05.03.1986
Neðri deild: 58. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2984 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

295. mál, sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Frv. til laga um sakadóm í ávana- og fíkniefnamálum, sem lagt er fyrir hv. Nd. á þskj. 541, fjallar um sama efni og núgildandi lög um sérstakan dómara og rannsóknadeild í ávana- og fíkniefnamálum nr. 52 frá 1973. Frv. gerir ráð fyrir þeirri meginbreytingu frá lögunum frá 1973 að frumrannsókn þessara mála verði ekki verkefni dómstóla heldur lögreglu, svo sem er um rannsókn almennra brota eftir lagabreytinguna frá 1976, er lögum um meðferð opinberra mála var breytt með lögum nr. 107 frá 1976, og eftir að Rannsóknarlögregla ríkisins var stofnuð með lögum nr. 108 frá 1976. Þykir nú orðið tímabært að færa réttarfar í brotum varðandi ávana- og fíkniefni í sama horf og er í öðrum brotamálum.

Með lögum nr. 52 frá 1973 var stofnaður sérstakur sakadómur til að rannsaka og dæma öll mál er varða ávana- og fíkniefni. Réttarfar í opinberum málum var þá byggt á því að dómari hefði með höndum stjórn frumrannsókna brotamála og rannsóknarlögregla ynni undir hans stjórn.

Lög um sérstakan dómara og rannsóknadeild í ávana- og fíkniefnamálum frá 1973 gera ráð fyrir að í tengslum við dómstólinn starfi sérstök deild lögreglumanna. Þeirri deild hefur aldrei verið komið á fót heldur hefur starfað innan lögreglunnar í Reykjavík sérhæfður hópur lögreglumanna til að vinna að rannsóknum á þessum málum. Hefur hann starfað í nánum tengslum við sakadóminn í ávana- og fíkniefnamálum. Lögregluhópur þessi hefur með tímanum eflst og farið að starfa meira sjálfstætt undir stjórn sérstaks löglærðs fulltrúa lögreglustjórans. Þykir því ekki ástæða til að láta haldast lengur það réttarfar í þessum málum sem byggir á eldra réttarfari sem ekki er notað lengur á höfuðborgarsvæðinu.

Þá er með frv. þessu verið að stytta boðleiðir mála fyrir dómsmeðferð sem ætti að leiða til þess að þau taki skemmri tíma.

Hlutverk dómstólsins verður áfram að dæma í þessum málum án tillits til lögsagnarumdæma. Ábyrgð á lögreglurannsókn í þessum málaflokki verður þá í höndum lögreglustjóranna hvers í sínu umdæmi og mun verða ákveðin með breytingu á reglugerðinni um samvinnu og starfsskiptingu á milli lögreglustjóra og Rannsóknarlögreglu ríkisins, nr. 253/1977, um skipulag þessara rannsókna á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt verður fíkniefnadeild lögreglustjóraembættisins í Reykjavík falið að veita öðrum lögregluembættum aðstoð í þessum málum. Það er því ekki á neinn hátt verið að draga úr löggæslu í ávana- og fíkniefnamálum með þessu frv. heldur þvert á móti stefnt að því að halda áfram að efla hana.

Lögð hefur verið áhersla á að auka samstarf allra þeirra aðila sem að þessum málum vinna. T.d. hefur lögreglumaður sá sem vinnur sérstaklega að þessum málaflokki í Hafnarfirði verið settur undir stjórn deildarinnar í Reykjavík, enda fjarstæða að vera að deila kröftunum niður eftir línum á landakorti. Þeir sem brotlegir gerast á þessu sviði taka líka lítið mark á þeim þar sem í sama brotamáli geta verið menn búsettir í fleiri en einu lögsagnarumdæmi.

Á Suðurnesjum hefur verið aukið við starfslið í þessum málaflokki og áhersla lögð á náið samstarf við Reykjavíkurliðið og verið er að vinna að eflingu lögregluliðsins hér í Reykjavík.

Þörfin fyrir aukna löggæslu á þessu sviði er líka mjög brýn. Það kemur fram í því magni ólöglegra fíkniefna sem reynt er að smygla til landsins og lögreglan leggur hald á. Það kemur einnig fram í neyslu á því efni sem ekki tekst að finna áður en þess er neytt og veldur allt of mörgum Íslendingum óbætanlegu tjóni. Margir koma til meðferðar á sjúkrahúsum. Sumir fá þar einhverja bót, en aðrir falla í valinn fyrir aldur fram. Það skiptir því miklu máli að allt sé gert sem unnt er til að koma í veg fyrir innflutning þessara efna til landsins. En þó að öflug löggæsla og eftirlit sé nauðsynlegt og mjög brýnt verður aldrei hægt að koma algerlega í veg fyrir slíkt á meðan eftirspurn er eftir þessum efnum innanlands svo að einhverjir geti lagst svo lágt að vilja græða á sölu þeirra.

Það er samdóma álit þeirra sem fá fíkniefnaneytendur til meðferðar, bæði lögreglu og lækna, að áfengisneysla sé yfirleitt alltaf undanfari þess að einstaklingar byrji á öðrum vímuefnum. Það segir þá einföldu staðreynd að meðan dómgreindin er óskert sé jafnvel börnum og unglingum ljóst hver voði er á ferðum og byrji því ekki á neyslu. Hins vegar sé það áfengisneyslan sem plægi akurinn og gefi þeim möguleika sem vilja gera sér eymd annarra að gróðalind.

Eina viðunandi og varanlega lausnin er því sú að ráðast að rótum vandans og koma í veg fyrir að eftirspurn skapist. En til þess verða menn að vita og viðurkenna hverjar hinar raunverulegu orsakir eru og vilja af einlægni á sig leggja að uppræta þær. Til þess þarf nægilega sterkt almenningsálit og samtakamátt. Það þarf gerbreytta hugsun, eins og sagði í kvikmyndinni í sjónvarpinu í gærkvöld um voða kjarnorkuvetrar, því að markmiðið verður að vera að gera allt sem unnt er til að afbrot séu ekki framin en ekki að ná í sem flesta til að loka inni í fangelsi.

En á meðan við berum ekki gæfu til að snúast þannig við vandanum verðum við að heyja varnarstríð með öðrum vopnum sem við höfum tiltæk. Það verður að gera allt sem unnt er til að hafa upp á þeim sem falla fyrir freistingum gróðahyggjunnar og flytja eiturefnin til landsins og jafnframt hraða rannsókn þeirra mála og dómsmeðferð eins og kostur er. Það er tilgangur þeirra breytinga sem í þessu frv. felast að stuðla að því.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.