04.03.1986
Sameinað þing: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2965 í B-deild Alþingistíðinda. (2481)

269. mál, frelsi í innflutningi á olíuvörum

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég hef ekki hugmynd um hvernig viðskiptin við BNOC komu út á sínum tíma, sem hæstv. viðskrh. hefur þulið hér aftur og aftur. En ég ætla að fullyrða meira: Hæstv. viðskrh. hefur heldur ekki hugmynd um það, vegna þess að útreikningar af því tagi sem hann hefur verið að veifa hér eru einskis virði. Rotterdam-markaðurinn sveiflast frá degi til dags. Hvaða dagar eru það sem voru valdir í þessum merkilegu útreikningum um það hvernig BNOC-viðskiptin koma út? Hvaða dagar voru það? Þetta voru allt öðruvísi viðmiðanir heldur en í viðskiptunum við Rússa og þess vegna gjörsamlega ósambærilegt. En í annan stað skal það tekið fram að það var ekki mitt verk að ganga þannig frá þeim samningum sem raun varð á. Það var verk Tómasar Árnasonar, fyrrv. viðskrh. Útreikningar af þessu tagi - og alveg sérstaklega þegar menn geta komið með tölu upp á einseyring eins og hér hefur verið gert - eru svo ótrúverðugir sem nokkur hlutur getur verið og þeim mönnum til vansæmdar sem leyfa sér að reikna með þeim hætti.

Það er kannske ekki nema von að erfitt sé að tala um þessi mál á þessum vettvangi þegar maður verður var við svo mikla vanþekkingu á viðskiptum eins og kom fram í málflutningi hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Hann hefur ekki hugmynd um hvað viðskipti með olíuvörur eru. Hann heldur að það sé skráð á hverjum degi eitthvert ákveðið verð sem sé heimsmarkaðsverð og það hafi allsherjargildi og menn geti aldrei fengið olíuna öðruvísi en akkúrat á þessu verði. Það sé eitthvert allsherjarfyrirkomulag. En í þessari grein eins og mörgum öðrum gera menn viðskipti með margvíslegum hætti. Menn gera t.d. viðskipti fyrir sig fram um það að kaupa á tilteknu verði á tilteknum tíma, sem síðan getur kannske haft áhrif á einhverja skráningu einhvern tíma seinna. En svona gerast nú þessi viðskipti. Það er búið að berja það inn í íslenska þjóð að það sé alveg klárt mál og heilagt þetta Rotterdam-verð og það hljóti að vera það besta og það eina sem til sé í heiminum. En það er della. Það er út í hött þegar hæstv. viðskrh. segir að við séum einfaldlega á heimsmarkaði úr því að við fáum olíuna á þessu Rotterdam-verði og þá sé þetta nú eiginlega allt saman frjálst. Það er út í hött.

Rotterdamverðið sveiflast upp og niður. Ég gerði það að umtalsefni hér um daginn, orðaði það einhvern veginn þannig, að miðað við það hvernig samningar okkar væru við Sovétríkin skyldum við ekki gera ráð fyrir því að fá olíu nokkurn tímann á lægsta verði. Takið þið nú eftir hvernig ég orða þetta: að við skyldum ekki gera ráð fyrir því að fá olíu nokkurn tímann á lægsta verði. Ég hef aldrei sagt að við fengjum olíuna alltaf á hæsta verði eins og fyrirsögnin var í Mogganum daginn eftir. Þetta er einfaldlega vegna þess að við eigum að tilkynna fyrir fram hvað við ætlum að fá mikla olíu í hverjum mánuði, með 45 daga fyrirvara. Sovétmenn hafa síðan ákveðið svigrúm um það hvenær þeir lesta skipin sem koma hingað, 9 daga svigrúm. Það er kannske eðlilegt að þeir hafi svigrúm. En í eðli viðskiptanna liggur að þeir hafa ekki tilhneigingu til að velja þann dag til þess að ljúka lestun sem þeir halda að olíuverðið verði lægst, heldur frekar það sem væri í hærri kantinum á þessu 9 daga tímabili. Það er ekki nema eðlilegt miðað við það hvernig samningurinn er. Og það er á þessum forsendum sem ég sagði að við skyldum ekki búast við því að við fengjum olíuna nokkurn tímann á lægsta verði. Sovétmenn spá auðvitað í markaðinn alveg eins og önnur olíufélög eða alveg eins og aðrir sem eru í þessum viðskiptum. Við erum þeir einu sem höfum afsalað okkur því að spá að nokkru leyti í markaðinn, að reyna nokkuð til þess að kaupa þessa vöru á einhverju ódýrara verði en öðru. Þetta munar kannske ekki alltaf miklu., en getur þó munað verulegu.

Það vill svo til að ég er með í höndunum skrá yfir 22 farma. Í tvö skipti af þessum 22 hittist svo á að verðið er lægsta verð - yfir 6 daga tímabil, ekki 9 daga tímabil. Í öll hin skiptin er verðið til okkar, sem við fáum það á akkúrat daginn sem lestun var lokið, ekki lægsta verð yfir þetta 6 daga tímabil. Mér kemur það ekkert á óvart. Oftast nær munar ekki miklu, en stundum þó nokkru. Þetta tel ég að sé nauðsynlegt að þm. reyni að setja sig inn í áður en þeir eru með sleggjudóma eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson var með hér áðan.

