10.03.1986
Efri deild: 59. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3012 í B-deild Alþingistíðinda. (2540)

321. mál, tollskrá

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Frsm. fjh.- og viðskn. hefur gert grein fyrir áliti nefndarinnar á þessu máli, en eins og þar kom fram skrifa ég undir álitið með fyrirvara og mun sitja hjá í atkvæðagreiðslu um þetta mál. Það geri ég vegna þess að þetta mál er hluti af þeim efnahagsaðgerðum sem ríkisstj. stendur fyrir í kjölfar nýgerðra kjarasamninga og hefur afstaða mín til samninganna og þess hluta þeirra sem lögfestur var hér í þingsölum ekki breyst á þeim 10 dögum sem liðnir eru frá því að umræddar efnahagsaðgerðir gengu í garð. Við afgreiðslu þeirra sat ég hjá á forsendum sem tilgreindar eru á nál. sem er að finna á þskj. 561.

Eins og þar kemur fram eru ástæður þess að ég get ekki stutt þessar aðgerðir fjölmargar. Ég vil endurtaka þær meginástæður að hvorki muni þessar aðgerðir breyta þeirri óréttlátu tekjuskiptingu sem viðgengst í þjóðfélaginu, og þá á ég einkum við að konum eru enn skömmtuð þvílík smánarlaun að til skammar er fyrir íslenskt þjóðfélag, auk þess sem aðgerðirnar stefna ríkisfjármálum í þvílíka óvissu að ekki má fyrir sjá hvernig endar.

Hvað þetta sérstaka frv. varðar sem hér er nú til umræðu þá er það hluti af þessari heild og um það gegnir því hið sama og um aðgerðirnar sem þegar hafa verið lögfestar. Reyndar snertir það einnig beint þau atriði sem ég minntist á hér áðan. Frv. fjallar um tollalækkun á bifreiðum og víst má vera að láglaunakonurnar sem ég nefndi hafi ekki efni á að kaupa neina bíla hvort sem er. Í öðru lagi er ljóst að kostnaður fyrir ríkissjóð af þessu frv. verður töluverður. Á fundi fjh.og viðskn. áðan kom fram hjá hæstv. fjmrh. að kostnaðurinn gæti nálgast u.þ.b. 100 milljónir, án þess þó að það hefði verið reiknað út nákvæmlega. Ljóst er því að þetta frv. mun ekki draga úr þeim kostnaði sem ríkissjóður hefur af þessum aðgerðum og sem engar tillögur hafa komið fram um hvernig beri að mæta.

Ég mun þess vegna, virðulegi forseti, sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.