05.03.1986
Neðri deild: 58. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2986 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

Um þingsköp

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að hér á dagskránni eru mörg mái og nú á að fara að slíta fundi. Hér eru 1. dagskrármálið sveitarstjórnarlög sem búin eru að vera á dagskránni í fleiri fundi eftir að 2. umr. lauk og ekki er gengið til atkvæða um það og hæstv. félmrh. er fjarverandi og varamaður er fyrir hann. En það sem ég vildi vekja sérstaka athygli á, herra forseti, er 3. dagskrármálið, lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjóra. Þetta frv. kom fram hér í Nd. fyrir um hálfum mánuði og ekki hefur enn þá verið mælt fyrir því. Hér er um mál að ræða sem mikið hefur verið spurt eftir áður en það kom fram í þinginu og varðar miklu fyrir kennarastéttina sem sýnt hefur þessu máli sérstakan áhuga. Hér er komið fram stjfrv. fyrir hálfum mánuði, en síðan liggur það hér í deild og ekki er mælt fyrir því þannig að það kemst ekki til nefndar. Ég spyr forseta að því hvort ekki sé neinn staðgengill fyrir menntmrh. sem gæti mælt fyrir þessu máli þannig að því þokaði fram því að ég vildi gjarnan stuðla að því að þetta mál fengi þinglega meðferð og á sæti í menntmn., en við höfum ekki fengið málið til meðferðar og ekki til umræðu hér í deildinni.

Mér finnast það vera heldur slæleg vinnubrögð af hálfu ríkisstj. að sjá ekki til þess að mælt sé fyrir málum því að hér hlýtur að vera staðgengill menntmrh.