05.03.1986
Efri deild: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2983 í B-deild Alþingistíðinda. (2497)

302. mál, veð

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegur forseti. Ég vil út af þessum fsp. hv. 5. þm. Vesturl. taka það fram að við töldum ekki rétt að setja ákveðinn lánstíma inn í lög. Hérna er fyrst og fremst verið að taka af öll tvímæli um að eldisfiskur er veðhæfur eins og fiskur sem hefur verið dreginn úr sjó og er í fiskverkunarstöðvum annaðhvort fullunninn eða að einhverju leyti unninn. Þetta er gert til að tryggja eðlilegan viðgang þessarar ungu atvinnugreinar og upprennandi.

Ég tel sjálfsagt að lánastofnanir skapi fyllri reglur um þessi útlán og fylgi þeim eftir. Ég tel líka eðlilegt að lánastofnun geri það að skilyrði að eigendur eldisfiskjar tryggi þessar afurðir sínar því að ef eitthvað kemur fyrir, sem alltaf getur átt sér stað, verða bankar að hafa þar einhverja tryggingu.

En þetta er að mínum dómi óþarfi að setja í lög. Þetta eru reglur sem hægt er að skapa og er sjálfsagt að skapa, enda er slík trygging ekki nema af því góða fyrir alla aðila. Það verður aldrei lánað að fullu og öllu út á þessa afurð. Eigendur koma því alltaf til með að hætta mjög miklu sjálfir svo að eðlilegt er að slík trygging sé tekin. Eftir því sem maður hefur fregnað og séð eru þessar tryggingar nú boðnar með mjög skaplegum hætti að ég tel. En framhald þeirrar tryggingastarfsemi ræðst af því hversu víðtæk og mikil tjónin verða. Ef þau verða lítil verða iðgjöldin lág. Hins vegar vitum við að tryggingafélögin eru ekki rekin sem góðgerðastofnanir heldur til að standa fyrir þeim tryggingum sem hjá þeim eru teknar.

En ég tel að með þessu frv. sé verið að taka af öll tvímæli um að lánastofnanir eigi að lána út á þessar afurðir eins og aðrar.