10.03.1986
Efri deild: 59. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3016 í B-deild Alþingistíðinda. (2545)

321. mál, tollskrá

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, 11. þm. Reykv., kvartaði undan því að ég hefði snúið út úr orðum sínum. Það gerði ég ekki. Hún lýsti á sínum tíma andstöðu við það frv. sem hér var flutt til staðfestingar á þeim kjarasamningum sem tekist höfðu milli aðila vinnumarkaðarins með uppáskrift og ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Hún lýsti andstöðu við það frv. og greiddi því ekki atkvæði. Hún hefur jafnframt sagt að þessi breyting komi ekki láglaunakonum til góða og því styðji hún hana ekki. Það eina sem ég sagði hér var að ef eitthvað væri þá gerði þessi lækkun láglaunafólki auðveldara að eignast bifreið en áður var og það stendur. Ég hygg að það sé ekki nokkur vegur að andmæla því.

Hún hafði einnig um það orð að ég hefði lýst stuðningi við þessa breytingu en væri þó í stjórnarandstöðu. Það er alveg rétt. Ég lýsti stuðningi við þessar tollalækkanir. Svo blindir mega þm. ekki vera að þeir geti ekki stutt góð mál aðeins af því að þau koma frá ríkisstjórn sem þeir annars eru andsnúnir. Ég held að það sé óheppileg þröngsýni hjá hv. þm. að beita atkvæði sínu á hinu háa Alþingi á þann veg að vera á móti málum sem ríkisstjórnin flytur aðeins af því að ríkisstjórnin flytur þau en ekki taka afstöðu til mála út frá efni og efnisrökum hvers máls. En það verður hver og einn þm. að gera upp við sig og sína samvisku hvernig hann stendur að afgreiðslu mála.