16.10.1985
Sameinað þing: 3. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

Tilkynning frá forsætisráðherra um breytingar á ríkisstjórninni

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það var í maímánuði 1983 að loknum kosningum sem Framsfl. átti völ á því að reyna myndun vinstristjórnar eða taka saman við leiftursóknaröflin í Sjálfstfl. Formaður Framsfl. valdi þá óhikað leiftursóknina sem hann snéri baki við haustið 1979. En á þeim tíma, sem síðan var liðinn, hafði Sjálfstfl. sótt í sig veðrið undir forustu Verslunarráðs Íslands sem á orðið hjartað á þeim bæ. Í febrúar 1983 lagði Verslunarráðið undir forustu Ragnars Halldórssonar forstjóra ÍSALs fram drög að efnahagsáætlun sem gefin var út í maí 1983 undir heitinu „Frá orðum til athafna - áætlun um alhliða aðgerðir í efnahagsmálum“. Í ávarpi, sem fylgdi þessu plaggi Verslunarráðsins í maí 1983, sagði formaður þess m.a., með leyfi forseta:

„Ráðið hefur lagt áherslu á málefnalega vinnu sem nýst gæti við stefnumótun og ákvarðanir í efnahags- og viðskiptamálum. Það er því fagnaðarefni hversu góðar undirtektir þessi áætlun Verslunarráðsins hefur hlotið áður en hún birtist í endanlegri mynd. Þess gætti þegar í kosningastefnuskrám stjórnmálaflokkanna og í umræðum um efnahagsmál eftir kosningar hafa æ fleiri orðið til að taka í sama streng.“

Í inngangi að þessu plaggi, „Frá orðum til athafna“, segir:

„Reynslan hefur sýnt að innan frjáls markaðskerfis nást þessi markmið best. Þá nýtist frumkvæði, hugkvæmni og atorka einstaklinganna sem fá að njóta eigin verka og bera jafnframt ábyrgð gerða sinna.“

Og enn segir þar: „Íslensk stjórnvöld hafa brugðist í því að veita atvinnulífinu hagstæð starfsskilyrði svo sem frjálsræði, virka samkeppni og hóflega skattlagningu. Stjórnvöld hér hafa farið út fyrir verksvið sitt með þátttöku í atvinnurekstri, pólitískri stýringu fjármagns og afskiptum af framkvæmdaatriðum og ákvörðunum sem eiga að vera í höndum fyrirtækja og einstaklinga.“

Í þessari áætlun, sem nánar er útfærð, er krafist m.a. frjáls markaðshagkerfis, að verðmyndun verði gefin frjáls, að gildi frjáls sparnaðar, eins og það er kallað, í þágu arðbærs rekstrar og fjárfestinga verði endurvakið með frjálsri ákvörðun vaxta, að fríverslun verði óskoruð stefna okkar í utanríkisviðskiptum, að mennta-, heilbrigðis- og tryggingamál verði fjármögnuð þannig að einkaaðilar eigi þess kost að veita þjónustu á þessum sviðum til jafns við opinbera aðila.

Þetta er aðeins brot úr því sem segir í kverinu „Frá orðum til athafna“ en þar segir einnig: „Skiptar skoðanir eru á því hvort sé vænlegra til árangurs að ná verðbólgunni niður stig af stigi eða á tiltölulega stuttum tíma með samræmdu átaki. Hér greinir þá t.d. á, nóbelsverðlaunahafana í hagfræði, Milton Friedman og Friedrich Hayek, en Friedman vill ná verðbólgunni niður jafnt og þétt á lengri tíma en Hayek telur reynsluna sýna að markvissar aðgerðir, sem er ætlað að skila árangri á skömmum tíma, reynist betur.“

Það er undir þetta sem Verslunarráðið tekur, leiftursóknina í endurnýjaðri mynd frá 1979. Það er þessi hugmyndafræði sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar lagði upp með í maí 1983 og til viðbótar komu lögbannsaðgerðirnar gagnvart öllum kjarasamningum sem Framsfl. lagði í púkkið og bann við öllum verðbótum á laun um tveggja ára skeið. Með myndun ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar urðu vissulega þáttaskil í stjórnmálum á Íslandi, þar sem í fyrsta sinn var skrifað upp á alræði markaðsaflanna um leið og félagafrelsi í landinu var afnumið um skeið gagnvart verkalýðshreyfingunni.

