04.03.1986
Sameinað þing: 55. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2979 í B-deild Alþingistíðinda. (2491)

286. mál, úrbætur í ferðaþjónustu

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka þeim sem tekið hafa þátt í þessari umræðu fyrir þeirra orð.

Hv. 2. þm. Austurl. minntist á till. sína um sérstakar aðgerðir vegna gistiþjónustu. Ég vil taka undir það og sömuleiðis orð hans um náttúruverndarsjónarmið.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. nefndi orðaskipti okkar á s.l. ári og að mér mundi hafa sárnað þau orðaskipti sem okkur fóru á milli bæði í þingsölum og í blöðum. Ég ber það nú af mér, mér sárnaði ekki, ég fagnaði einmitt tækifærinu sem ég fékk til að ræða þessi mál og leiðrétta það sem fram kom í grein hv. þm.

Hann minntist á lengingu ferðamannatímans og að hann væri ekki viss um að unnt væri að lengja ferðamannatímann. Ég tel hins vegar ómaksins vert að kanna það og mundi ekki halda að óreyndu að það væri ekki hægt. Ég minni á möguleika okkar til að byggja upp aðstöðu til vetraríþrótta. Ég held að töluvert mikið sé óreynt á því sviði.

Hann minntist enn fremur á annan þátt þessara mála sem er mér einnig mikið áhugaefni og ég tek mjög eindregið undir orð hans um það. Það er í sambandi við menntun og þjálfun starfsfólks. Þann þátt minntumst við einmitt á í grg. með tillögu okkar í fyrra og ég var satt að segja harðákveðin í því að smíða einhverja till. um það efni og leggja fram nú á þessu þingi. Ég er ekki alveg viss um hvort verður af því nú. Ég hef verið að kanna þetta töluvert að undanförnu og ég veit að verið er að ræða þessi mál í ráðuneytinu. Ég hef því vissa von um að nægur áhugi sé fyrir undirbúningi þess.

Hins vegar kom hv. 5. þm. Norðurl. e. með ágæta hugmynd um að nýta húsmæðraskólana í þessu skyni. Ég hafði reyndar ímyndað mér að menntunarþættinum yrðu gerð verðug og góð skil í Hótel- og veitingaskólanum sem áformað er að rísi í Kópavogi og búið að gera samning um þau mál, en vantar fjármagn til, eins og til ýmissa annarar mála. Hefur því miður dregist allt of lengi að framkvæma vilja manna í þeim efnum. Þessi mál eru til umræðu í nefnd sem fjallar um þau. Sú vinna er ekki komin lengra en það að ég get ekki skýrt frá því neitt frekar.

Ég held reyndar að það sé ekki nóg að bjóða upp á sérhæfðar leiðir í einum skóla. Ég held að þessu verði að sinna miklu meira og víðar á landinu og hafði ímyndað mér að hægt væri að koma upp menntunarbraut við fjölbrautaskóla t.d. Þetta vildi ég gjarnan ræða miklu frekar og vonandi gefst tækifæri til þess síðar. Þetta er ein af undirstöðum þess að við getum sinnt þessari atvinnugrein af alvöru.

Ég þakka enn fremur hv. 2. þm. Vestf. fyrir hans orð og tek eindregið undir það að efling eftirlits er mikið mál og þá ekki síður að stórefla Ferðamálasjóð. Það var reyndar eitt meginefni till. okkar á síðasta þingi.

Ég átti þátt í því að fjalla töluvert um lögin sem sett voru um skipulag ferðamála á síðasta þingi. Ég á sæti í samgn. Nd. og við fjölluðum mikið og lengi um þessi mál þar. Þar kom fram mjög mikill vilji til að gera þau þannig úr garði að um eðlilega uppbyggingu yrði að ræða úti um landið og enn fremur að fjármagn væri tryggt til þeirra hluta.

Eins og þm. mun vera kunnugt þá hefur lengi verið í gildi ákvæði um fjármögnun ferðamálaráðs og Ferðamálasjóðs. Fyrir nokkrum árum var sett ákvæði í lögin um að ferðamálaráð fengi 10% af árlegri vörusölu Fríhafnarinnar í Keflavík. Þegar þetta ákvæði var sett á sínum tíma var um leið lagt 10% gjald ofan á áfengi og tóbak í Fríhöfninni.

En löggjöf er eitt og framkvæmd annað og það verður því miður að segjast eins og er að þetta hefur ekki gengið eftir. Við nm. reyndum eftir megni að tryggja virkara flæði fjármagns til ferðamálaráðs, m.a. með því að lögbinda það að Fríhöfnin greiddi þetta gjald beint til ferðamálaráðs af sölu hvers mánaðar og það félli í gjalddaga ekki síðar en 15 dögum eftir lok mánaðarins. Þetta hefur allt komið fyrir heldur lítið. Þessi upphæð, sem ferðamálaráði bæri að fá nú á þessu ári, er talin munu nema rúmum 40 millj. kr. í ár en ráðinu eru skammtaðar rúmar 19 millj.

Það er kannske athyglisvert í þessu sambandi að þessi upphæð er eitthvað nálægt 15% af áætluðum tekjum ríkissjóðs af brottfararskattinum alræmda sem hv. 2. þm. Vestf. minntist á áðan, aðeins sem sagt þessum eina tekjulið ríkisvaldsins af ferðaþjónustu. Þessi skattur var, eins og mönnum er kunnugt, nýlega hækkaður um 200%.

Samkvæmt upplýsingum ferðamálaráðs hefur þessi síendurtekni niðurskurður valdið því að mjög verður dregið úr kynningu og sölustarfi erlendis á vegum ráðsins. En fyrst og fremst mun þessi niðurskurður koma niður á verkefnum innanlands. Það verður nánast engu varið til að bæta aðstöðu ferðamanna hérlendis á þessu ári, svo sem til tjaldsvæða, salerna eða göngustíga.

Ég átti kannske von á því að við yrðum gagnrýnd, flm., fyrir að ætla ríkissjóði að standa straum af framkvæmd þessarar tillögu. Sú gagnrýni hefur ekki heyrst, mér til ánægju. Í raun og veru má segja að þetta sé hlutverk ferðamálaráðs. Í 7. gr. laga um skipulag ferðamála eru talin upp verkefni ferðamálaráðs og þar heitir einmitt fyrsti liðurinn „Skipulagning og áætlanagerð um íslensk ferðámál“. Hins vegar, miðað við þá útreið sem ferðamálaráð og Ferðamálasjóður hafa fengið hjá ríkisvaldinu, held ég að mætti líta á framkvæmd þessarar tillögu sem eins konar syndakvittun.