10.03.1986
Efri deild: 59. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3015 í B-deild Alþingistíðinda. (2543)

321. mál, tollskrá

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það er rangtúlkun á mínu máli að ég hafi verið að flytja rök gegn þessum áformum um lækkun tolla á minni bifreiðum. Ég vakti hins vegar athygli á því að það eru tvær hliðar á þessari breytingu. Ég vakti athygli á því að þegar breyting af þessu tagi á sér stað þá er ekki víst að hún komi sér svo ákaflega vel fyrir alla. Sumir þurfa á því að halda að kaupa bff en á tímum mikilla þrenginga getur líka verið býsna stór hópur sem þarf á því að halda að selja bíl. Það er því ekki hægt að loka augunum fyrir þeirri staðreynd að þessi breyting kann að koma sér illa fyrir ýmsa. Ég vakti á þessu athygli og benti á að málið hefði tvær hliðar, bæði dökka og ljósa. Og ég sé ekki neitt furðulegt við það að á þetta sé bent eða vakin sé athygli á því að tvær hliðar séu á málinu. Þar fyrir styð ég það að þessi breyting eigi sér stað.

En fyrirvari minn er fyrst og fremst til kominn vegna þess að það er ákaflega klaufalega að þessu máli staðið í heildina tekið. Það er greinilega kostað til 100 millj. kr. meira en til var ætlast í upphafi og þessar 100 millj. úr ríkissjóði koma fyrst og fremst í hlut þeirra sem eru að kaupa stóru bílana. Það er alveg ljóst. Eftir að búið er að gera þessar tvær breytingar þá er það greinilega ákveðinn hópur manna sem hefur fengið miklu meira út úr þessari breytingu en til stóð í upphafi. Það eru þeir sem ætluðu sér að kaupa stóru bílana og ríkissjóður blæðir fyrir þetta, sjálfsagt upp undir 100 millj. eins og hér hefur komið fram. Það er þess vegna sem ég hef fyrirvara við það sem hér er verið að gera. Það er klaufalega á þessu haldið. Afleiðingin af þessu er allt önnur en áður var ráð fyrir gert fyrir ríkissjóð og fyrir alla þá sem kaupa bifreiðar. Því er fyllsta ástæða til þess að hafa hér uppi fyrirvara um leið og vakin er athygli á því að verið er að færa niður verðlag og það hefði vissulega mátt finna aðrar leiðir til niðurfærslu verðlags sem hefðu komið láglaunafólki betur.