Það var nýtt að þetta kalda kerfi gróðans næði yfirhöndinni í Sjálfstfl. og Framsfl. beygði sig fyrir því auðmjúklega. Allt skyldi verða frjálst og laga sig að lögmálum markaðarins, verðlag, vextir og vísitölur, nema vísitala launa. Launin ein skyldu bundin, þ.e. tekjur heimilanna hjá launafólki, og gengi íslensku krónunnar og þannig tekjur útflutningsatvinnuveganna með sjávarútveginn í fararbroddi. Það varð kauplækkun um fjórðung hjá þorra launafólks sem átti að leysa allan vandann, verðbólgu og viðskiptahalla, og hleypa lífi í hagvöxt og nýsköpun í atvinnulífi. Til viðbótar voru svo skattar lækkaðir til muna á fyrirtækjum og fluttir yfir á launamenn.

Reynslan af þessu gangverki frjálshyggjunnar liggur nú fyrir þegar kjörtímabil ríkisstj. er vel hálfnað. Þrátt fyrir gífurlegar fórnir launafólks er verðbólga á bilinu 30-40% og verðlagsþróun síðustu mánaða hefur sprengt allar viðmiðanir kjarasamninga. Hagvöxtur fer minnkandi milli ára, viðskiptahalli er verulegur og erlend skuldasöfnun hefur farið vaxandi.

Mánaðarlaunin, sem fólki er ætlað að lifa af skv. kjarasamningum, t.d. hjá verkamönnum skv. algengustu töxtum verkamanna hjá Dagsbrún, eru á bilinu frá 16 500-16 800 fyrsta starfsárið en ca. 18 500-20 300 eftir 15 ára starf miðað við 17. 21. launaflokk. Hjá opinberum starfsmönnum eru byrjunarlaun skrifstofufólks um 22 300 og komast í tæp 27 800 eftir 9 ára starf. Byrjunarlaun grunnskólakennara eru nú eftir launaflokkstilfærslu 24 347 og ná að hámarki rúmum 33 þús. kr. miðað við hæsta starfsaldur. Þetta er jafnframt fólkið sem ber hæstu skattbyrðarnar á sama tíma og skattrannsóknarstjóri upplýsir að við bókhaldsúttekt hjá yfir 400 fyrirtækjum reynast 65% vera með bókhald sitt í ólestri.

Launakjör kvenna eru hvar sem litið er á á eftir launum karla og er það tilfinnanlegast í fiskvinnslu og í verksmiðjuiðnaði þar sem bónusstrit bætist við einhæf og oft óþrifaleg störf. Fiskvinnslustöðvar allt í kringum land eru víða aðeins hálfmannaðar vegna lágra launa og bágra vinnuaðstæðna. Þetta leiðir af sér stórfellt tap í útflutningsverðmætum og fyrir einstök fyrirtæki. Láglaunastefna, sem ríkisstj. og atvinnurekendavaldið að baki hennar hefur knúið fram og rígheldur í, er eitt helsta efnahagsvandamálið á Íslandi.

En það eru ekki allir felldir inn í þann ramma sem kunnugt er. Býsna stór hópur í þjóðfélaginu hefur ekki búið við þær takmarkanir í kjaramálum sem hér hefur verið lýst og lúxusinn hefur farið vaxandi í mörgum ranni og tekur á sig næsta ótrúlegar myndir.

Við erum hér viðstödd vantraust á ráðherralið Sjálfstfl., borið fram af þeirra eigin þingflokki og miðstjórn, samþykkt vestur við Breiðafjörð. Þó hafa þeir hver með sínum hætti reynt að framfylgja kröfum Verslunarráðsins og kenningum Hayeks um leiftursókn. Þannig hafa fjmrh. og iðnrh. lagt metnað sinn í að selja hlut ríkisins í fyrirtækjum og orðið þar nokkuð ágengt.

Hæstv. fyrrv. iðnrh., Sverrir Hermannsson, hefur lagt sig í framkróka um að framfylgja orkusölustefnu Sjálfstfl., en með þeim árangri sem alkunnugt er að jafngildir núlli. Slík útsala á íslenskri orku var þó ein fremsta krafa Verslunarráðsins og framkvæmdastjóra ÍSALs.

Samt hefur ráðherrann heimilað Landsvirkjun að halda óhikað áfram virkjanaframkvæmdum, bæði á Þjórsár/Tungnaársvæðinu og síðar við Blöndu. Umframorkugeta Landsvirkjunar nemur því nú framleiðslugetu heillar virkjunar á stærð við Blöndu.

