06.03.1986
Sameinað þing: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3003 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

Framkvæmd verðlagseftirlits

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þegar er byrjað að fylgjast með því hvernig tollalækkanir skila sér í verði til neytenda. Áður en tollalækkanirnar komu til framkvæmda var tekið upp verð á helstu vörutegundum. Ef lækkanir skila sér ekki með eðlilegum hætti, þ.e. á grundvelli samkeppnishvetjandi aðgerða Verðlagsstofnunar, getur þurft að fylgja þeim eftir tímabundið með beinum afskiptum af verðlagningunni. Samhliða er í undirbúningi hjá Verðlagsstofnun í samráði við aðila vinnumarkaðarins herferð sem felur í sér stóraukna upplýsingamiðlun til eflingar á verðskyni og samkeppni. Seljendum vöru og þjónustu verða send bréf þar sem þeir verða minntir á reglur um verðlagsmál og þeir hvattir til í ljósi breyttra aðstæðna að stuðla að sem lægstu verði. Einnig er gert ráð fyrir hvatningu til neytenda á áberandi stöðum um að fylgjast með verðlagi. Verðkannanir verða örar um land allt og munu aðilar vinnumarkaðarins leggja sitt af mörkum til að fylgja könnunum eftir í sínum byggðarlögum. Leitast verður við að hafa sem best samstarf við fjölmiðla um upplýsingaherferðina. Fjölmiðlar hafa ávallt sýnt þessu málefni áhuga og þess er að vænta að svo verði einnig nú.

Vonir eru bundnar við að með þessum aðgerðum m.a. muni forsendur kjarasamninga standast. Verðlagsstofnun mun stórauka markvissa verðgæslu og komi í ljós að mál þróist með óeðlilegum hætti, sem ekki verður unnt að leysa með samkomulagi, getur þurft að beita beinum verðlagsaðgerðum. Vonandi sýna seljendur þá ábyrgð og sanngirni þannig að ekki þurfi til þess að koma. Félag ísl. iðnrekenda hefur nú nýlega eða strax eftir kjarasamninga ritað félagsmönnum sínum bréf þar sem þeir leggja áherslu á að halda verðlagi á framleiðsluvörum sínum niðri og benda á að það sem þessi atvinnurekstur fær í aðra hönd í lækkun á mörgum rekstrarliðum þýði að það eigi og sé stefna samtakanna að halda verðlagi niðri.

Ég er ekki hér til svara fyrir húsaleiguhækkanir eða hækkanir á tryggingagjöldum bifreiða, en fyrirspyrjandi veit það, sem fyrrv. trmrh., að vátryggingaiðgjöld bifreiða koma ári á eftir og þá er tekið tillit til þess að tryggingaeftirlitið reiknar með hækkunum. Hins vegar gæti slíkt kostað að tryggingafélögin segðu tryggingastarfseminni upp, en ég ætla ekki að fara inn á það hér frekar nú.

En við vitum að margar vörur hafa þegar lækkað í verði og það mikið. Síðast í gær var ákveðið að lækka bensín um 2 krónur lítrann. Í sambandi við fregn um hækkun á ákveðinni þjónustu banka þá skrifaði ég bréf um það þegar í gær, þar sem ég bar þau tilmæli fram að viðkomandi banki hækkaði ekki þessa þjónustu sína. Þó hefur komið í ljós að hann var á eftir öðrum bönkum í hækkun, en ég veit ekkí annað en að við þeim tilmælum verði orðið.

Þessar umræður gefa ekki tilefni til þess að ræða verðlagsmál. Hér er nánast um símskeytastíl að ræða í svörum sem engan veginn er hægt að svara í tæmandi máli. Því læt ég hér staðar numið.