30.10.1985
Neðri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

9. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær undirtektir sem þetta frv. hefur fengið hér í hv. þingdeild. Ég verð að segja að það hefði verið gott að heyra álit einhverra af þeim ráðherrum sem nú gegna embætti á því.

Komið hefur fram hjá þeim tveimur hv. þm. sem tekið hafa til máls að þessi hugmynd er ekki ný af nálinni. Ég vissi ekki að hún væri eldri en frá því í fyrra að hún var flutt þá af hálfu BJ, en það er ágætt að geta rifjað það upp og athugað hver hafa orðið viðbrögð við hugmyndinni þá.

Í tengslum við það að þingmannafjöldi mundi eðlilega við óbreyttar aðstæður verða mun meiri skv. frv., ef það næðist fram, sýnist mér að það yrði aðallega húsnæðisskortur sem mundi hamla því. En skv. frv. er ekki um fjölgun þingmanna að ræða - það verða menn að athuga - vegna þess að vorir hæstv. ráðherrar eiga jú að heita þingmenn meðfram og eru það. Þannig að það er algerlega misskilningur að hér sé um að ræða fjölgun þingmanna. Ég er sjálf mjög andvíg þeirri hugmynd, svo ekki sé meira sagt.

En það er alveg rétt, eins og fram hefur komið, að það er bráðnauðsynlegt að gera aðrar breytingar á stjórnarskránni og mun róttækari en þessa, svo sem á kosningalögunum, og þar var nefnt til stjórnlagaþing. Ég vil minna á hugmynd okkar í BJ frá í fyrra um þjóðfund sem við höfum lagt til að geti fjallað um nýja stjórnarskrá.