04.03.1986
Sameinað þing: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2963 í B-deild Alþingistíðinda. (2480)

269. mál, frelsi í innflutningi á olíuvörum

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykn. hóf ræðu sína á því áðan að vorkenna forstjórum olíufélaganna vegna þess að þeir gætu ekki um frjálst höfuð strokið og gætu ekkert lagfært í sínum rekstri vegna þeirra hafta sem hér ríktu í innflutningi á olíuvörum. Ég get ekki tekið undir þetta með honum. Það er nefnilega svo, eins og ég minntist á fyrir ekki löngu síðan, að ég held að forstjórar olíufélaganna séu þannig settir - þeir eru svo lengi búnir að alast upp í vernduðu umhverfi í þessum málum - að þeir hafi ekki tekist á við að reyna að breyta sínum starfsháttum.

Í fyrra var samþykkt hér breyting á frv. um olíuviðskipti og það var gert lítið úr því hér áðan af hv. þm. að svokallaðir innkaupajöfnunarreikningar, sem væru á vegum hvers einstaks félags, gæfu enga möguleika. Þetta er rangt. Sá gamli innkaupajöfnunarreikningur sem hefur verið við lýði er að verða uppurinn, hann er að komast á núllpunktinn eins og líka átti að ske. Eftir það átti hvert félagið fyrir sig að fá sinn sérstaka innkaupareikning, en það átti að örva þau til að gera hagkvæm innkaup á olíum því að við erum ekki bundin við Rússland nema að 60-70%. Hitt er frjálst.

Talsmenn olíufélaganna kvörtuðu mikið undan því í viðræðum við viðskn. Ed. í fyrra, þegar við kölluðum þá fyrir, að þeir fengju engu um það ráðið hvernig þessi innkaupajöfnunarreikningur færi. Þess vegna voru þeir hlynntir því þá að félögin fengju sjálf sérstaka innkaupajöfnunarreikninga sem þeir gætu sjálfir haft til ráðstöfunar að mestu leyti. Það fólst í því t.d. að ef eitthvert olíufélaganna gerði hagkvæm innkaup á bensíni var það hægðarleikur fyrir þá, og er enn þá að mínu mati, að selja það bensín einni eða tveimur krónum lægra á öllu landinu en þeir gera í dag ef horft er á allt landið. Þeir gætu þetta ef þeir hefðu kapp til að gera það. En þetta hefur ekki komið til enn þá og ég vil leggja áherslu á að því verði hrint sem fyrst í framkvæmd að þeir fái að spreyta sig á þessu frelsi sem er þó takmarkað að þessu leyti. Ég tek undir það með ræðumanni. Þarna er um að ræða 30-40% af olíuvörum sem þeir geta flutt inn algjörlega frjálst og geta einmitt notað það mjög lækkandi verðlag sem nú er orðið hér í Vestur-Evrópu á olíuvörum. Hins vegar held ég að það sé mesti misskilningur að olíuviðskiptin við Rússland séu svo alslæm að þau séu ekkert nema tap fyrir þjóðina. Í þeim felst visst öryggi og þegar við rekjum þróun þeirra mála, eins og hæstv. ráðherra gerði hér áðan, held ég að heildarútkoman þar sé ekki neikvæð fyrir þjóðina í heild. Þá er ég ekki að tala um þau viðskipti sem við eigum við þá að öðru leyti, heldur er heildarverðið á olíunni á þann veg.

Og einu megum við heldur ekki gleyma. Svokallaða svartolíu getum við ekki notað á flotann nema frá Rússlandi. Svo einkennilegt er það. Það var reynt hér og, að ég held, á árunum þegar hv. 3. þm. Reykn. var sjútvrh. fluttum við inn svartolíu frá bæði Noregi og Englandi. Hún var ágæt en hún bara gekk ekki til að nota á dísilvélar. Það varð að vera þessi þunna olía sem kemur frá Rússlandi, sú eina sem við höfum getað notað. Það var bylting þá, á þeim tíma, að nota hana til svartolíubrennslu sem kölluð var. Og það var stórkostlegur bati sem útgerðin fékk af þeim viðskiptum. Hins vegar er hægt að nota hina olíuna í verksmiðjur og annað en í allan flotann hefur ekki verið fundin önnur hentugri olía. Margir urðu að hætta við að brenna svartolíu þegar hin svokölluðu ensku viðskipti voru gerð sem var talað um áðan og ég ætla ekki að mæla bót.

Í þessum olíumálum öllum eigum við margt óunnið. Þar getum við t.d. minnst á svokallað verðjöfnunargjald. Ég hef tölur frá árinu 1984. Þar voru af helstu olíuvörunum 250 millj. sem fóru í þennan póst. Það væri mjög æskilegt ef hv. Alþingi gæti komið sér saman um hvernig það vildi fara á annan veg með þessi mál. Er það ríkjandi skoðun hv. alþm. að olían eigi að vera seld á mismunandi verði um allt land eða eigum við að halda uppi verðjöfnun? Ég held að almenningur sé mjög inni á því. Það er jöfnuður í búsetu að fá þessa vöru á sama verði og einhverju verður að kosta til. Ég vil fá þetta hreint fram hjá flm. þessa frv. Eru þeir að leggja til með þessu að t.d. þessi liður verði felldur niður og olíuvörur seldar á mismunandi verði eftir landshlutum?

Þessi innkaupajöfnunarreikningur er með sömu tölu, að upphæð til, 1984. Hann fær einnig þar inn 250 millj. eða 52 aura á hvern gasolíulítra sem fluttur er inn í landið til þess að jafna sveiflur á milli farma hjá skipunum. Við höfum alltaf fylgt Rotterdam-markaði á olíu í Rússaviðskiptunum og ég held að slíkur samningur sé uppi enn þá. Það má deila á framkvæmd þar, t.d. var því haldið fram hér í umræðunni að þeir vilji ekki senda skip frá sér fullhlaðið fyrr en öruggt sé að kominn sé toppur í markaðinn þennan og þennan daginn. Þetta hlýtur að mega skoða. Ef það er eitthvað sem tortryggni vekur á þessu sviði þá er hægt að gera það. En ég tek það fram að ég lít ekki svo á Rússaviðskiptin að þau séu slík plága fyrir þessa þjóð að við þurfum endilega að snúa af þeim vegi. Ég er það íhaldssamur, hv. þm. Reykn., Kjartan Jóhannsson.

Í fyrsta lagi, öðru lagi og þriðja lagi vil ég ekki að við fórnum þeim viðskiptasamningum sem við höfum við Rússland. Við seldum þar s.l. ár fyrir um 1,8 milljarða og þó að við flytjum þaðan inn vörur fyrir um 2 milljarða þá er þetta allt of stór póstur til að henda honum fyrir róða. Þar horfi ég fyrst og fremst á hina margumtöluðu saltsíld. Það er ekki einn einasti markaður, sem við vitum um í dag, sem mundi borga nema hluta af því verði sem við fáum. Höfum við efni á slíku þegar við erum að reyna allt til að auka okkar útflutningstekjur? Höfum við efni á að slá á slíka viðskiptasamninga og sitja uppi án þess að veiða síld hér heima um ófyrirsjáanlegan tíma? Frystimarkaður á síld tekur því miður á móti allt of litlu. Þess vegna er ég - ég get lýst því yfir - ekki fylgjandi þessu frv. sem hér liggur fyrir.