30.10.1985
Neðri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

12. mál, almannatryggingar

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. á þskj. 12, tólfta máli þingsins, sem varðar almannatryggingarnar. Eins og kunnugt er er það svo að ferðakostnaður vegna læknisvitjunar eða sérstakrar meðferðar er greiddur þeim sem fara lengri vegalengd en 15 kílómetra til þess að njóta slíkrar þjónustu. Sé hins vegar um að ræða styttri för er engin greiðsla. Þetta getur leitt til mikils óréttlætis. Það sér hver maður að ef fara þarf mjög margar ferðir, þótt hver þeirra sé stutt, getur orðið af þessu umtalsverður kostnaður.

Ég kann dæmi um aðila sem bjó í tæplega 13 km fjarlægð frá þeim stað þar sem hann átti að njóta læknisþjónustunnar; hann þurfti að fara yfir 100 ferðir og kostnaður hans var á annan tug þúsunda. En vegna þess að hver ferð taldist skemmri en 15 km naut hann einskis þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá Tryggingastofnun ríkisins til að fallast á einhverja þátttöku í kostnaðinum. Á sama tíma fá menn greitt fyllilega ef vegalengdin er 16 km, 17, eða hvað það nú er.

Mér sýnist að um slíkt óréttlæti sé að ræða að það geti ekki fengið að standa óhaggað. Þess vegna flyt ég till. um að þegar um mjög ítrekaðar ferðir er að ræða skuli ferðakostnaður greiddur þótt vegalengdin sem farin er í hverja meðferð sé skemmri en 15 km en set jafnframt það skilyrði að ferðirnar séu fleiri en 30 á 12 mánaða tímabili.

Sá aðili sem ég vitnaði til áðan fór samtals yfir 2000 km í sérstaka þjálfun sem var nauðsynleg og hluti af læknisaðgerðinni en naut í engu styrks frá hinu opinbera á sama tíma og aðili sem fór eina ferð sem var meira en 15 km fékk styrk úr almannatryggingunum.

Vafalaust má deila um hver mörkin skuli vera að því er varðar fjölda ferða á 12 mánaða tímabili. Það má líka sjálfsagt leiða að því rök að kostnaðarhlutdeildin fyrir hverja ferð geti verið einhver önnur en hér er gert ráð fyrir. En mér sýnist að hún eigi ekki að vera síðri en hjá þeim sem fara um eilítið lengri veg í hverri ferð þegar ferðirnar verða svo margar sem raun ber vitni.

Ég hef áður, herra forseti, reifað þetta mál nokkuð á þessum vettvangi og skal því ekki gera það frekar. En um það átakanlega dæmi sem ég vitna hér til vitna ég til greinargerðarinnar. Það varðaði reyndar það að í sundur fór hönd á stúlku sem þurfti að setja saman. Það voru margar aðgerðir sem því fylgdu. En milli aðgerðanna var nauðsynlegt að hún færi í þjálfun, annars var næsta skrefið, næsta aðgerð þar á eftir, ekki möguleg. Hér var því ótvírætt um það að ræða að þjálfunin var hluti af læknisaðgerðinni. Aðgerðin tókst vel í heild sinni en kostnaðurinn var tilfinnanlegur fyrir stúlkuna.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn. þessarar deildar.