30.10.1985
Neðri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

9. mál, stjórnarskipunarlög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tel að það frv. sem hér er flutt af hv. þm. Kristínu S. Kvaran sé um margt athyglisvert og verðskuldi athugun af hálfu hv. þingdeildar.

Ég hef íhugað þessi efni nokkuð, sumpart í ljósi eigin reynslu eftir að hafa starfað sem ráðherra og þingmaður um nokkurra ára bil. Ég gæti persónulega tekið undir að slík skipan sem hér er gerð tillaga um væri um margt til bóta, einnig út frá því sjónarmiði sem hv. flm. færir fyrir þessari tillögu sérstaklega, að skilja með skýrum hætti á milli starfa þingmanns sem vinnur að löggjafarstörfum og ráðherra sem handhafa framkvæmdavaldsins.

Ég mæli með því að þetta frv. verði gaumgæft og er reiðubúinn að stuðla að athugun og umræðu um þetta efni í mínum þingflokki, umfram þá sem orðið hefur. Ég vil rifja upp í þessu samhengi að á síðasta áratug - ég hef það ekki nákvæmt en á árabilinu 1971-1978 - flutti Sigurður Blöndal, nú skógræktarstjóri en þá varaþingmaður Alþb., till. til þál. sem varðaði breytingu á stjórnarskrá. Eitt af þeim atriðum sem tiltekin voru þar var einmitt það sem frv. þetta fjallar um, að ráðherrar láti af þingmennsku þann tíma sem þeir gegna ráðherrastarfi. Hugmyndin er því ekki ný og hefur komið hér inn í þingið og ég mun kanna frekar eftir að þetta frv. hefur komið hér til umræðu hverjar undirtektir voru á þeim tíma þannig að hv. þingnefnd, sem fær þetta mál til umræðu, geti athugað það þegar þetta mál verður þar rætt.

Um fjölda þingmanna ætla ég ekki að ræða mikið af þessu tilefni en benda aðeins á að þó að hugmyndir hafi komið í þá átt að fækka þingmönnum hefur hvorki skapast samstaða um það hér á hv. Alþingi né fundist leiðir, mér vitanlega, til að ná fram því markmiði að jafna þingsætum milli flokka í krafti atkvæðafjölda með öðrum hætti en nú liggur fyrir, og raunar voru uppi hugmyndir um að ganga lengra en lögfest hefur verið til að ná þessu markmiði.

Ég nefni hins vegar af þessu tilefni að ég held að mikil ástæða sé til þess að hv. þingdeild, hv. Alþingi, íhugi meira en verið hefur að bæta aðstöðu þingmanna til að gegna skyldum sínum svo sem vert væri. Ég held að einhver talnalegur samanburður við Bandaríkin eða jafnvel Kína sé nokkuð út í hött í sambandi við framreikning eða samlíkingu á fjölda þingmanna eða þeirri aðstöðu sem þeir búa við. Ég held að margt bólgni meira út í stjórnsýslunni og í okkar þjóðfélagi í einkageiranum sem mætti telja þarfminna en það að bæta aðstöðu löggjafarvaldsins, bæði til þess að sinna almennum verkefnum til lagasetningar en einnig til eftirlits með framkvæmdavaldinu. Þetta nefni ég hér af tilefni frv. hv. þm., sem ég vænti að fái góða meðferð í þingnefnd og komi hér aftur til umræðu.