðskrh. hefur afneitað því algerlega að nokkurt frelsi geti fengið að koma til álita í þessari grein. Ég hefði þó búist við því að þm. Sjálfstfl. mundu vilja ræða með hvaða hætti mætti koma á frjálsræði í þessum viðskiptum og aukinni samkeppni. Ég hefði búist við því miðað við þeirra málflutning upp og ofan og miðað við hvar þeir telja sig standa í hinu pólitíska litrófi. En ég er þó ekki með öllu úrkula vonar þótt hæstv. viðskrh. hafi tekið svona illa í þetta vegna þess að formaður Sjálfstfl., hæstv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson, telur að til álita komi að auka viðskiptafrelsi að því er olíuvörur varðar. Og vonandi eru þeir fleiri innan stjórnarflokkanna sem eru tilbúnir að ræða þessi mál æsingarlaust og út frá heilbrigðu sjónarhorni til þess að komast að því hvernig best og farsællegast sé að koma þessum málum fyrir.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að till. verði vísað til atvmn.