06.03.1986
Sameinað þing: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3004 í B-deild Alþingistíðinda. (2521)

Framkvæmd verðlagseftirlits

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Tíminn er stuttur. Ég vil taka það fram að ætlun mín var ekki að stunda hér einhverjar árásir á hæstv. viðskrh. En í niðurlagi samninga Alþýðusambandsins er bréf frá hæstv. forsrh. þar sem segir: „Þess er vænst að aðrir aðilar í þjóðfélaginu leggi einnig sitt at mörkum og fyrirtæki reyni markvisst að halda aftur af hækkunum verðs á framleiðslu- og söluvörum sínum innanlands og endurskoði til lækkunar verðákvarðanir sem byggst hafa á áætlunum um meiri verðbólgu en nú eru horfur á að verði á næstu mánuðum.“ Þetta segir hæstv. forsrh. og ég endurtek: Ég er síður en svo að brigsla hæstv. iðnrh. að hann sé ekki heill í þessu máli.

En í gærkveldi eftir Dagsbrúnarfund bárust mér harla kynlegar upplýsingar um hin grænu tré ríkisbankanna og þar er nú aldeilis ekki farið að tilmælum forsrh. Það er best að fara hratt yfir sögu. Eftir 1. mars hafa ríkisbankarnir, Samvinnubankinn og Verslunarbankinn sett þær reglur að ef þeir skuldbreyti lánum þá hækki vextir úr 5% í 7%. Tékkhefti kostuðu fyrir 1. mars 65 kr., kosta nú hjá Búnaðar- og Samvinnubanka 140 kr., hjá Landsbanka og Útvegsbanka 110 kr. og hjá Verslunarbanka 120 kr. Vegna ávísana sem fara yfir, umfram heimild, var tekið 150 kr. gjald fyrir hverja ávísun fyrir utan refsivexti. 1. mars var þessu breytt. Landsbankinn og Útvegsbankinn taka 205 kr. á hverja ávísun, Búnaðarbankinn 240 kr., Verslunarbankinn 252 kr., Samvinnubankinn 280 kr. Fyrir að útbúa skuldabréf, sem áður kostaði 208 kr., eru teknar hjá Búnaðarbankanum 368 kr. eftir 1. mars, hjá Samvinnubankanum 408 kr., hjá Landsbanka og Útvegsbanka 352 kr., hjá Verslunarbanka 416 kr., 100% hækkun. Almennir gíróseðlar kostuðu fyrir 1. mars 12 kr., eftir 1. mars 17 kr. Fyrir aðrar tegundir af gíróseðlum, sem kostuðu 17 kr., eru nú greiddar 25 kr. Fyrir önnur skjöl sem bankar útbúa, t.d. veðleyfi, var gjaldið 208 kr., eftir 1. mars 486 kr.

Tími minn leyfir ekki fleiri upplýsingar, en þegar svona er um hin grænu tré, ríkisstofnanir og almenna banka, þá líst mér ekki á ýmsa aðra. Ég treysti hæstv. viðskrh. til að taka nú rösklega til hendi og sýna bönkunum alveg svart á hvítu hver er viðskrh. í þessu landi. Það er beðið eftir hans hlut.