04.03.1986
Sameinað þing: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2960 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

269. mál, frelsi í innflutningi á olíuvörum

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil mjög eindregið leggja áherslu á að sú nefnd sem fær þessa þáltill. til meðferðar afgreiði hana þannig að hún sé ekki til umræðu ár eftir ár. Ég tel nauðsynlegt að það verði leitt í ljós hver stefna og vilji Alþingis er í þessum efnum.

Hv. 1. flm. þessarar till. talar um að hér ríki ófrelsi í sambandi við innflutning á olíuvörum. Ég efast ekki um að þessi hv. þm. veit betur. Allur innflutningur á olíuvörum er verðlagður eftir því markaðsverði sem er á heimsmarkaðnum hverju sinni. Fyrst þegar olíusamningur var gerður við Sovétríkin, sem var á árinu 1953, var verðlag miðað við US Gulf, eins og það var kallað, en árið 1974 var farið að miða við meðaltal af skráningu í Rotterdam og Curacao og gilti sú viðmiðun til 1977. En árið 1978 er farið að miða við verðskráningu í Rotterdam eingöngu og þannig hefur það verið síðan. Það fer því algerlega eftir verðinu á hinum frjálsa markaði, hinum svokallaða Rotterdam-markaði, hve dýr sú olía er sem keypt er til landsins hvort sem hún er keypt frá Sovétríkjunum eða frá öðrum ríkjum.

Við Íslendingar töldum það nauðsynlegt á sínum tíma, og teljum það enn, að notfæra okkur viðskiptasambönd við aðrar þjóðir til þess að fá möguleika á að selja þeim sem flestar okkar vörur. Og það væri fullkomið ábyrgðarleysi ef við nú í dag samþykktum slíka till. sem þessa og segðum við Sovétríkin, sem við gerðum samning við um vörukaup, rammasamning, fyrir ári síðan til fimm ára, að nú ætluðum við að hætta að kaupa olíu af þeim, við mundum kaupa hana þar sem okkur sýndist hverju sinni. Hvað mundum við gera, Íslendingar, ef aðrar þjóðir gerðu slíkt við okkur? Við mundum eðlilega láta þeim viðskiptum lokið ef þau ættu aðeins að verða á aðra hlið. Það er því fullkomið ábyrgðarleysi hjá hv. þm. að leggja slíkt til. Þar við bætist að sami hv. þm. var nokkuð á annað ár sjútvrh. og ég þekki það frá þeim árum að þá hafði sjútvrh. ekki síður áhuga á þessum viðskiptum sem og fleirum, sem ég skal síðar víkja að, en viðskrh. eða aðrir ráðherrar.

Sami hv. þm. var einnig, þó stutt væri, viðskrh. Ég sé að allir þm. Alþfl. í Nd. flytja þessa þáltill. Alþfl. átti viðskrh. í 12 ár samfleytt, fyrrv. formann flokksins lengst af á því tímabili. Hann sá hag í því að haga olíuinnflutningi með þessum hætti allan tímann. Síðan hafa verið viðskrh. menn úr öllum fjórum þingflokkunum sem átt hafa þm. á Alþingi á öllu þessu tímabili. Enginn þeirra hefur gert neitt til þess að hverfa frá þessari tilhögun. Allir hafa séð að nauðsynlegt var að halda þessu óbreyttu áfram. En þegar menn eru komnir í minni hluta er um að gera að snúa staðreyndum við og taka upp sérstakan ræðustíl eins og hv. þm. gerði áðan. Hann blandaði hér saman innflutningi og sölu á olíuvörum og sölu á pulsum. Ég veit ekki til þess að olíufélögin gefi þessar pulsur. Og kaupir nokkur pulsu nema af því að hann langar í pulsu? Hinir láta bara eiga sig að kaupa pulsu. Mér finnst þetta afskaplega ómerkilegur brandari hjá hv. þm. En ef honum finnst brandarinn góður og einhverjum öðrum, þá þeir um það. Þá getur hann endurflutt þetta.

Við skulum aðeins víkja að sölu á olíum. Það var mikið rætt um að beina viðskiptum okkar til annarra þjóða sem er alveg sjálfsagt að gera. Og það var gert. Á árunum 1980-1981 var viðskiptum beint til British National Oil Company. Það voru keyptir sex farmar á tímabilinu frá 10. sept. 1980 til 21. júlí 1981. Það voru samtals 118 þús. 96 tonn og kaupverðið var 40 millj. 189 þús. bandaríkjadalir. Það var keyptur einn farmur af svartolíu 11. febr. 1981 og kaupverðið var 5 millj. 28 þús. bandaríkjadalir. Samtals var því kaupverð á þessum förmum 45 millj. og tæplega 217 þús. dollara. Ef þetta magn af olíu hefði verið keypt frá Sovétríkjunum á sama tíma og kaupverð hennar hefði verið í samræmi við gildandi samninga á milli Íslands og Sovétríkjanna hefði sambærilegt kaupverð verið hvað snerti gasolíuna 36 millj. 946 þús. bandaríkjadalir en svartolíuna 4 millj. 736 þús. bandaríkjadalir. Samtals hefðu kaupin frá Sovétríkjunum á þessu magni numið á þessum sama tíma 41 millj. 682 þús. bandaríkjadala. Munurinn á því að kaupa olíuna frá BNOC og frá Sovétríkjunum var því hvorki meira né minna en 3 millj. 535 þús. bandaríkjadalir. Miðað við núverandi verðlag er hér, á ekki meira magni en þessu, um 150 millj. kr. hærri innkaup að ræða.