Hins vegar kom hæstv. ráðh. áhugamáli ríkisstj. í verk að koma á því sem kallað var á máli Morgunblaðsins „eðlilegu stjórnmálasambandi við Alusuisse“ með því að veita auðhringnum sakaruppgjöf og semja um raforkuverð langt undir kostnaðarverði og á forsendum sem augljóslega eru brostnar nú aðeins tíu mánuðum eftir samningsgerðina. Hæstv. iðnrh., sem nú tekur við, Albert Guðmundsson, tekur einnig við ófrágengnum skattasamningi sem Alþingi á eftir að taka afstöðu til gagnvart ÍSAL, Alusuisse.

Almenningur í landinu, heimili og atvinnurekstur, axlar áfram byrðarnar af þessum gjörningi viðreisnarinnar á sinni tíð og Sverris Hermannssonar í hærra raforkuverði en þekkist á Norðurlöndum. Svo er reynt að bera í bætifláka með því - eins og lesa má í blöðum í dag - að raunverð á raforku hafi farið lækkandi og sé nú aðeins rúmlega 68% af því sem það var. Hvenær? Við stjórnarskiptin? Nei, í ágústbyrjun 1983. Það er viðmiðunin eftir að sami ráðherra hafði hækkað raforkuverð hjá Landsvirkjun um 56%.

En það eru fleiri en ráðherrar Sjálfstfl. sem ættu að sitja hér undir vantrausti, en þeir hafa ekki séð ástæðu til að þoka sér um set og munu ekki sjá ástæðu til þess svo lengi sem sætt er. Það eru ráðherrar Framsfl. sem undir forsæti Steingríms Hermannssonar ráða mestu um það hvernig komið er á landsbyggðinni á Íslandi, hvaða þróun hefur átt sér stað í byggðum landsins þar sem Íslandsmet var sett í fólksflótta á síðasta ári, þar sem fyrirtæki eftir fyrirtæki riðar á barmi gjaldþrots, þar sem einstök sveitarfélög eiga að axla byrðarnar af þeirri óstjórn sem sjútvrh. Framsfl. hafa staðið fyrir í þessari ríkisstj. og raunar lengra litið til baka. Sama er uppi á teningnum þegar litið er til annarra ráðherra Framsfl., sem halda sínum sætum, hvort sem litið er til landbúnaðarmála eða húsnæðismálanna þar sem mál hafa aldrei verið í slíkum ólestri sem nú og snjóbolti vaxta og verðtryggingar gerir hverju heimilinu á fætur öðru ófært að axla sínar byrðar. Drátturinn, sem stöðugt er á greiðslum frá Húsnæðisstofnun, samhliða vaxtaokrinu er að leggja fjárhag sívaxandi fjölda fjölskyldna í rúst.

En Verslunarráðið ræður áfram ferðinni. Það gefur leiðarvísi frá ári til árs, frá misseri til misseris, um næstu skref til að framfylgt verði þeirra stefnu „næstu skref“ frá því í fyrrasumar. Nú eru þeir hættir að gefa þetta út á íslensku, nú eru þeir farnir að gefa leiðarvísana út á ensku. Þið getið kynnt ykkur það frá ágústmánuði s.l., „The Icelandie Economy, Past Performance and Prospeets“. Þar er að finna leiðarvísinn fyrir þá sem nú hafa skipt um stóla og fyrir þá sem skipa forsæti. Það er stefna Verslunarráðsins sem endurspeglast í því sem formaður Alþb. gat um hér áðan, útlánir, til atvinnulífsins í landinu, til sjávarútvegsins frá ágúst í fyrra til ágústmánaðar á þessu ári nema um 900 millj. kr. á sama tíma og verslunin hefur fengið ekki 900 millj. heldur 2300 millj. kr. Þetta er stefnan í verki. Þetta er frjálshyggjustefnan í verki undir forsæti Verslunarráðsins og þeirra sem lúta veldissprota þess.

Það valdatafl, sem staðið hefur yfir innan Sjálfstfl. um langt skeið og ekki sér fyrir endann á þrátt fyrir stólaskipti, hefur þegar orðið vinnustéttum í landinu og landsbyggðinni sérstaklega dýrkeypt. Niðurlæging Framsfl. bætir þar ekki um því að hans er ábyrgðin á að þessari siglingu er enn haldið áfram undir forsæti Steingríms Hermannssonar. Það er undan klafa þessarar ríkisstj. og frjálshyggjunnar sem þjóðin þarf að losna.