Valdimar Indriðason sagði að forstjórar olíufélaganna hefðu lifað í vernduðu umhverfi. Ég orðaði það kannske svolítið öðruvísi, að jafnvel þó að þeir hefðu viljað reyna eitthvað þá hefðu þeir ekkert getað. Kannske vegna þess að þeir voru svo verndaðir eins og hv. þm. Valdimar Indriðason var að tala um.

Það var fróðlegt að heyra hæstv. viðskrh. tala um að hann vildi ekki sjá frjálst verð á olíu. Hann sagði: Eigum við að afnema verðjöfnun? Ég segi við hæstv. ráðh.: Við getum sett lög um það að hvert olíufélag fyrir sig skuli selja olíuna á sama verði til sömu eða sams konar aðila hvar sem er á landinu. Esso geti fengið að selja á sínu ákveðna verði, BP á sínu verði og þar fram eftir götunum, en það verði að vera sama verð yfir allt landið ef menn vilja hafa sama verð yfir landið allt. Við þurfum ekkert flókið sjóðakerfi til þess. Eina setningu í lögum um það að verð til útgerðar verði að vera það sama hvar sem er á landinu, verð í smásölu verði að vera það sama hvar sem er á landinu. En þá mundi líka vera búið að afnema þetta jöfnunarkerfi sem núna er viðhaft og gengur út á það að ef eitt olíufélagið er með minni dreifingarkostnað en annað þá borgar það með hinu sem hefur meiri dreifingarkostnað. Við mundum líka vera búin að afnema það kerfi sem er á þá lund að ef eitt félag gerir hagkvæm innkaup þá jafnist það yfir á hin. En það athyglisverðasta í þessum afdráttarlausa málflutningi hæstv. viðskrh. er vitaskuld það að hann segir afdráttarlaust að hann vilji ekki að olíufélögin ákveði verðið á olíunni. Hvernig stendur á því að það er svona langtum hættulegra að þau ákveði verðið á olíunni en að kaupmenn ákveði verð á matvælum ofan í okkur, en að þeir sem eru í fataverslun ákveði verð á fötunum, en að það sé frjáls markaður í fasteignaviðskiptum og þar fram eftir götunum. Ef hæstv. ráðh. er svona mikið á móti frelsinu, viðskiptafrelsinu, hvers vegna líður hann þá að það skuli viðgangast í þessum efnum? Ég held að sannleikurinn í málinu sé sá að menn séu svo hræddir. Menn þora ekki að hugsa, menn þora ekki að skoða þetta kerfi sem þeir eru með í höndunum, menn þora ekki að velta því fyrir sér. Menn hlaupa allir í skotgrafir og segja: Ja, það fara áreiðanlega í rúst viðskiptin við Rússa. Þó rökstuddi sami ráðherrann það margvíslega og aftur og aftur að viðskiptin við Rússa hefðu verið mjög hagkvæm. Ef hann hefði verið sjálfum sér samkvæmur þá óttaðist hann ekki nokkurn skapaðan hlut, úr því að viðskiptin eru svona hagkvæm, að þau séu í nokkurri hættu þótt aukið væri frelsi í þeim viðskiptum.

Ég held okkur væri hollt að fara ofan í þetta kerfi. Það þýðir ekkert að tala um að það eigi að vera strangara aðhald með olíufélögunum vegna þess að ekki er hægt að framkvæma það aðhald, það er ekki nokkur lifandi vegur. (Gripið fram í: Jú, jú.) Það er búið að reyna það, hver ríkisstjórnin á fætur annarri, viðskrh. úr öllum flokkum og við horfum nákvæmlega upp á það sama: Ef kerfið er rangt, ef kerfið er hvatning til þess að vera með óhagkvæmni, þá fáum við það og þá verður óhagkvæmni.

Herra forseti. Það væri sjálfsagt hægt að ræða þetta í mörgum fleiri greinum, en ég vil einungis að lokum vitna í formann Sjálfstfl., hæstv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson. Hann er ekki svona afdráttarlaus andstæðingur frelsis í þessum efnum og ég mundi vel geta hugsað mér að fara eitthvað svipaða leið og hv. formaður Sjálfstfl. er að tala um. Hann telur að það komi til álita, a.m.k. ef frelsi í innflutningi olíuvara verði aukið - og ég er að vitna í Morgunblaðið 20. febrúar 1986 - að slíkur innflutningur yrði háður ákveðnum kröfum. T.d. mætti áskilja það að innflutningsaðilar keyptu olíu frá tilteknum aðilum, t.d. Sovétríkjunum, í ákveðnum hlutföllum við það sem þeir flytja inn með frjálsum hætti. Þetta væri náttúrlega leið til þess að koma meiri sveigju í þetta og án þess að menn þyrftu að óttast sérstaklega um þessi viðskipti við Sovétríkin með þeim hætti sem mér skilst að menn a.m.k. prédiki hérna, en ég held algerlega að ástæðulausu, algerlega að óþörfu. Mín skoðun er nefnilega sú að Sovétríkin hafi áhuga á því að vera í viðskiptum við okkur og að þó við hreyfðum okkur eitthvað í þessum málum, þá mundi það einungis hafa þau áhrif að við fengjum hagkvæmari viðskiptasamninga við þá að því er olíukaupin varðar. Að því leytinu líka held ég að þessi ótti manna um olíuviðskiptin við Sovétríkin sé ekki á rökum reistur.