06.03.1986
Sameinað þing: 56. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3008 í B-deild Alþingistíðinda. (2527)

Framkvæmd verðlagseftirlits

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. 7. þm. Reykv. fyrir lesturinn hér á mjög skömmum tíma, en hann virðist vita betur um aðgerðir í bæði ríkisbönkum og einkabönkum en viðskrh. Íslands. Hann hafði ekki hugmynd um þetta fyrr en 7. þm. Reykv. las það upp. Þar af leiðandi hefur viðskrh. ekki tækifæri til að blanda sér í mál sem hann veit ekki um. Ég spurði í viðskrn. í hádeginu í dag hvort þeir vissu um nokkrar slíkar hækkanir og þar var mér svarað því til að þeir vissu ekki um neitt annað en hækkun á tékkhefti í einum banka.

Ég bið þingheim að haga orðum sínum ekki þannig að ráðherrar, hvorki ég né aðrir, geti gripið í taumana varðandi breytingar á verðlagi, a.m.k. ekki fyrr en þeir vita að eitthvað óeðlilegt á sér stað. Ég endurtek að reynt verður með öllum hætti að hafa strangt eftirlit með verðlagi. En ég harma þau ummæli í ræðu einni hér áðan að fólk hafi ekki tíma til þess að fylgjast með verðlagi. Þegar gefnar eru út auglýsingar og könnun sem unnin er fyrir almenning veit ég ekki hver á að taka að sér að sjá um innkaup heimilanna ef húsmæður segja og heimilisfólk að það megi ekkert vera að því að kynna sér þau mál sem fyrir liggja. Verður samfélagið að fara að kaupa inn fyrir þessi heimili?

1