05.03.1986
Neðri deild: 58. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2987 í B-deild Alþingistíðinda. (2505)

Um þingsköp

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. og menntmrh. fyrir upplýsingar hans. Mér finnst það bera vott um að ekki séu ýkja sterk tök á stjórnarheimilinu að ekki skuli séð til þess að þingstörf geti gengið eðlilega fyrir sig þó að ráðherrar bregði sér úr landi. Þeir eru nú raunar átta talsins erlendis, eða sjö eftir að hæstv. fjmrh. sneri til baka, en engu að síður eru staðgenglar fyrir hæstv. ráðherra og það er auðvitað ámælisvert að þeir geri ekki ráðstafanir til þess að hægt sé að þoka málum fram sem þeir hafa lagt fyrir þingdeildina. Ég átel þessi vinnubrögð. Þetta hlýtur að bitna á meðferð mála hér því að það hefur verið boðað að þingið starfi skemur en oft hefur verið og því ekki allt of mikill tími til stefnu.

Ég veit að hæstv. forseti getur ekki ráðið hér bót á þegar það er upplýst að viðkomandi ráðherrar hafa ekki gert gangskör að því að málin verði lögð fyrir þingdeildina eða fyrir þeim sé mælt hér í deildinni.