10.03.1986
Efri deild: 59. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3016 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

321. mál, tollskrá

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Vegna þeirra athugasemda sem hér hafa komið fram er rétt að ítreka það enn að þau mistök sem hér áttu sér stað byggðust á því að upplýsingar sem fyrir lágu gáfu til kynna annars konar samsetningu á innflutningi en í raun er um þessar mundir. Þróunin hefur verið sú að innflutningur hefur aukist á litlum bílum en dregist saman á stærri bílum. Það mun sanni nær að u.þ.b. 90% af öllum innfluttum bílum eru með vél sem er undir 2000 cm3 slagrými. Þess vegna er nauðsynlegt að taka það fram, vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið, að sá kostnaðarauki sem kann að leiða af þessari viðbótarbreytingu á fyrst og fremst rætur að rekja til þess að verið er að lækka minni bíla meir en frv. gerði upphaflega ráð fyrir. Það er af þeim sökum sem einhver kostnaðarauki verður augljós1ega af þessum viðbótarráðstöfunum. Stóru bílarnir, yfir 2000 cm3 slagrými, eru ekki nema 10% af innflutningnum og breytingar á aðflutningsgjöldum þeirra ráða því ekki neinum úrslitum um kostnað af þessum aðgerðum. Nauðsynlegt er að það liggi alveg ljóst fyrir að kostnaðurinn við þessar aðgerðir er fyrst og fremst í því fólginn að litlu bílarnir eru nú svo miklu stærri hluti af innflutningnum en áður og hér er um að ræða viðbótarlækkun á þeim og kostnaðurinn kemur til af þeim ástæðum.