04.03.1986
Sameinað þing: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2962 í B-deild Alþingistíðinda. (2479)

269. mál, frelsi í innflutningi á olíuvörum

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er athyglisvert að 1. flm. þessarar till. til þál. um frelsi í innflutningi á olíuvörum er hv. 3. þm. Reykn. Það vill svo til að hann lét mjög að sér kveða hér í þinginu þegar umræður voru uppi um það hvort við ættum að viðhalda þeim viðskiptahætti að kaupa olíuna á heimsmarkaðsverði, eftir Rotterdammarkaði, eða hefja viðskipti við Breta. Og hann var harður talsmaður þess að hefja viðskiptin við Breta. Það ævintýri varð dýrt eins og hæstv. ráðherra gat um áðan. Það varð svo dýrt að við hefðum eiginlega haft þörf fyrir að hv. 3. þm. Reykn. kæmi hér og bæðist afsökunar á þeim ráðleggingum sem sköðuðu þjóðina jafnmikið á sínum tíma. Það hefði verið ágæt byrjun. Og jafnframt að fram kæmi hvaða þekking í olíuviðskiptum hefði bæst við hjá hv. þm. frá því að þetta var gert sem benti til þess að hann væri nú orðinn fær um að ráðleggja þannig að það yrði þjóðinni til blessunar.

Það er merkilegur hlutur að í grg. þessarar þáltill. er vegið að öðru atriðinu sem flm. lagði þó mikla áherslu á hér í upphafi máls síns. Það er þessi stóra spurning hvort olíufélögin eigi að fá að heyja hér harðvítuga samkeppni innbyrðis um olíuverðið eftir að þau hafi fengið olíuna á heimsmarkaðsverði. Ég hef ekki trú á því að Íslendingar eigi þau viðskiptakjör möguleg að fá olíuna undir heimsmarkaðsverði. Það tókst ekki vel þegar við ætluðum að skipta við Bretana hérna um árið. En hvað segir hann sjálfur um samkeppnina á milli olíufélaganna ef það yrði upp tekið?

Ég vil vekja athygli á því að menn ættu að lesa grg. því að hún er fróðleg. Með leyfi forseta, hér stendur fyrir neðan miðja síðu:

„Innflutningsfrelsi er langafdrifaríkasti þátturinn í því að auka frjálsræði og samkeppni í þessum viðskiptum. Án slíks frelsis verður nánast ekki um neina samkeppni að ræða, hvað annað sem gert væri. Jafnframt er ljóst að hagkvæmni í innkaupum ræður úrslitum um raunverulegan árangur í verðlækkun á olíuvörum. Allar aðrar aðgerðir eru nánast hégómi og fálm, svo lítilvægar sem þær eru í samanburði við innkaupsverðið.“

Það hefur verið undirstrikað af ráðherra að við fáum olíuna á heimsmarkaðsverði sem er aðalatriðið. Allar aðrar aðgerðir eru hégómafálm að dómi flm. till. Ég er ekki alveg með á því hvert menn eru að fara þegar þeir semja grg. sem virðist ganga þvert á þá skoðun sem þeir eru að boða hér í ræðustól, að það stórhækki nánast verðið á olíuvörum innanlands að viðhalda þeim leikreglum sem verið hafa, þegar í sömu grg. stendur að breytingar á slíku séu hégómi og fálm. Þetta er ekki rökrænn málflutningur. Þetta er ekki málflutningur sem er líklegur til að hafa mikil áhrif. Þetta minnir mann á það sem eitt sinn var kveðið: Olíublettir sjást á Héðn. Olíublettir sjást á Héðn, sögðu þeir þá. Nú er okkur boðað að jöfnuðurinn sé svo mikill að allt sé jafnað út á milli olíufélaganna - það skipti engu máli - yfirdráttur hjá einu félagi í banka verði bara jafnaður út á milli þeirra líka.

Ég verð nú að segja eins og er að mér þætti fróðlegt ef upplýst yrði í þessari stöðu hvort skuldir olíufélaganna við bankana eru þá jafnar, hvort þessi jöfnun hefur verið framkvæmd. Eða skyldi það vera að þar væri ástandið dálítið misjafnt eftir því hvernig þeim hefur gengið í samkeppninni innbyrðis?

Ég vil nefnilega halda því fram að það hafi verið hörkusamkeppni á milli olíufélaganna. Hitt er svo annað mál að það aðhald sem skipulagsyfirvöld þessa lands hefðu getað veitt varðandi uppsetningu á bensínstöðvum hefur ekki verið til staðar.

Ég vil taka sérstaklega undir það með hæstv. viðskrh. að ég tel að svona mál eigi að koma til atkvæðagreiðslu í þinginu. Það verður að fá úr því skorið hvort þingheimur vill strika yfir viðskiptin við Rússa, eins og hér er verið að leggja til, til þess að einhverjir geti leikið sér með „kommission“ utan úr heimi. Það er það sem verið er að tala um og ekkert annað. Hún kemst ekki inn í dæmið eins og spilin eru lögð fram. En það væri auðvelt að koma henni við ef hin breytingin væri upp tekin sem hv. 3. þm. Reykn. leggur til.