Ég vil líka benda á í þessu sambandi að við flytjum inn olíu frá landi eins og Portúgal og þar höfðum við líka sömu viðskiptahagsmuna að gæta. Árið 1978 stóðu mál þannig að Portúgalar voru orðnir mjög óánægðir með viðskiptin við okkur vegna þess hvað við keyptum lítið af vörum frá þeim. Þá var ráðist í að kaupa hvorki meira né minna en tvo togara og þá stóra og í framhaldi af því olíuvörur, einkum bensín, og fleiri afurðir. Á þessu byrjaði sú ríkisstj. sem sat árið 1978 fram undir lok ágústmánaðar en ríkisstj. sem tók við jók þessi viðskipti. Hún beindi viðskiptunum til Portúgals og í þeirri ríkisstj. átti sæti 1. flm. þessarar till. sem þá var sjútvrh. Þá fannst honum rétt að beina þessum viðskiptum til Portúgals og ég hef aldrei heyrt öðru haldið fram en að það hafi verið talið nauðsynlegt þjóðarinnar vegna en ekki vegna olíufélaganna.

Ef við lítum á olíuviðskiptin skulum við byrja á að fara yfir fimm ára tímabil í innflutningi á bensíni. Árið 1981 voru flutt inn 93 587 tonn af bensíni. Þar af voru flutt frá Sovétríkjunum 57 034 tonn en frá Portúgal 17 224 tonn. Annað var flutt frá öðrum Vestur-Evrópuríkjum, einkum Hollandi. Þessi innflutningur jókst nokkuð á næsta ári, 1982, eða upp í 97 700 tonn og voru þá flutt frá Sovétríkjunum tæplega 72 000 tonn á móti 25 000 tonnum frá Portúgal. Árið 1983 var innflutningurinn frá Sovétríkjunum 68 000 tonn og frá Portúgal 25 800 tonn, og hliðstætt 1984, og á s.l. ári voru flutt frá Sovétríkjunum 60 000 tonn en frá Portúgal 30 000 tonn af bensíni.

Tímans vegna ætla ég að fara fljótt yfir sögu. Árið 1985 flytjum við inn af gasolíu 255 400 tonn, þar af frá Sovétríkjunum 130 400 tonn og frá Portúgal 26 000 tonn, en frá Hollandi, Bandaríkjunum og Noregi fluttum við inn rétt innan við 100 000 tonn. Svartolía hefur öll verið flutt inn frá Sovétríkjunum og eru það af öllum talin mjög góð innkaup sem þar hafa átt sér stað.

Nú vil ég mjög gjarnan spyrja hv. þm., 1. flm. þessarar till.: Vill hann að við hverfum frá þessum innflutningi, gefum olíufélögunum í landinu fullt frelsi að kaupa hvar sem er, eiga á hættu erfiðleika í viðskiptamálum, þar með sérstaklega síldarsölu, sölu á ullarvöru, málningu o.fl. o.fl.? Vill hann þá í leiðinni gefa frjálsa álagningu á olíu og bensín? Vill hann afnema verðjöfnun á olíu og bensíni hér innanlands? Vill hann gera aðstöðu fólksins úti á landi allt aðra en er hér á þéttbýlissvæðinu?

Ég skal svara þessum spurningum fyrir mitt leyti á þann veg að ég er andvígur því að breyta þessu. Ég vil að við höfum frelsi í innflutningi og getum valið okkur það verð sem við fáum á hinum frjálsa markaði. En ég vil beina því til þeirra sem annast þennan innflutning að þeir flytji inn frá löndum sem við höfum hag af að flytja inn frá vegna okkar viðskiptaáhuga. Og ég vil einnig taka fram að ég vil ekki ganga svo langt fyrir olíufélögin að veita þeim takmarkalaust frelsi til álagningar hér innanlands. Ég er ekki að verja starfsemi olíufélaganna. Ég er fyrst og fremst að hugsa um hvað okkur er fyrir bestu, þjóðarheildinni, í þessum efnum og ég tel að við höfum verið gætnir og farið rétt að í innflutningi á olíuvörum. Hitt er svo annað mál, sem ég get tekið undir með hv. 1. flm. þessarar till., að vitaskuld þarf margt að gera til að breyta bæði dreifingarkerfi og öðru hér innanlands. Það er stefnt að því að lækka olíuverð, hefur verið gert allmyndarlega fyrir nokkrum dögum, gasolían lækkaði um 80 aura. Það er stefnt að því að lækka gasolíu enn um miðjan þennan mánuð og jafnvel bensín líka.

Það er rétt að bensínverð er hærra hér en annars staðar. En það stafar ekki af óhagstæðum innkaupum heldur því að við höfum lagt svo mikla tolla og gjöld til vega á bensínverð og þau hafa verið bundin byggingarvísitölu á hverjum tíma. Þar liggur skýringin á því verði. Viljum við hætta því? Viljum við taka þær tekjur frá þeirri uppbyggingu vegakerfisins sem við erum að framkvæma hér á landi? Ég segi fyrir mitt leyti að ég tel hana síst of mikla. Við þurfum að leggja betri vegi og koma á greiðari samgöngum í landinu. Þess vegna vil ég ekki breyta þar um.

Ég vil lýsa yfir algjörri andstöðu minni við þessa till. En eins og ég sagði í upphafi máls míns legg ég mikla áherslu á það og vænti þess að hv. þingnefnd, sem fær þessa till. til meðferðar, afgreiði till. Ég vona að þegar nefndin skilar áliti og till. kemur til atkvgr. í Alþingi verði hún strádrepin.