06.03.1986
Sameinað þing: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3001 í B-deild Alþingistíðinda. (2518)

Framkvæmd verðlagseftirlits

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs í framhaldi af þeim kjarasamningum, sem gerðir hafa verið og staðfestir í allmörgum verkalýðsfélögum, og af þeim yfirlýsingum sem gefnar hafa verið í tengsl um við kjarasamningana um verðlagsmál.

Í yfirlýsingunum kemur fram að aðhald í verðlagsmálum er ein grundvallarforsenda þess að þessir kjarasamningar og kaupmáttur þeirra standist. Gert er ráð fyrir því í 7. gr. kjarasamninganna að kaup komi til endurskoðunar ef verðlag, framfærsluvísitala, fer á bilinu frá 1. janúar til 1. maí fram yfir 2,5% í hækkun, á bilinu 1. janúar til 1. ágúst fram yfir 4,4% og á bilinu 1. janúar til 1. nóvember fram yfir 6,1%. Hér er bersýnilega um mjög ströng mörk að ræða og í bréfi aðila vinnumarkaðarins til ríkisstj. 26. febr. s.l. segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnin feli Verðlagsstofnun að stórauka verðgæslu og verðkannanir til þess að sem best megi fylgjast með þróun verðlags á sem flestum sviðum. Markmiðið með slíku er að auka upplýsingar um verðlagsmál, veita aðhald við verðákvörðunum og efla verðskyn almennings.

Verðlagsstofnun hafi náið samráð við aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd málsins, sbr. yfirlýsingar aðila um aðhald í verðlagsmálum.“

Og í framhaldi af þessu bréfi Alþýðusambands Íslands, Vinnumálasambands samvinnufélaganna og Vinnuveitendasambandsins sendi ríkisstjórnin svar daginn eftir, þann 27. febrúar s.l., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnin telur að með þeim kjarasamningum, sem nú er verið að gera og aðgerðum sem hún hyggst beita sér fyrir, hafi náðst mikilsverð samstaða um átak til að snúa þróun verðlagsmála til betri vegar.“

Það er því alveg augljóst mál að auk þess sem samningarnir gerðu ráð fyrir niðurfærslu verðlags um 4,2% í framfærsluvísitölu þá byggjast samningarnir og kaupmáttarforsendur þeirra á því að fylgt verði mjög strangri aðhaldsstefnu í öllum verðlagsmálum á þessu ári. Nú hefur það hins vegar gerst frá því að þessir kjarasamningar voru undirritaðir - enda þótt samningarnir hafi ekki verið staðfestir í öllum verkalýðsfélögum og heldur ekki hjá BSRB - að birst hafa fréttir í blöðum um verulegar og tilfinnanlegar hækkanir á ákveðnum þáttum þjónustu. Í þeim efnum vil ég fyrst nefna húsaleiguhækkun Reykjavíkurborgar um 67% sem er augljóst brot á anda þess samkomulags sem gert var milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar. Í öðru lagi vil ég nefna fréttir um 60-70% hækkun á ýmsum þjónustugjöldum bankanna. Og í þriðja lagi vil ég nefna frétt sem birtist í fjölmiðlum í gær og í dag um verulega hækkun á bifreiðaiðgjöldum tryggingafélaganna.

Mér sýnist augljóst að þessar hækkunarfréttir beri með sér að nauðsynlegt sé að þegar í stað komi það fram frá ríkisstjórninni að fylgst verði með þessum málum og aðilum, sem gera sig seka um hækkanir umfram þau mörk sem reikna má með, verði skipað að taka þær hækkanir tafarlaust til baka. Ef ríkisstjórnin ekki gerir það er hún ekki að uppfylla samningsskilyrði. - Ég vænti þess að þessi bjölluhljómur hafi verið til marks um það að ég hafi senn lokið mínum tíma, eða hvað? (Forseti: Hv. þm. hefur lokið sínum tíma.) Og þess vegna er það herra forseti, sem svo stendur nákvæmlega á að ég ber hér fram fsp. til hæstv. viðskrh. á þessa leið:

Hvernig hyggst ríkisstjórnin standa að því að framkvæma það stranga verðlagsaðhald sem er einn megin hornsteinn nýgerðra kjarasamninga?