10.03.1986
Efri deild: 59. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3014 í B-deild Alþingistíðinda. (2542)

321. mál, tollskrá

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það má kannske til sanns vegar færa, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði áðan, að það hefði kannske verið skynsamlegra og æskilegra að þessi verðlagsniðurfærsla hefði komið fram á einhverjum öðrum vörum. En umræðan núna snýst hreint ekki um það vegna þess að verið er að gera þá leiðréttingu sem bersýnilega þarf, því miður, til þess að við það verði staðið sem sagt var þegar frv. um þetta sama efni var afgreitt fyrir röskri viku. Það hefði auðvitað verið best fyrir alla ef rétt hefði verið reiknað í upphafi.

Nú er komið í ljós að þær tölur sem byggt var á voru rangar og þess vegna þarf að leiðrétta frá því sem samþykkt var áður. Ég greiddi atkvæði með tollalækkunarákvæðunum í því frv. sem þá var samþykkt og þess vegna stefndi ég að því að leiðrétta þetta án þess að hafa á því nokkurn fyrirvara. Ég hefði satt að segja líka getað tekið undir það að ástæðulaust hefði verið að lækka nokkuð þessa stóru og dýru bíla. Þeir hefðu mátt halda sér alveg í því háa verði sem þeir voru í. Ég hefði talið ástæðulaust að lækka þá. En ég sé ekki nokkra ástæðu til að agnúast út í það þó að minni bílarnir lækki ívið meira.

Mér finnst það röksemd á mörkum þess sem boðlegt er að flytja hér á Alþingi að þetta komi sér illa fyrir þá sem hafa átt gamla bíla og hafa ættað að selja þá til að nota andvirðið til einhvers annars. Þá finnst mér ansi langt gengið og málflutningurinn satt að segja furðulegur. Ég skil heldur ekki málflutning hv. þm. Sigríðar Dúna Kristmundsdóttir, að þessar lækkanir komi láglaunafólki og láglaunakonum ekki til góða. Nú er það svo að bifreiðar á Íslandi eru orðnar almenningseign hvort sem fólki líkar það betur eða verr og ég sé ekki betur en að þessar verðlækkanir á bifreiðum gefi láglaunafólki, hvort sem það eru konur eða karlar, meiri möguleika á að eignast bifreið heldur en áður voru fyrir hendi. Það sýnist mér liggja í hlutarins eðli. Ef fólk kýs að verja sínum fjármunum þannig og stofna til þess að eignast bifreið hlýtur það að vera auðveldara nú en áður var. A.m.k. sýnist mér það liggja í hlutarins eðli. En ég endurtek að mér finnst það afar hæpnar röksemdir að hafa það á móti tollalækkunum á bifreiðum að þá muni gamlar bifreiðir lækka í verði. Mér finnst það afar hæpin röksemdafærsla. Ég styð þessa breytingu án nokkurs fyrirvara vegna þess einfaldlega að ég hafði lýst stuðningi við þær tollabreytingar sem voru í frv., sem ég hef áður minnst á, og hér er eingöngu verið að gera ráðstafanir til þess að það standist sem þá var sagt.