04.03.1986
Sameinað þing: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2975 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

286. mál, úrbætur í ferðaþjónustu

Helgi Seljan:

Herra forseti. Sem meðflm. þarf ég litlu að bæta við ágæta framsögu hv. 1. flm., en sem meðflm. að till. vil ég líka segja fáein orð um hana.

Við þekkjum það mjög í umræðu að það er haft á orði að hér sé um vaxtarbrodd að ræða í okkar atvinnulífi, eitthvað sem sé nýtt og hægt sé virkilega að stóla á í framtíðinni, og ég get tekið undir það. Hins vegar sjáum við þess fá merki að mönnum sé alvara með þessum orðum, þeim sem t.d. ráða fjármálum þjóðarinnar um þessar mundir, og kom glöggt fram í máli hv. 1. flm. hvernig farið er með þann sjóð sem fyrst og fremst á að standa undir fjármögnun þeirra verkefna sem undir þessum vaxtarbroddi í atvinnulífinu ættu að standa. Ferðamálasjóður, sem er lýsandi dæmi um efndir fagurra orða eða hitt þó heldur, er skertur og skorinn niður miskunnarlausar nú en nokkru sinni fyrr.

Ég var á fundi austur á landi nú um helgina. Það kom í ljós á þeim fundi að vaxandi áhugi er fyrir ferðaþjónustu ýmiss konar í sveitum þar. Mönnum þykir sem áhersla sé ekki nægileg á þessi atriði. Þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið gert vel af hálfu Búnaðarfélagsins og þeirra aðila sem þar hafa komið að verki þykir mönnum sem þar sé ekki nógu vel að verki staðið. Menn þurfa vitanlega í ýmsum tilfellum að breyta og bæta sína aðstöðu, en fá ekki til þess fjármagn. Þeim er vísað á tóman Ferðamálasjóð í þessu efni. Verður oft lítið úr framkvæmdum þegar ekki fæst sæmilega hagstætt lánsfjármagn til að skapa þá aðstöðu sem er nauðsynleg til að taka á móti gestum yfir ferðamannatímann. Þetta er þó vaxandi í sveitum sem betur fer og víða tekið myndarlega á þessu, en ég hygg að aðstoðin sem menn hafa fengið varðandi þetta hafi þó verið í allra tæpasta lagi.

Aðalerindi mitt upp í þennan ræðustól var að minna á till. sem ég hef ásamt nokkrum öðrum flutt nokkrum sinnum um sérstakar aðgerðir varðandi gistiþjónustu á landsbyggðinni þar sem reynt er að halda uppi þjónustu allt árið en í raun og veru eru engin skilyrði fyrir hendi til að gera það nema rétt um aðalferðamannatímann. Þó er engu að síður nauðsynlegt vegna vetrarferða innanlands að það sé einhver staður í hverju meðalstóru byggðarlagi sem menn geta leitað til með veitingar og gistingu. En þetta er mjög erfitt og við þekkjum þess dæmi að austan þar sem erfiðleikar eru miklir á því að halda uppi allt árið slíkri þjónustu. Gott dæmi um það er t.d. Vopnafjörður. Það er býsna erfitt að halda uppi þjónustu allt árið og sveitarfélagið hefur þar þurft að hlaupa undir bagga til að það væri unnt að gera. Kannske er sjálfsagt að sveitarfélögin geri það en þar þyrftu fleiri að koma við sögu til þess að tryggja að sú aðstæða væri fyrir hendi allt árið sem allra víðast þar sem nauðsyn krefur.

Þessi tillaga fékk góðar undirtektir hér í þinginu en hún náði ekki samþykki. En ég held að einmitt vegna vetrarferða hér innanlands á mörgum afskekktum stöðum, sem eru illa settir í þeim efnum, sé nauðsynlegt að huga að þessu máli alveg sérstaklega. Það þarf ekki að taka það fram í framhaldi af þessari ágætu framsöguræðu, sem hér var flutt af hv. 1. flm., að það þarf átak hér víða. Við þurfum að huga að náttúruverndarsjónarmiðum varðandi alla ferðaþjónustu okkar. Á það legg ég ríka áherslu og hef alltaf gert í öllum umræðum um ferðamál. Við verðum kannske fyrst og fremst að líta til náttúruverndarsjónarmiðanna þegar við erum að huga að þessum málum. Inn á það kom hv. 1. flm. vel hér áðan og ég ítreka það enn frekar.

En til þess að þetta átak verði gert, sem við erum hér að fara fram á, þarf hagstætt lánsfjármagn. Án þess verður ekkert gert nema á þessu aðalmarkaðssvæði hér á höfuðborgarsvæðinu, enda er hér býsna góð hreyfing á þessum málum og hefur verið því að þar er markaðurinn það mikill að það er möguleiki á þeim veltihraða sem dugar til þess að menn geti komið upp þessari aðstöðu. En úti á landi er slíku ekki til að dreifa.

Í þessari till. erum við sem sagt fyrst og fremst að huga að landsbyggðinni umfram allt annað. Það skiptir mestu máli að á því verki sé tekið sem víðast og ekki hvað síst í sveitunum miðað við þá aðstöðu sem þar er víða og miðað við þær aðstæður sem nú eru í íslenskum landbúnaði. Þar sem sífellt er verið að tala um að renna fleiri stoðum undir möguleika manna til að þurfa ekki að flýja sveitirnar, þá er ferðaþjónustan einmitt gildur þáttur þess að menn geti haldið áfram að búa þar sæmilegu lífi.